Góður túr hjá Hoffelli

Hoffell er á leið til heimahafnar á Fáskrúðsfirði með um 920 tonna afla. Aflinn skiptist þannig að 780 tonn eru makríll og 140 tonn eru síld. Gekk túrinn mjög vel en það tók aðeins um tvo og hálfan sólarhring að ná umræddum afla. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að aflinn væri fenginn sunnan við Vestmannaeyjar og að makrílinn væri stór og fallegur eða um 500 gr að meðalvigt. Síldin væri einnig ágæt.

Þegar Sigurður var inntur eftir því hvort að hann væri ekki sáttur við gengið sagði hann að þetta væri góð byrjun, nú tæki við stíf sókn í makríl fram í september, en Hoffell hefur yfir að ráða um 10.000 tonna kvóta af makríl. “Ég vildi gjarnan sjá fleiri árganga, minni fiska sem gefur vísbendingu um að fiskurinn sé í endurnýjun, en það er svo sem ekkert að marka það strax” sagði skipstjórinn.

Hoffell verður í landi um kl. 02.30 aðfaranótt miðvikudagsins 8.júlí, hefst löndun á aflanum fljótlega upp úr því og þegar aflanum hefur verið landað verður lagt af stað á nýjan leik. “Törnin er byrjuð, við erum svolítið fyrr á ferðinni núna, við byrjuðum aðeins seinna í fyrra og það virðist vera nægur fiskur, svo ég er bara bjartsýnn” sagði Sigurður.

Nú hefur Sigurður skipstjóri verið í eitt ár á Hoffelli, hann byrjaði í júní 2019. Aðspurður sagði hann að árið hefði verið gott þrátt fyrir vonbrigði með kolmunnavertíð, loðnubrest og erfitt tíðarfar til sjós, en það hefði verið gæfuspor að flytja austur á firði.

Full ástæða er til að óska skipstjóra og áhöfn Hoffells til hamingju með þennan góða árangur.

BÓA

Makrílveiði

Hoffellið er á leið af miðunum, sunnan Vestmannaeyja með fyrsta makrílfarm sumarsins, eða tæp 800 tonn af makríl og rúm 100 tonn af síld.

Heppni og duglegir karlar

Ljósafell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði í morgun, mánudaginn 6.júlí með um 90 tonna afla. Vel hefur gengið hjá áhöfninni á Ljósafelli að undanförnu og gaman að geta þess að í maí mánuði var Ljósafellið í áttunda sæti yfir aflahæstu togarana og bætti svo um betur í júnímánuði og endaði í fimmta sæti með rúmlega 700 tonn í 7 róðrum.  Ljósfell hefur vanalega verið í tíunda til fimmtánda sæti yfir aflahæstu togara en, eins og áður sagði, gerði sér lítið fyrir og stökk upp um tíu sæti. Vel gert.

Hjálmar Sigurjónsson er skipstjóri á Ljósafelli og þegar hann var spurður út í hverju væri að þakka þetta góða gengi svaraði hann um hæl: “heppni og duglegir karlar um borð”.  Ekki vildi skipstjórinn eigna sér persónulega neinn heiður af þessari velgengni. “Ég er bara að reyna að standa mig í vinnunni” sagði hann “en auðvitað verða allir glaðir þegar vel gengur, bæði mannskapurinn um borð og útgerðin”. Hann sagði að veðrið hefði verið þeim hagstætt og að “fiskurinn var bara þar sem við vorum” bætti hann hóglátur við.  Hjálmar sagði líka að samstarf við aðra skipstjóra væri með miklum ágætum, þeir spjölluðu saman og deildu reynslu sinni. “Menn eru alveg hættir að ljúga hver að öðrum um fiskimið og aflabrögð” sagði skipstjórinn. 

Þegar greinarhöfundur náði tali af Hjálmari skipstjóra var hann staddur í bílskúrnum heima hjá sér og var að láta augun renna yfir þann tækjabúnað sem þar stendur því hann ætlaði sér að gera sér glaðan dag í landlegunni. Hann var fljótur að útiloka snjósleðan því, sem betur fer er ekki færi fyrir hann í Fáskrúðsfirði í júlí, en hann renndi hýru auga til mótorhjóls sem þar stóð. Þegar greinarhöfundur benti honum á sláttuvél sem valkost var hann fljótur að segja: “nei, nei, Dagný á þessa” og átti þar við konu sína. Svo mótorhjólið varð fyrir valinu að þessu sinni og skipstjórinn Hjálmar hélt uppá góðan árangur til sjós með því að fá sér ökuferð á landi.

