Það hefur gengið vel hjá Hoffellinu það sem af er ári. Aflaverðmæti er komið yfir 1 milljarð króna sem verður að teljast afar góður árangur, sér í lagi í ljósi þess að engin var loðnan s.l vetur, og full ástæða til að fagna slíkum áfanga. Áhöfinni var færð kaka að þessu tilefni sem gerð voru góð skil.  “Kakan klikkar ekkert” sagði Sigurður skipstjóri þegar kökuna bar á góma og hann var að vonum stoltur og ánægður með árangurinn og sagði réttilega að þetta snérist allt um verðmæti. 

Hoffellið er í síðasta síldartúrnum að sinni. Þegar greinarhöfundur náði tali af skipstjóranum var skipið komið út undir Skrúð á leið norður í Seyðisfjarðardýpi þar sem freista skal þess að ná í loka 400 tonnin af síldinni. “Síldin hefur verið mjög góð á þessari vertíð” svaraði Sigurður aðspurður.  

Eftir þennan síldartúr fer Hoffell í slipp til Færeyja. Þar á að ljúka við að skipta út kælikerfinu. Undirbúningsvinna hefur þegar farið fram í síðasta slipp en nú er komið að því að ljúka því verki.  Nýja kerfið verður ammoníak-kerfi en  það er náttúrlegt efni sem kælir umtalsvert hraðar og betur en það sem áður var. En kæling getur skilið á milli hversu góður afli kemur að landi og því mikilvægt er að kæla aflann sem hraðast niður. 

Sigurður skipstjóri fer í frí meðan skipið verður í slipp og þegar hann var inntur eftir því hvort að hann ætlaði að gera eitthvað sérstakt í fríinu sínu svaraði hann að það væri svo sem ekki margt, ekki væri gott að ferðast mikið á þessum tímum svo að tímanum verður varið með fjölskyldunni. Það má sjálfsagt segja um aðra áhafnameðlimi Hoffels líka. Heima að brasa með börn og bú og ef til vill æfa sig í svolítilli núvitund.

BÓA

Áhöfnin með kökuna sem klikkar aldrei