Loðnufréttir

Í gær komu tveir loðnubátar til Fáskrúðsfjarðar. Færeyska skipið Júpiter kom með um 1600 tonn og Hoffell sem var með um 1000 tonn. Loðnan fer í kreistingu og eru hrognin fryst fyrir Japansmarkað.

Nú fer loðnuvertíð senn að ljúka, en Hoffell á eftir að fara einn túr í viðbót.

Myndin er af Júpiter frá Götu.

Loðnufréttir

Á laugardaginn kom til Fáskrúðsfjarðar færeyska skipið Tróndur í Götu með um 1500 tonn af loðnu. Tróndur er nýtt skip sem kom til Færeyja fyrir um einu ári. Skipið er um 81 m. að lengd og 16,6 m. breitt. Tróndur í Götu er tvímælalaust eitt glæsilegasta fiskiskipið hér á norðurslóðum. Skipstjóri á Tróndi í Götu er Frits Thomsen og var hann einnig skipstjóri á eldra skipi með sama nafni.

Í dag er verið að landa um 800 tonnum af loðnu úr færeyska skipinu Jupiter og Hoffell er á heimleið með um 1100 tonn.

Myndin er af Tróndi í Götu.

Loðnufréttir

Í dag er verið að landa úr færeyska skipinu Finni Fríða um 1500 tonnum af loðnu og er þetta annar loðnufarmurinn sem Finnur Fríði kemur með til Fáskrúðsfjarðar á þessari vertíð. Loðnan veiddist út af Snæfellsnesi. Loðnan er kreist og eru hrognin fryst hjá LVF, en annað af loðnunni fer í mjöl- og lýsisvinnslu hjá fyrirtækinu.

Loðnuvertíðin á Fáskrúsðfirði

Loðnuvertíðin stendur nú sem hæst. Í nótt var verið að landa úr Hoffelli þriðja farminum og með því eru komin á land um 7000 tonn á Fáskrúðsfirði. Auk afla Hoffells hafa færeysku skipin Finnur Fríði og Júpiter landað hér einu sinni. Hrognavinnslan er nú komin vel í gang og fiskimjölverksmiðjan gengur hér allan sólarhringinn. Fyrsta loðnan barst til Fáskrúðsfjarðar 11. febrúar, en Hoffell hafði verið á gulldeplu og aflað um 4500 frá því í desember s.l. Loðnuvertíðin fór því seinna af stað á Fáskrúðsfirði en annarsstaðar, en nú er hún komin í fullan gang og skapar mikla atvinnu fyrir Fáskrúðsfirðinga og aðra þá sem hingað eru komnir til starfa.

Verkfalli aflýst

Verkfalli starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum var aflýst seinni partinn í gær án þess að samningar hefðu tekist.

Loðnuvertíðin getur því haldið áfram á eðlilegan hátt og senn fer hrognafrysting í gang. Hoffell lét úr höfn gærkveldi áleiðis á loðnumiðin.

Verkfallsboðun

Samninganefndir Afls Starfsgreinafélags og Drífanda stéttarfélags hafa tilkynnt að samþykkt hafi verið að boða til vinnustöðvunar í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæðum félaganna. Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin með leynilegri og skriflegri atkvæðagreiðslu í hvoru félagi fyrir sig, meðal allra félagsmanna ofangreindra stéttarfélaga sem vinna í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæðum félaganna. Vinnustöðvunin var samþykkt með 77,8% atkvæðisbærra félagsmanna í Drífanda og 75,4% atkvæðisbærra félagsmanna í Afli.



Vinnustöðvunin hefst kl. 19:30 þann 15. febrúar 2011 og er ótímabundin, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma.

Gleðilegt nýtt ár 2011

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf óska starfsfólki sínu, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, farsældar á nýju ári.

Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Umf. Leiknir 70 ára

Hinn 23. október s.l. var haldið upp á 70 ára afmæli Ungmennafélagsins Leiknis á Fáskrúðsfirði. Afmælishátíðin fór fram í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Í upphafi hátíðarinnar rakti Magnús Stefánsson fyrrv. kennari sögu Umf. Leiknis fram á þennan dag. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Elín Rán Björnsdóttir, formaður ÚÍA, ávörpuðu samkomuna og afhentu blóm í tilefni afmælisins. Þá færði Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri LVF og KFFB, Ungmennafélaginu peningafjöf frá félögunum að fjárhæð kr. 700.000. Jakob Skúlason, stjórnarmaður í KSÍ, sæmdi Stein Björgvin Jónasson, formann Umf. Leiknis, og Steinunni Björgu Elísdóttur, silfurmerki KSÍ, fyrir störf þeirra í þágu knattspyrnuíþróttarinnar. Í lok samkomunnar sæmdi formaður Umf. Leiknis Gísla Jónatansson gullmerki Leiknis fyrir dyggan stuðning hans og fyrirtækjanna sem hann stýrir við Umf. Leikni.

Gjöf til Hellisins

Stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga ákvað á fundi sínum þann 30. sept. s.l. að færa Félagsmiðstöðinni Hellinum (Æskó) á Fáskrúðsfirði hljómflutningstæki að gjöf fyrir starfsemina. Gísli Jónatansson, kfstj. afhenti gjöfina í síðustu viku forstöðukonum Hellisins, þeim Guðfinnu E. Stefánsdóttur og Guðbjörgu Steinsdóttur. Hellirinn er til húsa í Félagsheimilinu Skrúði.

Hátíðleg athöfn

Við messu í Fáskrúðsfjarðarkirkju 17. október s.l. var 33 einstaklingum athent sérstakt viðurkenningar- og þakklætisskjal fyrir þátttöku sína við björgun tveggja starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf úr lest Hoffells 14. febrúar s.l.

Páli S. Rúnarssyni og Rimantas Mitkus var einnig færð gjöf frá starfsfólki Loðnuvinnslunnar hf., sem var málverk eftir Helmu Þorsteinsdóttur, sem listakonan nefnir „Verndarengillinn þinn“.

Athöfnin var hátíðleg og voru kirkjugestir um 100 talsins.

Björgunarfólk heiðrað

Guðsþjónusta verður í Fáskrúðsfjarðarkirkju sunnudaginn 17. október kl. 14.oo. Prestur séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir. Í athöfninni verður þeim sem komu að björgun tveggja starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf úr lest Hoffells SU 80 þann 14. febrúar s.l. veittar sérstakar viðurkenningar fyrir þátttöku sína við björgun mannanna, sem lánaðist einstaklega vel.

Eftir athöfnina býður Loðnuvinnslan hf kirkjugestum til kaffisamsætis í Félagsheimilinu Skrúði. Slysavarnadeildin Hafdís annast veitingarnar.

Ferðalag starfsmanna

Hópur starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf fór í vikuferð til Tyrklands þann 11. september s.l., þar af leiðandi er skiptiborð fyrirtækisins lokað til mánudagsins 20. september.

Framleiðsla er samt sem áður í frystihúsinu á Fiskeyri og Ljósafell rær til fiskjar sem fyrr. Þeim sem þurfa að ná í starfsmenn fyrirtækisins er bent á símaskrá hér á heimasíðunni. Hægt er að ná í framkvæmdastjóra í síma 470-5001 og 892-7170 og framleiðslustjóra í síma 470-5004 og 893-9008 sem báðir eru við störf í fyrirtækinu.