BÓA

Hjálmar Sigurjónsson með Ljósafellið í bakgrunni

Helmingi meiri afköst með sama mannskap

2019 besta ár í sögu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði skilaði þrefalt meiri hagnaði á síðasta ári en árinu 2018. Fyrirtækið hefur varið 14 milljörðum króna síðastliðin sex ár til þess að styrkja stöðu sína. Árið 2019 er besta ár í sögu félagsins.

Þær fjárfestingar sem um ræðir eru kaup á bolfiskheimildum sjálfvirknivæðing bolfiskvinnslunnar. Eins var hluta hagnaðarins varið til kaupa á uppsjávarskipinu Hoffelli fyrir sex árum og til að standa straum af byggingu nýrrar 7.000 tonna frystigeymslu og til endurnýjunar tækjabúnaðar í fiskimjölsverksmiðjunni.

Uppgjör fyrirtækisins sýna að veltufé frá rekstri undanfarin sex ár nemur um 10 milljörðum króna og að á síðustu þremur árum hafa afköst vinnslunnar aukist um 100% með sama starfsmannafjölda. Nýlega kom fram að hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar eftir skatta árið 2019 var 2.067 milljónir króna samanborið við 700 milljónir árið 2018.

Tekjur Loðnuvinnslunnar á síðasta ári voru 12.816 milljónir kr. sem er 8% aukning frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri var 2.678 milljónir á móti 1.533 milljónum 2018. Eigið fé Loðnuvinnslunnar í árslok 2019 var 9.918 milljónir.

Allar deildir gengið vel

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem er langstærsti hluthafi Loðnuvinnslunnar með 83% hlut, segir að mikil aukning hagnaðar milli ára skýrist meðal annars af því að gengi íslensku krónunnar veiktist verulega á seinni hluta árs 2018 og gengistap þess árs hafi verið 478 milljónir kr. Veik staða krónunnar á síðasta ári hafi unnið með fyrirtækinu og sjávarútvegnum sem atvinnugrein.

„Gengi krónunnar var okkur hagstætt á síðasta ári og allar deildir fyrirtækisins gengu vel. En það varð loðnubrestur og þar með vantar um það bil 2,5 milljarða króna inn í veltuna. En það sem við höfum umfram marga aðra er að við höfum verið að styrkja okkur í bolfiski. Það fellur því aldrei úr dagur í vinnslunni hjá okkur jafnvel þótt engin loðna berist á land,“ segir Friðrik Mar.

Friðrik Mar segir að Loðnuvinnslan hafi haft þá stefnu að styrkja sig í bolfiski einmitt í þeim tilgangi að draga úr sveiflum í veiðum og vinnslu. Góð afkoma Loðnuvinnslunnar undanfarin ár hefur nýst fyrirtækinu í þessum tilgangi. Fyrirtækið hefur á síðastliðnum sex árum keypt til sín aflaheimildir upp á 4.000 tonn af þorski. Á síðastliðnum þremur árum hefur fiskvinnslu Loðnuvinnslunnar verið breytt svo um munar með mikilli sjálfvirkni- og tæknivæðingu. Þegar upp er staðið er hún 100% afkastameiri en fyrir þremur árum með sama mannfjölda.

Fjárfest fyrir milljarð

„Við erum þeirrar skoðunar að ef fyrirtæki tæknivæðast ekki verða þau ekki samkeppnishæf. Það er lykilforsendan fyrir uppbyggingu til framtíðar. Sjálfvirkni- og tæknivæðingin felst í mörgum þáttum. Við byrjuðum á því að kaupa stóran lausfrysti fyrir fjórum árum. Við fjárfestum í tveimur vatnaskurðarvélum frá Völku og heildarkerfi sem meðal annars pakkar fiskinum sjálfvirkt í frauðplastkassa. Síðastliðið haust bættust síðan við tvær flæðilínur með skoðunarstöð. Áður höfðum við endurnýjað allar flökunarvélar, hausara og roðdráttarvélar. Þetta er í allt fjárfesting upp á um einn milljarð króna,“ segir Friðrik Mar.

Hann segir að allt hafi þetta verið unnið í áföngum yfir lengri tíma. Hann segir að forsendurnar fyrir sjálfvirkni- og tæknivæðingu fyrirtækisins hafi verið fjárfestingar í auknum bolfiskkvóta.

