Kolmunni í Rósagarðinum

Hoffell Su 80 kom til heimahafnar að kveldi 8.júní með u.þ.b. 1600 tonn af Kolmunna.  Aflinn var veiddur á fiskimiðum suð-austur af landinu sem kallast því fallega nafni Rósagarðurinn.  Rósagarðurinn er innan íslenskrar lögsögu og eru það góðar fréttir fyrir sjávarútveginn. Páll Sigurjón Rúnarsson var skipstjóri á Hoffellinu í þessum túr og aðspurður hvers vegna það væru góð tíðindi fyrir Íslendinga að veiða Kolmunna innan landhelgi svaraði hann því til að þau skilyrði hefðu fylgt kvótanum að 20% skyldu veiðast innan  íslenskrar lögsögu en 80% mætti veiðast utan hennar.

„Það er alltaf gott að veiða innan okkar lögsögu“ sagði Páll, „þá er t.a.m. styttra heim. Þegar við hættum veiðum voru aðeins 66 mílur að bryggju:“  Þá sagði Páll að fiskurinn væri feitari og vænni en þeir hefðu séð áður á þessari vertíð.  Undirrituð spurði þá hvort að Hoffellið myndi ekki bruna beint í Rósagarðinn aftur í næsta túr, svaraði Páll hæglátlega að Kolmunninn færi býsna hratt yfir, hann gæti ferðast 20 til 30 mílur á sólarhring og því ómögulegt að segja til um hvar hann yrði að finna næst. En skipstjórnendur Hoffellsins kunna sitt fag og munu finna fiskinn.

Ekki var hægt að sleppa Páli án þess að spjalla aðeins um Sjómannadaginn sem er næst komandi sunnudag 11.júní. „Sjómannadagurinn leggst vel í mig“ sagði Páll „hann hefur auðvitað breyst svolítið með fækkandi sjómönnum en hann er alltaf hátíðisdagur í mínum huga“.

Hoffellið býður bæjarbúum og gestum uppá siglingu á laugadaginn 10.júní kl. 11.00 sem og önnur skip Loðnuvinnslunnar, Ljósafell, Sandfell og Hafrafell.

„Það verður tekið vel á móti öllum“ sagði Páll sem var upptekinn við að þrífa og gera klárt fyrir gestagang um borð.

BÓA

Hoffell

Hoffell landaði í nótt um 1.530 tonnum af kolmunna til bræðslu.
Skipið heldur aftur til veiða á mánudag 12. júní kl. 18:00

Sjómannadagurinn

í tilefni Sjómannadagsins verður almenningi boðið í hópsiglingu á laugardaginn kl 11:00.
Ljósafell SU 70 siglir frá bæjarbryggju.
Hoffell SU 80 siglir frá bæjarbryggju.
Sandfell SU 75 siglir frá Sólborgarbryggju.
Hafrafell SU 85 siglir frá smábátahöfn.

Loðnuvinnslan hf og Hjálmar ehf óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Sandfell

Sandfell hefur fiskað ágætlega að undanförnu. Báturinn landaði tæpum 26 tonnum um helgina. Í heild fiskaði Sandfellið 226,8 tonn í maí og var hæstur yfir landið í sínum stærðarflokki. Báturinn var líka hæstur yfir landið í apríl.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum. Skipið heldur aftur til veiða í kvöld, 5 júní kl 20:00.

Hoffell

Hoffell Landaði 1320 tonnum af kolmunna á föstudaginn 2. júní. Skipið fór aftur til sömu veiða að miðnætti sama dag.

Allir voru svo glaðir

Dagna 21. til 30. maí s.l. fór hópur starfsmanna Loðnuvinnslunnar, ásamt mökum,  til Portoroz í Slóveníu.  Flogið var frá Egilsstöðum og lent í Trieste á Ítalíu þaðan sem ekið var í u.þ.b. eina klukkustund til fallega strandbæjarins Portoroz.  Ferðalangarnir töldu 76, menn og konur á öllum aldri.  Dagana sem dvalið var skein sólin glatt á Íslendingana, sem flestir komu fölir undan vetri, og veðrið var með afbrigðum gott alla dagana.

