Aðfaranótt 5. nóvember s.l. missti flutningaskipið Alma stýrið er það var að sigla út frá Hornafirði. Hoffell var á leið til síldveiða í Breiðafirði er skipið fékk kall frá Landhelgisgæslunni vegna neyðarástands Ölmu úti fyrir Hornafjarðarósi. Um kl. 06.00 var komið taug á milli skipanna, en veður var vont og slitnaði taugin eftir um tvo tíma, en þá hafði tekist að koma Ölmu nokkuð vel frá landi. Vegna veðurs var ekki komið taug aftur á milli skipanna fyrr en um kl. 15.30. Í fyrstu var ætlunin að Hoffell myndi draga skipið til Reyðarfjarðar, en síðar var fallið frá því og ákveðið að draga skipðið inn til Fáskrúðsfjarðar. Skipin lögðust svo að bryggju á Fáskrúðsfirði um kl. 03.30 6. nóvember. Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni, þyrla send austur og tvö varðskip send af stað. Annað þeirra var hið nýja varðskip Þór. Þegar Hoffell var komið með Ölmu í mynni Fáskrúðsfjarðar var varðskipinu Ægi snúið við, en Þór hélt austur til Reyðarfjarðar. Björgun Ölmu tókst í alla staði vel og urðu engin slys á mönnum við björgun skipsins.

Alma er 97 metra langt skip, skráð í Limasson á Kýpur, en eigendur eru frá Úkraínu. Skráður eigandi flutningaskipsins er Armidia Shipping Company Limited.

Á myndinni er Alma við bryggju á Fáskrúðsfirði. Ljósm. Gísli Jónatansson