Sama magn og fyrir Covid

Á Fáskrúðsfirði  bjuggu 742 í janúarbyrjun 2019. Hjá Loðnuvinnslunni starfa 150 manns eða nærri 20% af íbúafjöldanum, þar af um 60 manns í fiskvinnslunni. Aðrir eru á sjó, í fiskimjölsverksmiðjunni, vélsmiðjunni og rafmagnsverkstæðinu eða við síldarsöltun sem Loðnuvinnslan er ein um að sinna hér á landi.

Loðnubrestur tvö ár í röð er áfall fyrir hvaða sjávarbyggð sem er. Friðrik Mar segir að í loðnunni felist uppgrip, jafnt fyrir fyrirtæki og starfsfólk. Það sem ekki hefur verið fryst af loðnu hefur verið brætt í fiskimjölsverksmiðjunni sem er um 85% af loðnunni þegar hrognin hafa verið tekin frá. En fyrirtækinu hefur auðnast að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem loðnubresturinn ella hefði haft með því að geta haldið uppi fullri vinnslu á bolfiski.

Óttast var að Covid-faraldurinn myndi leika markaði fyrir bolfiskafurðir grátt. Sú varð einnig raunin en þó ekki til langs tíma. Á fyrstu viku eftir lokun veitingastaða og samkomubanns á helstu mörkuðum í marsmánuði datt sala á ferskum þorskhnökkum Loðnuvinnslunar niður um 90%. Í annarri vikunni var samdrátturinn 50% frá því sem salan hafði verið frá því fyrir Covid auk þess sem verðið hafði farið niður um 15%.

„Nú má segja að við séum að flytja út sama magn og fyrir Covid og verðlækkunin hefur að talsverðu leyti gengið til baka. Við njótum líka góðs af því núna að Norðmennirnir eru farnir út af markaðnum að talsverðu leyti. Þeir veiða nánast allt sitt á skömmum tíma og lítið framboð er frá þeim þess utan. Markaðir eru aðeins að opna en það vantar enn talsvert upp á að ástandið geti talist eðlilegt í Bretlandi.“

Friðrik Mar segir of snemmt að spá fyrir um afkomuna á þessu óvenjulega ári. Miklu máli skipti hvernig makrílveiðar og vinnsla gangi. Það sem af er þessu ári og einnig í fyrra hafi mjöl- og lýsisverð verið mjög hátt. Perúmenn hafi nú þegar veitt 60% af 2,4 milljóna tonna ansjósukvóta sínum. Það skipti máli fyrir afkomuna í hvaða magni þeirra veiðar enda. Þannig séu margir óvissuþættir sem geri það erfitt að spá fyrir um afkomuna á þessu ári.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn til löndunar í morgun 06.07, með um 90 tonna afla. Aflaskiptingin er 52 tonn þorskur, 20 tonn karfi, 9 tonn ufsl, 9 tonn ýsa og svo annar meðafli.

Hoffell SU

Í gærkvöld kom Hoffell til Fáskrúðsfjarðar frá Færeyjum nýmálað og fínt. Skipið er búið að vera 4 vikur í slipp í Þórshöfn.

Tekin verða veiðarfæri um borð og haldið síðan til makrílveiða.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í gær, mánudag, með rúm 90 tonn af þorski. Þarf af var 50 tonn þorskur, 35 tonn karfi og annar afli.

Nýr verkstjóri

Steinar Grétarsson er nýráðinn verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans helsta starfssvið er að vera verkstjóri við vinnslu á uppsjávarfiski auk þess að sinna tilfallandi verkstjórn í frystihúsinu.

Steinar er ekki nýr í starfi hjá Loðnuvinnslunni, hann hefur starfað þar samanlagt í u.þ.b. 20 ár sem sjómaður, verkamaður í landi og nú síðast í vélgæslu.

Steinar er fæddur og uppalinn Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér við fjörðinn alla sína tíð utan skamms tíma annars staðar.  Hann fetaði veg sem margir ungir menn hafa fetað á undan honum; kláraði grunnskólann en vildi svo fara út að vinna. Þá lá beinast við að fara að vinna við fiskvinnslu, þar var næga vinnu að fá og launin bærileg. Á 17 ára afmælisdaginn fór hann síðan til sjós á skipi sem hér Klara Sveinsdóttir og förinni var heitið í Flæmska hattinn, túrinn varð ansi langur en sex mánuðum síðar kom Klara aftur til hafnar á Fáskrúðsfirði.