Guðrún Níelsdóttir var ein þeirra sem fór til Portoroz og aðspurð sagði hún að frá hennar bæjardyrum séð,  hefði það staðið uppúr hvað allir voru glaðir. „Samferðafólkið lék á alls oddi, brosti og var svo glatt, það var alls staðar gleði“. Þá fannst henni afar fallegt á Portoroz, allt var svo hreint og fínt. „Maður sá aldrei rusl og drasl“ sagði Guðrún og bætti réttilega við að glöggt væri gests augað og því tækju menn eftir slíku á ferðum sínum.  Þá bætti hún við að það væri svo gaman að ferðast með fólki sem maður þekkir og þegar heim er komið tekur við spjall og endurminningar frá ferðinni sem færir fólk nær hvert öðru.  Þegar fólk deilir lífsreynslu og upplifunum verður samvinnan oft betri.

„Mér fannst líka frábært að Loðnuvinnslan skyldi bjóða öllum í mat, að ógleymdum styrknum sem starfsmannafélagið fékk til fararinnar“ sagði Guðrún,  en á aðalfundi LVF í apríl s.l. styrkti Loðnuvinnslan starfsmannafélagið um fimm milljónir króna.

Portoroz er afar rólegur staður og ekki mikið um næturlíf en Guðrúnu fannst það ekki koma að sök í sínu tilfelli, hún saknaði þess ekki en hún hefði vel unnt unga fólkinu þess. „það hefði ekki truflað mig þótt heyrst hefði í fólki skemmta sér að næturlagi“ sagði þessi lífsglaða kona.

Ingólfur Sveinsson var einnig með í förinni og aðspurður sagði hann að ferðin hefði verið mjög góð. „Það var mjög gaman og veðrið var geggjað“ sagði hann.  Ingólfur hafði orð á því að fallegt hefði verið í Portoroz og voða rólegt, „engin æsingur“ bætti hann við. Hann hefði þó viljað hafa meiri afþreyingu eins og Go-kart nær dvalarstaðnum en raun reyndist.  „En í staðinn slakaði maður bara á í góðra vina hópi og naut lífsins“ sagði Ingólfur með bros á vör. „Ég fór líka til Feneyja og Króatíu og það var mjög gaman“.

Almennt voru ferðalangarnir á vegum Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar afar ánægðir með ferðina, hótelið var fallegt og fínt, maturinn með ágætum og öll aðstaða hin besta.  En mestu máli skiptir auðvitað að allir koma glaðir heim með fangið fullt af skemmtilegum minningum sem það deilir með samstarfsfólki og vinum.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell landaði á mánudag um 95 tonnum. Skipið heldur aftur til veiða í kvöld, miðvikudag 31. maí. kl 20:00

Heimsókn frá Eysturkommuna í Færeyjum

Dagana 12. til 15.maí­ s.l. kom hópur af Færeyingum í­ heimsókn á Fáskrúðsfjörð. Var þetta hópur fólks á vegum Eysturkommuna sem er heiti sveitarfélags sem samanstendur af bæjunum Götu og Leirví­k.  Tilgangur komu þeirra til Fáskrúsfjarðar var að kynna sér sögu Færeyinga sem sóttu sjó frá VattarnesI, kynnast tengslum Fáskrúðsfirðinga við Frakkland auk þess sem þau vildu fræðast um mennta- og atvinnumál sem og ferðaþjónustu.

Loðnuvinnslan tók vel á móti þessum góðu gestum, Þau fengu fræðslu um starfsemi fyrirtækisins og var boðið til hádegisverðar. Það sama má segja um alla þá sem tóku á móti gestunum eins og Slysavarnadeildin Hafdís, Björgunarsveitin Geisli, fulltrúar Fjarðabyggðar sem buðu uppá málsverð auk kynningar á mennta- og ferðamálum að ógleymdum heiðurshjónunum í Þingholti sem opnuðu heimili sitt fyrir frændum okkar frá Færeyjum.

Er heim var komið gerðu gestirnir góða grein fyrir dvöl sinn hér á Fáskrúðsfirði með skemmtilegri grein sem birt var á heimasí­ðu Eysturkommuna og má sjá greinina í­ heild sinni hér:

Kanningarferð í Fáskrúðsfirði og á Vattanesi

Ljósafell

Ljósafell er nú á landleið með um 80 tonn. Brottför í næsta túr er á miðvikudagskvöld kl 20:00. Þetta hefur annars verið ágæt vika, skipið landaði 100 tonnum síðasta mánudag, 50 tonnum á fimmtudag, og er nú á landleið með 80 tonn, eða samtals 230 tonn landað á viku tíma.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1250 tonnum af kolmunna. Skipið heldur aftur til sömu veiða á þriðjudagskvöld.

