Norsk-ísl. síld
Færeyska skipið Carlton er að landa um 170 tonnum af síld hjá LVF. Síldin fer í bræðslu.
Sigling á sjómannadag
Að venju munu skip Loðnuvinnslunnar hf., Hoffell og Ljósafell, fara í siglingu í tilefni sjómannadagsins. Siglt verður kl 13:00 laugardaginn 31. maí. Svo skemmtilega vill til að þann dag eru liðin 35 ár frá því að Ljósafell SU 70 kom til Fáskrúðsfjarðar, en það lagðist hér fyrst að bryggju 31. maí 1973 eftir 6 vikna siglingu frá Japan. Skipið var lengt og endurbyggt 1988/1989 í NAUTA-skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi og 2007/2008 var það endurbyggt á ný í ALKOR-skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Fáskrúðsfirðingum og öðrum gestum býðst nú tækifæri til að skoða skipið eftir breytingarnar, en sökum mikilla verkefna hefur almenningi ekki verið gefinn kostur á því fyrr en nú. Loðnuvinnslan hf óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju í tilefni sjómannadagsins.
Næraberg komið á ný
Færeyska skipið Næraberg kom í gærkvöldi til Fáskrúðfjarðar með um 1750 tonn af kolmunna.
Norsk- íslensk síld
Færeyska skipið Saksaberg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkvöldi með um 250 tonn af norsk-ísl. síld. Síldin veiddist innan íslenskrar lögsögu og er þetta er fyrsta norsk-íslenska síldin sem berst til Fáskrúðsfjarðar á þessu ári. Síldin fór öll í bræðslu.
Næraberg
Færeyska skipið Næraberg landaði í nótt um 2000 tonnum af kolmunna. Hefur Loðnuvinnslan því tekið á móti 6000 tonnum það sem af er vikunni, því Hoffellið landaði 1400 tonnum í gær og Finnur Fríði 2600 á mánudag.
Kolmunni
Finnur Fríði er aftur kominn með fullfermi af kolmunna. Veiðin hefur gengið vel sem sést af því að skipið landaði síðast hjá Loðnuvinnslunni hf þann 16. apríl s.l.
Kolmunni
Færeyska skipið Finnur Fríði kom til Fáskrúðsfjarðar í nótt með um 2500 tonn af kolmunna.
Skrifstofumaður
Loðnuvinnslan hf óskar eftir að ráða skrifstofumann til almennra skrifstofustarfa og símavörslu. Skriflegar umsóknir sendist til framkvæmdastjóra sem gefur nánari upplýsingar.
Hagnaður 93 milljónir
Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2007 nam kr. 93 millj. eftir skatta, en árið 2006 var tap á félaginu kr. 39 millj.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.695 millj.og hækkuðu um 7% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var kr. 281 millj. sem er 10% af tekjum, en var kr. 513 millj. eða 20% af tekjum árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 221 millj. sem er 8% af tekjum samanborið við kr. 357 millj. og 14% árið 2006. Afskriftir voru kr. 195 millj. og lækkuðu um 2% miðað við árið á undan.
Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.626 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um 4% frá árinu áður. Nettó skuldir voru kr. 1.143 millj. og hækkuðu um kr. 10 millj. frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 0,85 en var 0,92 í lok árs 2006.
Loðnuvinnslan fjárfesti á síðasta ári fyrir kr. 284 millj. og þar af voru kr. 220 millj. vegna endurbóta á Ljósafelli.
Hlutafé Loðnuvinnslunnar er kr. 700 millj. og fjöldi hluthafa 191. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Gengi hlutabréfa félagsins var í árslok 3,8.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 4. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 5% arð að fjárhæð kr. 35 millj.
Loðnuvinnslan hlaut á síðasta ári umhverfisverðlaun LÍÚ.
Stjórn Loðnuvinnslunnar var öll endurkjörin en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson.
Framkvæmdastjóri er Gísli Jónatansson.
Aðalfundir 2008
Aðalfundur KFFB verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 4. apríl 2008 kl. 17.30. Fundarefni: Venjuleg aðalfundarstörf og lagabreytingar.
Aðalfundur LVF verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 4. apríl 2008 kl. 18.30. Fundarefni: Venjuleg aðalfundarstörf.
Kolmunni
Í nótt kom til Fáskrúðsfjarðar norska skipið Nordervon með um 1.750 tonn af kolmunna og í morgun kom einnig færeyska skipið Jupiter með um 2.400 tonn af kolmunna og bíður löndunar.
Kolmunni
Í gærkvöldi kom norska skipið Birkeland til Fáskrúðsfjarðar með um 1.650 tonn af kolmunna til vinnslu hjá LVF.