Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 45 tonnum af blönduðum afla eftir stuttan túr. Fór aftur til veiða að löndun lokinni.

Eglé frá Litháen

Loðnuvinnslan er fjölþjóðlegt fyrirtæki í þeim skilningi að hjá fyrirtækinu starfar fólk af hinum ýmsu þjóðernum. Þar á meðal er kona sem heitir Eglé Valiuskeviciúté og er frá Litháen. Eglé er fædd árið 1966 og er þar af leiðandi engin unglingur svo að greinarhöfnundi lék forvitni á að vita hvernig henni hefði dottið til hugar að koma til Fáskrúðsfjarðar. Svaraði Eglé því til að það væri að hluta til svolítil tilviljun að hún hefði komið hingað, en þannig hefði málið verið vaxið að vinkona hennar hefði ráðið sig til vinnu hjá LVF og hún hefði verið spurð hvort að hún gæti ef til vill bent á einhverja aðra konu sem væri viljug að koma og þannig hefði það nú atvikast að hún væri í vinnu hjá Loðnuvinnslunni.

Eglé er fædd í Litháen, hún á eina systur og sagði að þær systur hefðu verið heppnar því að þeim lánaðist að ganga menntaveginn, foreldrar þeirra lögðu á sig mikla vinnu til þess að mennta dætur sínar og fyrir það væri hún þakklát.  Hún hefur mestan part sinna fullorðinsára starfað í öðrum löndum en heimalandinu, hún starfaði t.a.m í mörg ár hjá stóru fyrirtæki sem rekur skemmtiferðaskip og var þar nokkurs konar verslunarstjóri, hún bar ábyrgð á öllum verslunarrekstri um borð í skipinu sem hún vann á og ferðaðist með því um allan heim. Hún hafði fimm sinnum komið til Íslands áður en hún kom til að vinna á Fáskrúðsfirði. Síðan vann hún í sex ár í Bretlandi meðal annars hjá Harrods verslunarkeðjunni.

Við nánara spjall kemur á daginn að Eglé er mikil tungumálamanneskja, hún talar sex tungumál. Auk móðurmálsins talar hún ítölsku, þýsku, rússnesku, protúgölsku og ensku.  Hún er heimskona og kemur það glögglega í ljós í spjalli yfir kaffibolla og kökusneið. Hún fylgist vel með heimsmálunum og er vel að sér um íslenskt samfélag og segist lesa allt sem hún kemst yfir á þeim tungumálum sem henni eru fær um land og þjóð.

En hvernig er fyrir konu með slíkan bakgrunn að vinna í frystihúsi á Íslandi? „Það er mjög gott“ svaraði hún að bragði, „ég hef unnið erfiðari störf í verksmiðju og ég hef unnið á fínum skrifstofum, og allt eru þetta verk sem þarf að vinna og ekkert nema gott um það að segja“.  Og aðspurð um vinnustaðinn sjálfan sagði Eglé hann væri góður og maturinn sem boðið er uppá væri afbragðsgóður í alla staði, og að íslenskar mjólkurvörur væru með þeim bestu í heimi en ekkert toppaði þó íslenska blávatnið. „Að geta drukkið svona gott vatn úr krananum er paradís“ sagði hún.

Og hvað gerir þú þér til dægrastyttingar þegar þú átt frí? „Við vinkonurnar förum mikið í gönguferðir, okkur finnst við alltaf vera í „póstkorti“ því það er allsstaðar svo fallegt hér.  Við gengum upp með á um daginn og sáum svo fallegan foss (það mun hafa verið Gilsáin) svo göngum við um bæinn þveran og endilangan“. Svo segir Eglé mér frá því að þær stöllurnar hafi rætt það sín á milli að hér heyrðist aldrei sírenuvæl og þær hefðu aldrei séð lögreglubíl. Þær höfðu verið hér í nokkrar vikur þegar þær sáu lögreglubíl í fyrsta sinn í bænum „þá stoppuðum við og tókum myndir af okkur við bílinn“ sagði þessi geðþekka kona og skellihló.

