Að venju munu skip Loðnuvinnslunnar hf., Hoffell og Ljósafell, fara í siglingu í tilefni sjómannadagsins. Siglt verður kl 13:00 laugardaginn 31. maí. Svo skemmtilega vill til að þann dag eru liðin 35 ár frá því að Ljósafell SU 70 kom til Fáskrúðsfjarðar, en það lagðist hér fyrst að bryggju 31. maí 1973 eftir 6 vikna siglingu frá Japan. Skipið var lengt og endurbyggt 1988/1989 í NAUTA-skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi og 2007/2008 var það endurbyggt á ný í ALKOR-skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Fáskrúðsfirðingum og öðrum gestum býðst nú tækifæri til að skoða skipið eftir breytingarnar, en sökum mikilla verkefna hefur almenningi ekki verið gefinn kostur á því fyrr en nú. Loðnuvinnslan hf óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju í tilefni sjómannadagsins.