Malen Valsdóttir í fínu peysunni sem nemendur Sjávarútvegsskólans fá til eignar

Eins og mörgum er kunnugt styrkir Loðnuvinnslan hin ýmsu verkefni, jafnt stór sem smá. Eitt af þeim verkefnum sem Loðnuvinnslan veitir styrk er Sjávarútvegsskóli Austurlands en Sjávarútvegsskólinn á Austurlandi er samstarfsverkefni milli Háskólans á Akureyri, fimm sjávarútvegsfyrirtækja og fjögurra sveitarfélaga. Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru: Loðnuvinnslan ,Síldarvinnslan, Eskja, HB Grandi og Gullberg. Sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu eru: Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.  Markmið Sjávarútvegsskólans er að miðla þekkingu um sjávarútveg til ungs fólks í sjávartengdum byggðum.

Nemendur í Sjávarútvegsskóla Austurlands eru unglingar á 14.ári og er námið hluti af Vinnuskólanum, svo að í eina viku af þeim fjórum sem unglingarnir starfa í Vinnuskólanum er boðið uppá að leggja hrífur og sláttutæki á hilluna og taka þátt í Sjávarútvegsskólanum.

Ein af þeim sem taka þátt sumarið 2017 er Malen Valsdóttir. Malen er fjórtán ára, hún fermdist síðast liðið vor og eru þetta hennar fyrstu skref á vinnumarkaði.  Aðspurð sagði Malen að það væri búið að vera mjög skemmtileg í Sjávarútvegsskólanum, hún væri búin að læra heilmikið. Og hvað er það helst sem þið lærið í Sjávarútvegsskóla? „Við lærum ýmislegt um fiska, t.d. hvað þeir heita, um veiðafæri og mismunandi tegundir báta. Þá lærum við hvernig fiskurinn er unninn og hvert hann fer þegar hann er tilbúinn“ svaraði Malen.  „Svo fórum við í heimsókn í frystihús Loðnuvinnslunnar og sáum allar nýju vélarnar og lærðum um allt sem gerist þar. Á morgun förum við svo í heimsókn til Eskju á Eskifirði“, bætti hún við.

Malen sagði einnig frá því að þeim hefði verið kennt að meta gæði fisks, þau hefðu fengið í hendurnar annars vegar fisk sem var fimmtán daga gamall og hins vegar fisk sem var sjö daga gamall og áttu nemendurnir að leggja mat sitt á fiskana með tilliti til ákveðinna þátta. Og þá sagði Malen líka frá því að þau hefðu fengið að taka sýklasýni, „við áttum að velja stað þar sem margir koma við og taka sýni þar, ég valdi handfang á fótboltaspili og það var alveg grænt“ sagði Malen brosandi, en grænt merkir að töluvert fannst af sýklum þar.

Er Malen var innt eftir því hvort hún héldi að hún ætti eftir að starfa við sjávarútveg eftir alla þessa fræðslu svaraði hún:“ég veit það ekki, en við lærðum líka um öll óbeinu störfin, þau störf sem tengast sjávarútveg og þurfa að vera til staðar til þess að allt gangi upp, en ég veit ekki hvað ég mun gera“   sagði Malen ákveðin, enda er engin þörf á að ákveða framtíðina þegar maður er fjórtán ára.

Sjávarútvegsskóli Austurlands hefur verið starfræktur þessa viku, 10. til 14.júlí og því er síðasti dagurinn á morgun, föstudag og Malen var spennt fyrir síðasta deginum, ekki að því skólanum væri að ljúka, heldur af því að það átti að enda með pizzapartýi sem er frábær endir á vel heppnuðu  skólahaldi.

BÓA