Hafin er endurbygging á Wathneshúsi á Fáskrúðsfirði í samstarfi við Húsafriðunarnefnd. Wathneshús er talið byggt árið 1882 þegar Otto Wathne hóf síldveiðar frá Fáskrúðsfirði og er elsta hús á Búðum. Húsið var upphaflega byggt sem sjóhús og var áföst bryggja út frá húsinu. Húsið hefur gegnt margvíslegum hlutverkum um dagana sem aðallega hafa tengst sjávarútvegi, sem sjóhús, saltfiskverkun, saltgeymsla og áhaldahús. Í síðari heimsstyrjöldinni dvöldu í húsinu 6-8 breskir hermenn. Fyrir allmörgum áratugum var húsinu breytt og það stækkað til norðurs, en nú verður það minnkað og fær upphaflegt útlit og verður aftur um 160 m2 að flatarmáli. Eigandi hússins í dag er Loðnuvinnslan hf og stendur það við Hafnargötu 7. Elís Eiríksson verkfræðingur á Egilsstöðum sér um endurhönnun hússins, en Aðalsteinn Skarphéðinsson, húsasmíðameistari frá Húsavík, og Gunnar Guðlaugsson, starfsmaður á trésmíðaverkstæði LVF, annast framkvæmdina.
Svarta húsið á miðri mynd er Wathneshús. Myndina sendi Björgvin Baldursson.