Á haustdegi árið 1958  fæddist á Reyðarfirði stúlkubarn sem fékk nafnið Þórunn Linda. Þórunn Linda ber fjölskyldunafnið Beck og er komin af frjósömu, duglegu og glaðlegu fólki. Langafi hennar hét Hans Jakob Beck og var hann fæddur á Eskifirði 1838. Hans Jakob var tvíkvæntur og átti með fyrri konu sinni 13 börn og með  seinni konu sinni  eignaðist hann 10 börn.  Hans Jakob byggði bæinn Sómastaði í Reyðarfirði 1875 og bjuggu afkomendur hans á jörðinni í rúmlega eitt hundrað ár. Úr þessum jarðvegi er Þórunn Linda sprottin.

Þórunn er alin upp á Reyðarfirði, óx þar úr grasi við leik og störf og undi hag sínum vel. Svo var það á Atlavíkurhátið árið 1972 að lífið tók nýja stefnu. Hún kynntist ungum manni frá Fáskrúðsfirði, Jóni B. Kárasyni,  þau rugluðu saman reitum sínum og gera enn.  Þau hófu sinn búskap í leiguíbúð, eins og títt var og er, hjá ungu fólki. En árið 1979 kaupa þau hjúin hús á Fáskrúðsfirði sem heitir Nýborg og hafa skapað sér þar fallegt heimili þar sem áhersla er lögð á öllum líði vel sem sækja þau heim hvort heldur það eru börn, barnabörn eða aðrir gestir. Þórunn á fjögur börn, nítján barnabörn og tvö langömmubörn svo hennar ríkidæmi er mikið.

Þórunn Linda hefur verið fastur starfsmaður í frystihúsi Loðnuvinnslunnar síðan 1984, eða um 33 ár. Aðspurð að því hvort að mikið hafi breyst í hennar vinnuumhverfi á þessum 33 árum svaraði hún hiklaust: „já, allt hefur farið nokkra hringi í húsinu“ og vísar þar til hinna miklu breytinga  sem orðið hafa í fiskvinnslu síðustu ártugina.  „Svo er komið svo mikið af tölvudóti, allt er tölvustýrt svo að ef eitt bilar þá stoppar allt. Áður var allt einfaldara en að sama skapi eru afköstin meiri núna“.  Eftir svona langan starfsaldur hefur kona eins og Þórunn komið að flestum störfum innan frystihússins, „ég er búin að prófa allt nema lyftara“ segir hún hlæjandi. En núna er Þórunn Linda í gæðaeftirliti. Eitt af því sem vön fiskvinnslumanneskja eins og Þórunn gerir í vinnunni er að leiðbeina unga fólkinu sem er að stíga sín fyrstu skref í frystihúsi. „Það þarf að segja þeim t.d. að ganga ekki kæruleysislega með beyttu hnífana og svo framvegis, það getur verið svolítið stressandi þegar það er komið mikið af óvönu fólki, sér í lagi ungu fólki, en ég reyni nú alltaf að vera góð við þau… það er að segja ef ég er ekki skapill“ segir Þórunn Linda og skellihlær  og undirrituð á nú nokkuð erfitt með að sjá hana fyrir sér í þeim ham.

Það hljóta nú að vera margar góðar minningar af fólki og atburðum sem safnast saman eftir 33 ára starf á sama vinnustað? „Já sannarlega“, svarar Þórunn Linda, „Ég hef unnið með svo mörgu góðu og eftirminnanlegu fólki. Sem dæmi nefni ég Valborgu Björgvinsdóttur,Lenu Berg, þær systur Jónu og Olgu Sigurbjörnsdætur og Stefán Óskarsson eða Stebba á Holti. Hann var alger perla“. Svo rifjar Þórunn upp að um langt skeið hafi verið gömul hakkavél í notkun á frystihúsinu og átti hún það til að bila nokkuð reglulega. Hafði Stebbi oft haft á orði að sér þætti nú ótrúlegt hversu mikið og oft ætti að lappa uppá þetta skrapatól. „En raunin varð nú sú að hakkavélin var enn í gagni þegar Stebbi féll frá“ sagði Þórunn anguvær á svip.  Þá rifjar hún upp  skemmtilega sögu: „það var til siðs að þegar sumarstarfsfólkið var að hætta þá gerðu menn sér það til gamans að skella viðkomandi í bað, þ.e. í kar með köldu vatni, svo var einn verkstjórinn að hætta og við vorum að sjálfsögðu búin að ákveða að skella honum í bað í kveðjuskyni, en hann sá við okkur. Þegar að því kom að baða manninn fannst hann sitjandi í kari fullu af volgu vatni, í sundbuxum með vindil í munninum“.

En hvað gerir Þórunn Linda þegar hún er ekki í vinnunni? „Ég fæ barnabörnin gjarnan í heimsókn og svo hef ég gaman af því að gera upp gömul húsgögn og dunda í garðinum. Svo finnst mér mjög gaman að ferðast og hef unun af því að skoða söfn og skoða mig um á nýjum stöðum. Við hjónin höfum ferðast mikið innanlands og þegar ég fer á eftirlaun ætla ég kannski að kíkja til útlanda líka“ sagði Þórunn Linda Beck og brosti sínu blíða brosi.

BÓA