BÓA

 

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgunn um 32 tonnum eftir stuttan túr. Uppistaðan er þorskur til vinnsu í Frystihús LVF. Skipið heldur aftur til veiða á Sunnudag 30. júlí kl 20:00

Hoffell

Hoffell er nú að landa rúmum 200 tonnum af makríl sem skipið veiddi í Grænlenskri lögsögu. Skipið heldur aftur til veiða á Sunnudag 30. júlí kl 10:00

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum. Uppistaðan er þorskur sem fer til vinnslu í Frystihús LVF og ufsi sem fer á fiskmarkað. Skipið fer aftur á veiðar kl 17:00 í dag, með löndun aftur á fimmtudag sem markmið.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær ( fimmtudag ) um 60 tonnum og á mánudag landaði skipið um 105 tonnum. Uppistaða aflans hefur verið þorskur til vinnslu í Frystihús LVF.

Sjávarútvegsskóli Austurlands

Malen Valsdóttir í fínu peysunni sem nemendur Sjávarútvegsskólans fá til eignar

Eins og mörgum er kunnugt styrkir Loðnuvinnslan hin ýmsu verkefni, jafnt stór sem smá. Eitt af þeim verkefnum sem Loðnuvinnslan veitir styrk er Sjávarútvegsskóli Austurlands en Sjávarútvegsskólinn á Austurlandi er samstarfsverkefni milli Háskólans á Akureyri, fimm sjávarútvegsfyrirtækja og fjögurra sveitarfélaga. Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru: Loðnuvinnslan ,Síldarvinnslan, Eskja, HB Grandi og Gullberg. Sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu eru: Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.  Markmið Sjávarútvegsskólans er að miðla þekkingu um sjávarútveg til ungs fólks í sjávartengdum byggðum.

Nemendur í Sjávarútvegsskóla Austurlands eru unglingar á 14.ári og er námið hluti af Vinnuskólanum, svo að í eina viku af þeim fjórum sem unglingarnir starfa í Vinnuskólanum er boðið uppá að leggja hrífur og sláttutæki á hilluna og taka þátt í Sjávarútvegsskólanum.

Ein af þeim sem taka þátt sumarið 2017 er Malen Valsdóttir. Malen er fjórtán ára, hún fermdist síðast liðið vor og eru þetta hennar fyrstu skref á vinnumarkaði.  Aðspurð sagði Malen að það væri búið að vera mjög skemmtileg í Sjávarútvegsskólanum, hún væri búin að læra heilmikið. Og hvað er það helst sem þið lærið í Sjávarútvegsskóla? „Við lærum ýmislegt um fiska, t.d. hvað þeir heita, um veiðafæri og mismunandi tegundir báta. Þá lærum við hvernig fiskurinn er unninn og hvert hann fer þegar hann er tilbúinn“ svaraði Malen.  „Svo fórum við í heimsókn í frystihús Loðnuvinnslunnar og sáum allar nýju vélarnar og lærðum um allt sem gerist þar. Á morgun förum við svo í heimsókn til Eskju á Eskifirði“, bætti hún við.

Malen sagði einnig frá því að þeim hefði verið kennt að meta gæði fisks, þau hefðu fengið í hendurnar annars vegar fisk sem var fimmtán daga gamall og hins vegar fisk sem var sjö daga gamall og áttu nemendurnir að leggja mat sitt á fiskana með tilliti til ákveðinna þátta. Og þá sagði Malen líka frá því að þau hefðu fengið að taka sýklasýni, „við áttum að velja stað þar sem margir koma við og taka sýni þar, ég valdi handfang á fótboltaspili og það var alveg grænt“ sagði Malen brosandi, en grænt merkir að töluvert fannst af sýklum þar.

Er Malen var innt eftir því hvort hún héldi að hún ætti eftir að starfa við sjávarútveg eftir alla þessa fræðslu svaraði hún:“ég veit það ekki, en við lærðum líka um öll óbeinu störfin, þau störf sem tengast sjávarútveg og þurfa að vera til staðar til þess að allt gangi upp, en ég veit ekki hvað ég mun gera“   sagði Malen ákveðin, enda er engin þörf á að ákveða framtíðina þegar maður er fjórtán ára.

Sjávarútvegsskóli Austurlands hefur verið starfræktur þessa viku, 10. til 14.júlí og því er síðasti dagurinn á morgun, föstudag og Malen var spennt fyrir síðasta deginum, ekki að því skólanum væri að ljúka, heldur af því að það átti að enda með pizzapartýi sem er frábær endir á vel heppnuðu  skólahaldi.

