Sandfell Su 75 var aflahæstur línubáta í Júnímánuði og kom að landi með 215,9 tonn. Örn Rafnsson er skipstjóri á Sandfellinu og þegar hann var inntur eftir því hvernig á því stæði að Sandfellið væri eins aflasækið og raun ber vitni svaraði hann því stutt og laggott: „góð áhöfn, góður bátur og góð útgerð“.  „Þá er líka mikilvægt að hafa ferska og góða beitu, við höfum beitningavél um borð sem skellir á krókanna síld sem kemur beint úr frystinum. Og svo er líka mikilvægt að línan sé hrein“.

Þegar greinarhöfundur heilsaði uppá áhöfnina á Sandfelli var skipstjórinn í óða önn að hífa kör um borð, búið var að landa 12 tonnum eftir síðasta túr. Tveir áhafnarmeðlimir voru á bryggjunni að festa króka í körin fyrir hífingu og einn í lestinni til þess að taka á móti. Öll vinnan var fumlaus og strax mátti skynja að á þessum vinnustað ríkti samheldni og vinátta. „Við erum búnir að vinna lengi saman“ sagði Örn, „þetta eru góðir strákar, allir fínir sjómenn“. Athygli vakti hjá greinarhöfundi við spjallið við Örn að þegar stutt hlé varð á hífingunni mátti heyra í ryksugu. Var þar að verki maðurinn úr lestinni, hann nýtti tímann til góðra verka, rauk inn og ryksugaði.

Aðspurður sagði Örn að það væru tvær áhafnir á Sandfelli. Hann og hans menn væru um borð og réru í fimmtán daga, þá kæmi hin áhöfnin og réri í fimmtán daga. „Ég á reyndar tvo syni þar“ sagði Örn stoltur.

En hver er Örn Rafnsson? „Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en flutti til Grindavíkur árið 1978. Ég hef verið á sjó síðan ég var 16 ára gamall en samt aðeins unnið hjá þremur útgerðum“. Örn er kvæntur, hann á fjögur börn og tíu barnabörn og þegar hann á frí þykir honum gott að slaka á í faðmi fjölskyldunnar. Þá stundar hann stangveiði og skotveiði sér til ánægu svo það má með sanni segja að veiðmennska hvers konar sé honum í blóð borin.

Að lokum var ekki annað eftir en að spyrja Örn hvernig honum litist nú á Fáskrúðsfjörð eftir að hafa dvalið hér meira og minna í eitt og hálft ár? „Mér líst mjög vel á Fáskrúðsfjörð“ svaraði hann, „hér er gott fólk og staðurinn er virkilega huggulegur“.

Og þegar greinarhöfundur ætlaði sér að klöngrast frá borði beið ungur áhafnarmeðlimur á bryggjunni með útrétta hönd og gerði landgönguna svo miklu auðveldari og virðulegri.

BÓA