Loðnuvinnslan er fjölþjóðlegt fyrirtæki í þeim skilningi að hjá fyrirtækinu starfar fólk af hinum ýmsu þjóðernum. Þar á meðal er kona sem heitir Eglé Valiuskeviciúté og er frá Litháen. Eglé er fædd árið 1966 og er þar af leiðandi engin unglingur svo að greinarhöfnundi lék forvitni á að vita hvernig henni hefði dottið til hugar að koma til Fáskrúðsfjarðar. Svaraði Eglé því til að það væri að hluta til svolítil tilviljun að hún hefði komið hingað, en þannig hefði málið verið vaxið að vinkona hennar hefði ráðið sig til vinnu hjá LVF og hún hefði verið spurð hvort að hún gæti ef til vill bent á einhverja aðra konu sem væri viljug að koma og þannig hefði það nú atvikast að hún væri í vinnu hjá Loðnuvinnslunni.

Eglé er fædd í Litháen, hún á eina systur og sagði að þær systur hefðu verið heppnar því að þeim lánaðist að ganga menntaveginn, foreldrar þeirra lögðu á sig mikla vinnu til þess að mennta dætur sínar og fyrir það væri hún þakklát.  Hún hefur mestan part sinna fullorðinsára starfað í öðrum löndum en heimalandinu, hún starfaði t.a.m í mörg ár hjá stóru fyrirtæki sem rekur skemmtiferðaskip og var þar nokkurs konar verslunarstjóri, hún bar ábyrgð á öllum verslunarrekstri um borð í skipinu sem hún vann á og ferðaðist með því um allan heim. Hún hafði fimm sinnum komið til Íslands áður en hún kom til að vinna á Fáskrúðsfirði. Síðan vann hún í sex ár í Bretlandi meðal annars hjá Harrods verslunarkeðjunni.

Við nánara spjall kemur á daginn að Eglé er mikil tungumálamanneskja, hún talar sex tungumál. Auk móðurmálsins talar hún ítölsku, þýsku, rússnesku, protúgölsku og ensku.  Hún er heimskona og kemur það glögglega í ljós í spjalli yfir kaffibolla og kökusneið. Hún fylgist vel með heimsmálunum og er vel að sér um íslenskt samfélag og segist lesa allt sem hún kemst yfir á þeim tungumálum sem henni eru fær um land og þjóð.

En hvernig er fyrir konu með slíkan bakgrunn að vinna í frystihúsi á Íslandi? „Það er mjög gott“ svaraði hún að bragði, „ég hef unnið erfiðari störf í verksmiðju og ég hef unnið á fínum skrifstofum, og allt eru þetta verk sem þarf að vinna og ekkert nema gott um það að segja“.  Og aðspurð um vinnustaðinn sjálfan sagði Eglé hann væri góður og maturinn sem boðið er uppá væri afbragðsgóður í alla staði, og að íslenskar mjólkurvörur væru með þeim bestu í heimi en ekkert toppaði þó íslenska blávatnið. „Að geta drukkið svona gott vatn úr krananum er paradís“ sagði hún.

Og hvað gerir þú þér til dægrastyttingar þegar þú átt frí? „Við vinkonurnar förum mikið í gönguferðir, okkur finnst við alltaf vera í „póstkorti“ því það er allsstaðar svo fallegt hér.  Við gengum upp með á um daginn og sáum svo fallegan foss (það mun hafa verið Gilsáin) svo göngum við um bæinn þveran og endilangan“. Svo segir Eglé mér frá því að þær stöllurnar hafi rætt það sín á milli að hér heyrðist aldrei sírenuvæl og þær hefðu aldrei séð lögreglubíl. Þær höfðu verið hér í nokkrar vikur þegar þær sáu lögreglubíl í fyrsta sinn í bænum „þá stoppuðum við og tókum myndir af okkur við bílinn“ sagði þessi geðþekka kona og skellihló.

BÓA