BÓA

 

Aflakló

Sandfell Su 75 var aflahæstur línubáta í Júnímánuði og kom að landi með 215,9 tonn. Örn Rafnsson er skipstjóri á Sandfellinu og þegar hann var inntur eftir því hvernig á því stæði að Sandfellið væri eins aflasækið og raun ber vitni svaraði hann því stutt og laggott: „góð áhöfn, góður bátur og góð útgerð“.  „Þá er líka mikilvægt að hafa ferska og góða beitu, við höfum beitningavél um borð sem skellir á krókanna síld sem kemur beint úr frystinum. Og svo er líka mikilvægt að línan sé hrein“.

Þegar greinarhöfundur heilsaði uppá áhöfnina á Sandfelli var skipstjórinn í óða önn að hífa kör um borð, búið var að landa 12 tonnum eftir síðasta túr. Tveir áhafnarmeðlimir voru á bryggjunni að festa króka í körin fyrir hífingu og einn í lestinni til þess að taka á móti. Öll vinnan var fumlaus og strax mátti skynja að á þessum vinnustað ríkti samheldni og vinátta. „Við erum búnir að vinna lengi saman“ sagði Örn, „þetta eru góðir strákar, allir fínir sjómenn“. Athygli vakti hjá greinarhöfundi við spjallið við Örn að þegar stutt hlé varð á hífingunni mátti heyra í ryksugu. Var þar að verki maðurinn úr lestinni, hann nýtti tímann til góðra verka, rauk inn og ryksugaði.

Aðspurður sagði Örn að það væru tvær áhafnir á Sandfelli. Hann og hans menn væru um borð og réru í fimmtán daga, þá kæmi hin áhöfnin og réri í fimmtán daga. „Ég á reyndar tvo syni þar“ sagði Örn stoltur.

En hver er Örn Rafnsson? „Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en flutti til Grindavíkur árið 1978. Ég hef verið á sjó síðan ég var 16 ára gamall en samt aðeins unnið hjá þremur útgerðum“. Örn er kvæntur, hann á fjögur börn og tíu barnabörn og þegar hann á frí þykir honum gott að slaka á í faðmi fjölskyldunnar. Þá stundar hann stangveiði og skotveiði sér til ánægu svo það má með sanni segja að veiðmennska hvers konar sé honum í blóð borin.

Að lokum var ekki annað eftir en að spyrja Örn hvernig honum litist nú á Fáskrúðsfjörð eftir að hafa dvalið hér meira og minna í eitt og hálft ár? „Mér líst mjög vel á Fáskrúðsfjörð“ svaraði hann, „hér er gott fólk og staðurinn er virkilega huggulegur“.

Og þegar greinarhöfundur ætlaði sér að klöngrast frá borði beið ungur áhafnarmeðlimur á bryggjunni með útrétta hönd og gerði landgönguna svo miklu auðveldari og virðulegri.

BÓA

 

Hef prófað allt nema lyftara

Á haustdegi árið 1958  fæddist á Reyðarfirði stúlkubarn sem fékk nafnið Þórunn Linda. Þórunn Linda ber fjölskyldunafnið Beck og er komin af frjósömu, duglegu og glaðlegu fólki. Langafi hennar hét Hans Jakob Beck og var hann fæddur á Eskifirði 1838. Hans Jakob var tvíkvæntur og átti með fyrri konu sinni 13 börn og með  seinni konu sinni  eignaðist hann 10 börn.  Hans Jakob byggði bæinn Sómastaði í Reyðarfirði 1875 og bjuggu afkomendur hans á jörðinni í rúmlega eitt hundrað ár. Úr þessum jarðvegi er Þórunn Linda sprottin.

Þórunn er alin upp á Reyðarfirði, óx þar úr grasi við leik og störf og undi hag sínum vel. Svo var það á Atlavíkurhátið árið 1972 að lífið tók nýja stefnu. Hún kynntist ungum manni frá Fáskrúðsfirði, Jóni B. Kárasyni,  þau rugluðu saman reitum sínum og gera enn.  Þau hófu sinn búskap í leiguíbúð, eins og títt var og er, hjá ungu fólki. En árið 1979 kaupa þau hjúin hús á Fáskrúðsfirði sem heitir Nýborg og hafa skapað sér þar fallegt heimili þar sem áhersla er lögð á öllum líði vel sem sækja þau heim hvort heldur það eru börn, barnabörn eða aðrir gestir. Þórunn á fjögur börn, nítján barnabörn og tvö langömmubörn svo hennar ríkidæmi er mikið.

