Hoffell Su 80 kom til heimahafnar að kveldi 8.júní með u.þ.b. 1600 tonn af Kolmunna.  Aflinn var veiddur á fiskimiðum suð-austur af landinu sem kallast því fallega nafni Rósagarðurinn.  Rósagarðurinn er innan íslenskrar lögsögu og eru það góðar fréttir fyrir sjávarútveginn. Páll Sigurjón Rúnarsson var skipstjóri á Hoffellinu í þessum túr og aðspurður hvers vegna það væru góð tíðindi fyrir Íslendinga að veiða Kolmunna innan landhelgi svaraði hann því til að þau skilyrði hefðu fylgt kvótanum að 20% skyldu veiðast innan  íslenskrar lögsögu en 80% mætti veiðast utan hennar.

„Það er alltaf gott að veiða innan okkar lögsögu“ sagði Páll, „þá er t.a.m. styttra heim. Þegar við hættum veiðum voru aðeins 66 mílur að bryggju:“  Þá sagði Páll að fiskurinn væri feitari og vænni en þeir hefðu séð áður á þessari vertíð.  Undirrituð spurði þá hvort að Hoffellið myndi ekki bruna beint í Rósagarðinn aftur í næsta túr, svaraði Páll hæglátlega að Kolmunninn færi býsna hratt yfir, hann gæti ferðast 20 til 30 mílur á sólarhring og því ómögulegt að segja til um hvar hann yrði að finna næst. En skipstjórnendur Hoffellsins kunna sitt fag og munu finna fiskinn.

Ekki var hægt að sleppa Páli án þess að spjalla aðeins um Sjómannadaginn sem er næst komandi sunnudag 11.júní. „Sjómannadagurinn leggst vel í mig“ sagði Páll „hann hefur auðvitað breyst svolítið með fækkandi sjómönnum en hann er alltaf hátíðisdagur í mínum huga“.

Hoffellið býður bæjarbúum og gestum uppá siglingu á laugadaginn 10.júní kl. 11.00 sem og önnur skip Loðnuvinnslunnar, Ljósafell, Sandfell og Hafrafell.

„Það verður tekið vel á móti öllum“ sagði Páll sem var upptekinn við að þrífa og gera klárt fyrir gestagang um borð.

BÓA