Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2010 nam kr. 531 millj. eftir skatta, en árið 2009 var hagnaður félagsins kr. 223 millj.

Rekstrartekjur LVF að frádregnum eigin afla voru kr. 4.204 millj. og hækkuðu um 45% miðað við fyrra ár.

Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (ebitda) var kr. 814 millj., sem er 19,4% af tekjum, en árið 2009 var ebitda kr. 680 millj. og 23,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri er kr. 717 millj., sem er 17,1% af tekjum, en var kr. 545 millj. eða 18,8% árið 2009. Afskriftir voru kr. 212 millj. samanborið við kr. 199 millj. árið 2009.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.688 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings, en var kr. 1.208 millj. árið á undan. Eigið fé hækkaði um 40% á milli ára og var arðsemi eigin fjár 31,5% Nettó skuldir félagsins voru kr. 787 millj. og lækkuðu um kr. 653 millj. frá fyrra ári.

Hlutafé LVF er kr. 700 millj. og eru hluthafar 185. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 82,83% eignarhlut, en 10 stærstu hluthafarnir eiga samtals 98% hlutafjárins.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 8. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 10% arð að fjárhæð 70 millj. króna.

Stjórn Loðnuvinnslunnar h/f var öll endurkjörin, en hana skipa: Friðrik M. Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn B. Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson. Varamenn Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.

Framkvæmdastjóri er Gísli J. Jónatansson.