Á Fáskrúðsfirði er beðið eftir því að Hoffell geti haldið til síldveiða, þar sem Loðnuvinnslan hf er eina fyrirtækið sem enn framleiðir saltsíld. Það sem af er árinu er búið að úthluta 10.000 tonnum af íslenskri sumargotssíld, en það var gert til að mæta meðafla með makríl í sumar. Á s.l. ári var úthlutað 40.000 tonnum af Íslandssíldinni og vona menn að úthlutunin nú verði ekki minni. Skv. rannsóknum á síldinni í sumar virtist sýkingin vera að ganga nokkuð til baka. Undirmenn á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni hafa að undanförnu verið í verkfalli og hefur það komið niður á rannsóknum bæði á síld og loðnu. Rannsóknarskipið Dröfn hóf þó síldarrannsóknir á Breiðafirði 19. október s.l. og skip frá Skinney-Þinganesi ætlaði að halda til síldveiða undan Suðurlandi, en þeir áttu eftir einhvern kvóta frá í sumar. Það verður því vonandi ekki langt að bíða eftir frekari úthlutun á íslensku sumargotssíldinni.