Milljarður í aflaverðmæti

Það hefur gengið vel hjá Hoffellinu það sem af er ári. Aflaverðmæti er komið yfir 1 milljarð króna sem verður að teljast afar góður árangur, sér í lagi í ljósi þess að engin var loðnan s.l vetur, og full ástæða til að fagna slíkum áfanga. Áhöfinni var færð kaka að þessu tilefni sem gerð voru góð skil.  “Kakan klikkar ekkert” sagði Sigurður skipstjóri þegar kökuna bar á góma og hann var að vonum stoltur og ánægður með árangurinn og sagði réttilega að þetta snérist allt um verðmæti. 

Hoffellið er í síðasta síldartúrnum að sinni. Þegar greinarhöfundur náði tali af skipstjóranum var skipið komið út undir Skrúð á leið norður í Seyðisfjarðardýpi þar sem freista skal þess að ná í loka 400 tonnin af síldinni. “Síldin hefur verið mjög góð á þessari vertíð” svaraði Sigurður aðspurður.  

Eftir þennan síldartúr fer Hoffell í slipp til Færeyja. Þar á að ljúka við að skipta út kælikerfinu. Undirbúningsvinna hefur þegar farið fram í síðasta slipp en nú er komið að því að ljúka því verki.  Nýja kerfið verður ammoníak-kerfi en  það er náttúrlegt efni sem kælir umtalsvert hraðar og betur en það sem áður var. En kæling getur skilið á milli hversu góður afli kemur að landi og því mikilvægt er að kæla aflann sem hraðast niður. 

Sigurður skipstjóri fer í frí meðan skipið verður í slipp og þegar hann var inntur eftir því hvort að hann ætlaði að gera eitthvað sérstakt í fríinu sínu svaraði hann að það væri svo sem ekki margt, ekki væri gott að ferðast mikið á þessum tímum svo að tímanum verður varið með fjölskyldunni. Það má sjálfsagt segja um aðra áhafnameðlimi Hoffels líka. Heima að brasa með börn og bú og ef til vill æfa sig í svolítilli núvitund.

BÓA

Áhöfnin með kökuna sem klikkar aldrei

Gjöf í Glaðheima

Til er fallegt kínverskt máltæki sem segir: “Ein kynslóð sáir til trésins, önnur situr í skugga þess”.  Þessi setning kom í hugann þegar Kaupfélagið færði Félagi eldri borgara á Fáskrúðsfirði 75” tommu snjallsjónvarp ásamt Bluray spilara að gjöf. Er búið að koma sjónvarpinu fyrir í Glaðheimum þar sem félagsstarfið fer fram. Þórormur Óskarsson er formaður félagsins og sagði hann að gjöfin væri afar kærkomin. “Nú getum við haft ljósmyndasýningu á skjánum, við getum horft á mynddiska auk þess að horfa á sjónvarpsdagská”. Og þegar greinarhöfundur átti spjall við Þórorm voru viðstaddir að horfa á upplýsingafund almannavarna. “Við erum afar þakklát fyrir gjöfina” bætti Þórormur við og sagði að Félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði kæmi til með að hafa litlar tekjur þetta árið líkt og mörg önnur félög þar sem starfsemi hefur verið afar takmörkuð vegna faraldursins. En nú er verið að reyna að blása í lúðra og hafa opið tvisvar í viku ef fólk vill líta inn og taka í spil, spjalla og fá sér kaffisopa eða horfa á sjónvarpið í góðum félgsskap.

BÓA

Frá vinstri: Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins, Þórormur Óskarsson formaður Félags eldri borgara á Fáskrúðsfirði og Friðrik Mar Guðmunsson kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Sjónvarpið góða í bakgrunni.

Hoffell

Hoffell kom inn morgun með rúm  400 tonn af síld. Síldin fer til söltunar og einnig er hluti hennar frystur í beitu.

Hoffell SU

Hoffell er á landleið með rúm 400 tonn af síld.  Síldin verður söltuð og fryst í beitu

Hoffell SU

Hoffell kom inn í fyrrinótt með 400 tonn af góðri síld sem fékkst um 60 mílur frá Fáskrúðsfirði. Túrinn tók aðeins 17 tíma höfn í höfn. Hluti aflans er frystur í beitu og hluti hans saltaður.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í dag með tæp 40 tonn þar af 20 tonn þorskur, 15 tonn karfi og annar afli.

Skipið fer út að lokinni löndun.

Hafrafell SU

Síðastliðna viku hefur Hafrafell verið í yfirhalningu í slippnum á Akureyri. Áætlað er að verkið taki um viku til viðbótar áður en báturinn verður klár til veiða að nýju. Í dag lítur hann svona út eftir þrif og málningu.

Hafrafell SU

Sandfell fór niður úr slippnum á Akureyri fyrir helgi og þá var Hafrafell tekið upp á sama tíma.

Sandfell var 2 vikur í slippnum í fyrirbyggandi viðhaldi og reiknað er með að Hafrafell verið svipaðan tíma.

Ljósafell SU

Ljósafell kom að landi í dag með um 90 tonn. 60 tonn þorskur, 10 tonn ýsa, 10 tonn ufsi og annar afli.

Skipið fer út um hádegisbil á morgun.

Hoffell SU

Meðfylgjandi mynd var tekin af áhöfn Hoffells í gær þegar skipið var að leggja af stað á makrílmiðin frá Fáskrúðsfirði.   Áhöfnin tók við köku í tilefni þess að sl. ágústmánuður er besti mánuður frá upphafi í aflaverðmæti,  en aflaverðmætið var um 300 milljónir króna.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í kvöld með 95 tonn.  Þar af er 45 tonn þorskur, 30 tonn karfi, 10 tonn ýsa og 10 tonn ufsi.

Skipið fer út á fimmtudagsmorgun.