Konur í sjávarútvegi

 

Á dögunum kom hópur kvenna til Fáskrúðsfjarðar til þess að kynna sér starfssemi Loðnuvinnslunnar auk þess að kynna sína eigin starfssemi. Konur þessar tilheyra félagsskap sem kallast Konur í sjávarútvegi. (Skammstafað KIS)

KIS var stofnað árið 2013.  Tíu konur tóku sig til og boðuðu til stofnfundar því að þeim þótti sem rödd kvenna mætti heyrast betur í sjávarútvegi. Það er skemmst frá því að segja að um eitt hundrað konur mættu á fundinn.  Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi ásamt því að gera þær sýnilegri innan iðnaðarins sem og utan hans.

Freyja Önundardóttir er formaður KIS og hefur gengt því embætti síðan 2015. Hún er alin upp í Vestamannaeyjum og Raufarhöfn, byggðarlögum sem byggja á sjávarútvegi. Fyrir hartnær fimmtíu árum stofnuðu foreldrar hennar útgerðafélagið Önundur og reka það enn frá Raufarhöfn, þannig að óhætt er að segja að Freyja sé fædd inní „bransann“,en hún starfar nú sem útgerðastjóri hjá Önundi.

En þú býrð í Reykjavík, hvernig gengur að vera útgerðastjóri fyrirtækis á Raufarhöfn? Hver sleppir og bindur? „Mér þykir afskaplega gaman að sleppa og binda“ svaraði Freyja, „og að taka til hendinni heima á Raufarhöfn, en mitt aðalstarf er unnið í gegn um tölvu og síma og þá skiptir ekki máli hvar maður situr“, bætti hún réttilega við.

Aðspurð um félagsskapinn Konur í sjávarútvegi sagði hún félagið vera öflugt, „það eru 210 konur í félaginu, frá öllum mögulegum greinum sem tengjast sjávarútvegi. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt og býr nú yfir rödd sem hlustað er á innan sjávarútvegsins. „Við viljum sífellt vera að efla tengslanetið því það er svo mikilvægt og þess vegna höfum við þessa fundi út á landi því að þar eru margar konur sem vinna við sjávarútveg og við viljum að þær þekki til KIS og fyrir hvað við stöndum“.

Félagsskapurinn skipuleggur vorferð á hverju ári, að þessu sinni til Austurlands, auk þess eru farnar dagsferðir til þess að heimsækja fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi, þær hafa átt fund með sjávarútvegsráðherra og forsetanum.  KIS reynir að komast sem víðast til þess að kynna sína starfsemi og kynnast fyritækjum og ráðamönnum í samfélaginu. Eru ferðir þessar auglýstar tímanlega þannig að þeir sem eiga lengra að sækja gefist kostur á að koma með. T.d. voru 25 konur hvaðanæva af landinu með í ferðinni á Austurlandið.  „Við bjóðum líka uppá námskeið, í haust buðum við uppá námskeið um að koma fram í fjölmiðlum, auk þess að koma fram almennt“ sagði Freyja. Félagsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu hittast einu sinni í mánuði og hafa myndast innan hópsins viðskipta og vináttusambönd.

Aðspurð um hvernig ferðin á Austurland hefði reynst svaraði Freyja: „Við erum í skýjunum með ferðina, það var svo vel tekið á móti okkur hvar sem við komum enda landsbyggðafólk gestrisið með afbrigðum“.

Konur hafa unnið við sjávarútveg frá örólfi alda og lengi framan af var rödd þeirra veik og samtakamáttur lítill en nú hefur orðið breyting á. Með tilkomu félagsskapar eins og KIS geta konur í sjávarútvegi látið til sín taka og þar eru allar konur sem starfa í sjávarútvegi eða tengdum greinum velkomnar því eitt af femstu markmiðum félagsins Konur í sjávarútvegi eru: jákvæðni, samstaða og hjálpsemi. Nánar má fræðast um félagið á kis.is

BÓA