Þórunn Linda hefur verið fastur starfsmaður í frystihúsi Loðnuvinnslunnar síðan 1984, eða um 33 ár. Aðspurð að því hvort að mikið hafi breyst í hennar vinnuumhverfi á þessum 33 árum svaraði hún hiklaust: „já, allt hefur farið nokkra hringi í húsinu“ og vísar þar til hinna miklu breytinga  sem orðið hafa í fiskvinnslu síðustu ártugina.  „Svo er komið svo mikið af tölvudóti, allt er tölvustýrt svo að ef eitt bilar þá stoppar allt. Áður var allt einfaldara en að sama skapi eru afköstin meiri núna“.  Eftir svona langan starfsaldur hefur kona eins og Þórunn komið að flestum störfum innan frystihússins, „ég er búin að prófa allt nema lyftara“ segir hún hlæjandi. En núna er Þórunn Linda í gæðaeftirliti. Eitt af því sem vön fiskvinnslumanneskja eins og Þórunn gerir í vinnunni er að leiðbeina unga fólkinu sem er að stíga sín fyrstu skref í frystihúsi. „Það þarf að segja þeim t.d. að ganga ekki kæruleysislega með beyttu hnífana og svo framvegis, það getur verið svolítið stressandi þegar það er komið mikið af óvönu fólki, sér í lagi ungu fólki, en ég reyni nú alltaf að vera góð við þau… það er að segja ef ég er ekki skapill“ segir Þórunn Linda og skellihlær  og undirrituð á nú nokkuð erfitt með að sjá hana fyrir sér í þeim ham.

Það hljóta nú að vera margar góðar minningar af fólki og atburðum sem safnast saman eftir 33 ára starf á sama vinnustað? „Já sannarlega“, svarar Þórunn Linda, „Ég hef unnið með svo mörgu góðu og eftirminnanlegu fólki. Sem dæmi nefni ég Valborgu Björgvinsdóttur,Lenu Berg, þær systur Jónu og Olgu Sigurbjörnsdætur og Stefán Óskarsson eða Stebba á Holti. Hann var alger perla“. Svo rifjar Þórunn upp að um langt skeið hafi verið gömul hakkavél í notkun á frystihúsinu og átti hún það til að bila nokkuð reglulega. Hafði Stebbi oft haft á orði að sér þætti nú ótrúlegt hversu mikið og oft ætti að lappa uppá þetta skrapatól. „En raunin varð nú sú að hakkavélin var enn í gagni þegar Stebbi féll frá“ sagði Þórunn anguvær á svip.  Þá rifjar hún upp  skemmtilega sögu: „það var til siðs að þegar sumarstarfsfólkið var að hætta þá gerðu menn sér það til gamans að skella viðkomandi í bað, þ.e. í kar með köldu vatni, svo var einn verkstjórinn að hætta og við vorum að sjálfsögðu búin að ákveða að skella honum í bað í kveðjuskyni, en hann sá við okkur. Þegar að því kom að baða manninn fannst hann sitjandi í kari fullu af volgu vatni, í sundbuxum með vindil í munninum“.

En hvað gerir Þórunn Linda þegar hún er ekki í vinnunni? „Ég fæ barnabörnin gjarnan í heimsókn og svo hef ég gaman af því að gera upp gömul húsgögn og dunda í garðinum. Svo finnst mér mjög gaman að ferðast og hef unun af því að skoða söfn og skoða mig um á nýjum stöðum. Við hjónin höfum ferðast mikið innanlands og þegar ég fer á eftirlaun ætla ég kannski að kíkja til útlanda líka“ sagði Þórunn Linda Beck og brosti sínu blíða brosi.

BÓA

Hoffell

Hoffell landaði um 1.600 tonnum af kolmunna til bræðslu í gær. Nú tekur við eitthvað viðhald og undirbúningur fyrir makrílveiðar, sem verður næsta verkefni skipsins.

Ljósafell

Ljósafell landaði á Dalvík um 100 tonnum. Helmingur aflans var þorskur sem fór til vinnslu í Frystihús LVF, en restin á fiskmarkað. Skipið fer aftur á sjó um hádegi í dag, þriðjudag.