Víkingur hefur landað 5000 tonnum af síld
Í gær 30. október var Víkingur AK búinn að landa 5000 tonnum af síld hjá Loðnuvinnslunni hf í haust og af því tilefni var þeim færð fallega skreytt rjómaterta. Að löndun lokinni tók áhöfn Víkings helgarfrí og jafnframt verður langþráð helgarfrí hjá starfsfólki LVF í söltun og frystingu.
Á myndinni sést Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri færa Sveini Ísakssyni skipstjóra tertuna.
Víkingur AK
Víkingur AK kom til löndunar klukkan sex í morgun með 430 tonn af síld sem fékkst í þremur köstum rétt norður af Seyðisfjarðardýpi, en síldin er frekar blönduð. Síldin fer í salt, frost og bræðslu. Myndin er tekin í morgun þegar verið var að landa úr Víkingi.
Síldarlöndun
Víkingur AK 100 er væntanlegur um kl. 11.00 til Fáskrúðsfjarðar með um 350 tonn af síld.
Hagnaður LVF kr. 74 millj.
Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar hf fyrstu 9 mánuði ársins 2003 varð kr. 74 millj. eftir skatta, en hagnaður félagsins eftir 9 mánuði 2002 nam kr. 300 millj.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru liðlega 2 milljarðar og höfðu aukist um kr. 126 millj. miðað við sama tímabil fyrir ári og rekstrargjöld námu kr. 1695 millj. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 331 millj. eða 16% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 277 millj. eða 14% af veltu. Afskriftir voru kr. 208 millj.. Fjármagnsliðir eru nú neikvæðir um kr. 36 millj., en voru jákvæðir um 94 millj. á sama tíma í fyrra. Eigið fé félagsins var kr. 1400 millj. og eiginfjárhlutfall 46% og hafði eigið fé hækkað um 57 millj. milli ára. Nettó skuldir voru liðlega milljarður og hafa lækkað um kr. 168 millj. miðað sama tíma 2002.
Ástæður lakari afkomu miðað við fyrra ár eru einkum þær að fjármagnsliðir eru nú óhagstæðari sem nemur kr. 130 millj. Þá hefur afkoma frystingar versnað til muna og er framlegð fiskvinnslu um kr. 80 millj. lakari en á sama tíma 2002.
Fiskimjölsverksmiðja LVF tók á móti 108 þús. tonnum af hráefni á tímabilinu sem er met hjá fyrirtækinu og þar af voru 68 þús. tonn kolmunni. Á sama tímabili 2002 tók verksmiðjan á móti 76 þús. tonnum af hráefni.
Afkoma Loðnuvinnslunnar á síðasta ársfjórðungi ræðst einkum af því hvernig síldarvertíð gengur, verðlagi á erlendum mörkuðum og af þróun á gengi íslensku krónunnar.
Hægt er að skoða milliuppgj. undir ársreikningar.
Síldarlöndun
Víkingur AK 100 kom í morgun með um 350 tonn af síld til löndunar hjá LVF.
Víkingur AK 100
Víkingur AK kom í morgun til Fáskrúðsfjarðar með um 600 tonn af síld, sem fer bæði til söltunar og frystingar hjá LVF. Síldin veiddist aðallega á Vopnafjarðargrunni. Víkingur er þá búinn að landa um 4000 tonnum af síld hjá LVF á vertíðinni. Skipstjóri á Víkingi er Sveinn Ísaksson.
Mestri síld landað hjá LVF
Skv. upplýsingum frá Samtökum fiskvinnslustöðva í morgun hefur mestri síld verið landað hjá LVF á vertíðinni eða 4589 tonnum. Hjá Skinney- Þinganesi hafði verið tekið á móti 3979 tonnum, Síldarvinnslunni 3802 tonnum, Búlandstindi 2268 tonnum, Ísfélagi Vestmannaeyja 1584 tonnum og Vinnslustöðinni 256 tonnum. Samtals eru þetta um 16500 tonn og á því eftir að veiða um 114 þús. tonn af útgefnum síldarkvóta. Um 8000 tonn hafa farið til frystingar og söltunar á vertíðinni eða um helmingur þess sem komið er á land.
Síldarlöndun
Víkingur AK 100 er á leið til Fáskrúðsfjarðar með um 350 tonn af síld, sem veiddist á Glettinganesgrunni. Von er á skipinu um hádegi.
Meiri síld
Víkingur AK 100 er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar í dag kl. 14.00 með um 400 tonn af síld. Síldin veiddist á Vopnafjarðargrunni.
Síldarlandanir
Í gær landaði Júpiter ÞH 61 hjá LVF 446 tonnum af síld og í dag er verið að landa úr Víkingi AK 100 um 500 tonnum. Síldin, sem veiddist á Vopnafjarðargrunni, er smá og fer því töluvert af henni í bræðslu.
Síldarlandanir
Í dag lönduðu tveir bátar síld sem veiddist á Glettinganesgrunni. Það voru Júpiter ÞH 61 sem landaði 223 tonnum og Víkingur AK 100 sem var með 456 tonn. Síðustu daga hefur verið unnið við síldina á vöktum og vantað hefur fólk til starfa.
Annríki hjá LVF
Mikið hefur verið um síldarlandanir undanfarna daga á Fáskrúðsfirði og því mikið annríki hjá starfsfólki LVF. Síldin sem flökuð hefur verið er bæði unnin í saltflök og bita, og einnig hafa flökin verið fryst. Þá hefur síldin verið söltuð bæði heil og hausskorin. Í dag landaði Víkingur AK 100 um 388 tonnum af síld og fóru 126 tonn til manneldisvinnslu. Það sem af er vertíðinni hafa borist til Fáskrúðsfjarðar um 2200 tonn af síld, sem er mun meira en á sama tíma í fyrra.
Í dag er verið að afskipa um 1300 tonnum af fiskimjöli um borð í flutningaskipið Westerland og flytur skipið það til Danmerkur.