Hrognafrysting hafin

Færeyska skipið FINNUR FRÍÐI kom til Fáskrúðsfjarðar í gær með um 2000 tonn af loðnu. Verið er að taka hrogn úr farminum til frystingar og einnig er verið að frysta loðnu fyrir Austur-Evrópumarkað.

Loðnulöndun

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 2400 tonn af loðnu sem veiddist við Vestmannaeyjar. Loðnan fór bæði í frystingu og bræðslu.

Loðnu- og kolmunnalandanir

11. febrúar. Norðborg frá Klaksvík landaði 2400 tonnum af loðnu í bræðslu og frystingu í gær. Í nótt er Finnur Fríði væntanlegur með 2400 tonn af kolmunna sem veiddist í alþjóðasjónum vestur af Írlandi. Er þetta þriðja kolmunnalöndunin á þessu ár því áður lönduðu Júpiter 2000 tonnum og Trónur í Götu 2500 tonnum.

Fyrsti kolmunninn kominn

Í morgun kom færeyski báturinn Júpiter með 2000 tonn af kolmunna til Fáskrúðsfjarðar og er þetta fyrsta kolmunnalöndunin á árinu. Skipið fékk þennan afla vestur af Írlandi og eru u.þ.b. 700 mílna sigling til Fáskrúðsfjarðar.
Myndin er af Júpiter á leið inn Fáskrúðsfjörð í morgun.

Í kvöld er svo von á færeyska skipinu Tróndi í Götu til Fáskrúðsfjarðar með um 2600 tonn af kolmunna.

Ritari óskast

Loðnuvinnslan h/f óskar eftir að ráða ritara við frystihúsið á Fiskeyri. Starf ritara er hlutastarf og þarf viðkomandi að geta hafið störf 1. febrúar 2006. Skriflegar umsóknir sendist til Þorra Magnússonar, framleiðslustjóra.

Jólakveðja

Loðnuvinnslan h/f óskar starfsfólki sínu, hluthöfum, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Skötuveisla LVF

Í hádeginu í dag var haldin skötuveisla í kaffistofu frystihússins á Fiskeyri. Um 120 manns tók þátt í veislunni, en auk starfsfólks LVF mættu nokkrir af fyrrverandi starfsmönnum og gæddu sér á þessu lostæti sem bragðaðist einstaklega vel. Einnig var boðið upp á úrvals saltfisk af gerðinni A-plús, ediksíld LVF og rúgbrauð. Yfirmatreiðslumeistari var Þorri Magnússon og aðstoðarkokkar Gunnar J. Jónsson, Ingólfur Hjaltason, Anna K. Hjaltadóttir og Dagbjört Sigurðardóttir. Það var létt yfir mönnum í veislunni, enda jólagleðin og jólaskapið alls ráðandi.

Kveikt á jólatrénu

Kveikt var á jólatrénu við Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga í dag. Að því tilefni komu börnin frá leikskólanum Kærabæ og yngstu nemendur Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og sungu jólalög.

Hluthafafundur LVF

Í dag kl. 17.30 var haldinn hluthafafundur LVF að Óslandi, Fáskrúðsfirði.

Mættir voru hluthafar sem höfðu yfir að ráða 90,64% hlutafjárins.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða:

„Hluthafafundur Loðnuvinnslunnar h/f haldinn á Fáskrúðsfirði 29. nóvember 2005 samþykkir að hækka hlutafé félagsins um kr. 19.552.798 að nafnverði úr kr. 680.447.202 í kr. 700.000.000.

Hluthafafundurinn samþykkir að nýja hlutaféð verði selt á genginu 3,8 eða á kr. 74.300.632 og að hluthafar falli frá forkaupsrétti.“

Samþykkt þessi er gerð í framhaldi af kaupum LVF á kvóta í loðnu, þorski og karfa nú í haust. LVF hefur nú yfir að ráða 5.164 þorskíg.tonnum í íslenskri landhelgi. Auk þess er LVF m.a. með 4,83% aflahutdeild í kolmunna.

LVF er nú í 18. sæti yfir kvótahæstu fyrirtæki landsins innan íslenskrar lögsögu.

Ferð til Prag

Vegna ferðar starfsfólks Loðnuvinnslunnar h/f til Prag verða skrifstofur LVF lokaðar frá 17/11-21/11 2005. Skrifstofurnar verða opnar frá og með þriðjudeginum 22. nóvember 2005.

Hluthafafundur LVF

Loðnuvinnslan h/f boðar til hluthafafundar þriðjudaginn 29. nóvember 2005 kl. 17.30. Fundurinn verður haldinn að Óslandi (slysavarnahúsið), Fáskrúðsfirði.

Fundarefni:

1. Hlutafjáraukning

2. Önnur mál