Steinar hóf síðan nám í vélvirkjun og fór á samning í vélsmiðju Lvf og samhliða því að vinna í smiðjunni stundaði hann afleysingar á Ljósafelli og gamla Hoffellinu þar sem hann fékk svo fasta stöðu og sjóinn stundaði hann um tíma. “Mér líkaði vel á sjó, en finnst samt betra að vera í landi. Það er alltaf best að leggjast á koddann heima hjá sér á kvöldin” sagði Steinar.

Eins og áður sagði starfaði Steinar við vélgæslu hjá Loðnuvinnslunni áður en hann tók að sér verkstjórastarfið. Í því felst að viðhalda, laga og huga að öllum vélbúnaði fyrirtækisins sem er allnokkur og fer stækkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. “Allt frá frystitækjum til voga og allt þar á milli” svaraði Steinar þegar hann var inntur eftir því hvaða vélar það væru sem vélgæslumaður gætir.

Segja má að Steinar sé alinn upp við störf í síld, loðnu og makríl. Hann tekur við starfi sem faðir hans, Grétar Arnþórsson, hefur gengt á langt árabil. Grétar hefur lögnum verið einn helst síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar og Steinar tekur nú við keflinu og mun, ef að líkum lætur, njóta sömu velgengni og faðir hans.

Er Steinar var inntur eftir því hvort að hann væri tilbúinn í starfið svaraði hann: “já, ég er það, hluti af starfi verkstjóra við vinnslu á uppsjávarfiski er að ákveða í hvað fiskurinn fer, sér í lagi síld, á að setja hana í salt, krydd, í flök eða bita?” “Pabbi hefur reynt að kenna mér þetta í gegn um tíðina” bætti hann við kíminn.

En lífið er ekki bara vinna, það þarf líka að líta uppúr hversdagslegu amstri og Steinar var fljótur til svara þegar hann var spurður um áhugamál og hvað hann sýslaði utan vinnu. “Að vera með fjölskyldunni og helst í útilegu, það finnst mér gott og skemmtilegt. Þá skiptir tíminn engu máli, það þarf ekki að vera að gera eitthvað sérstakt, bara slaka á og njóta samvista við fólkið sitt” sagði hann og benti svo út um gluggann á stóran jeppa og bætti við: “þessi jeppi er líka áhugamál mitt, að vinna við þennan bíl sem við frændurnir (Daníel Ármannsson) eigum saman er mjög gaman, s.l. vetur skelltum við í hann nýrri vél, BMW mótor og nú er hann eins og sportbíll á 44” dekkjum” sagði Steinar og hlaut að launum aðdáunaraugnaráð greinahöfundar sem telur sig hafa nokkuð vit á jeppum.

Steinar á langveikt barn, hann og konan hans, Eydís Ósk Heimisdóttir, þurftu að dvelja mánuðum saman með stúlkubarnið á spítala í útlöndum og greinarhöfundur gat ekki látið hjá líða að spyrja Steinar að því hvort að lífreynsla sem þessi hefði breytt honum sem persónu.  “Það mótar mann, er lærdómsríkt, og það hægir á manni,  það er alveg á hreinu” svaraði hann og bætti því við fjölskyldan hefði áttað sig á því hvað þau hefðu það í raun gott miðað við aðstæður “við eigum svo gott bakland, ekki aðeins stórfjölskyluna sem stóð við bakið á okkur sem einn maður, heldur líka vinnustaðurinn, vinnufélagar og samfélagið allt hér við Fáskrúðsfjörð”.

Steinar er byrjaður í nýja starfinu, og þrátt fyrir að honum hefði líkað vel í vélgæslu starfinu fannst honum kominn tími til að breyta til og takast á við þá ábyrgð sem fylgir því að hafa mannaforráð. “Mér líst vel á þett og ég hlakka til að takast á við ný verkefni” sagði Steinar Grétarsson.

Þá er ekki annað eftir en að kveðja þennan geðþekka verkstjóra, óska honum velfarnaðar í nýju starfi og sparka léttilega í 44”hjólbarðanna í jeppanum þegar gengið var framhjá.

BÓA

Steinar Grétarsson

Hoffell SU

Senn líður að lokum 4. vikna slippferðar Hoffells til Færeyja. Áætluð heimsigling er n.k. laugardagskvöld.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn til löndunar í morgun. Aflinn er um 40. tonn þorskur og 10. tonn ýsa.

Ljósafell SU

Ljósafell kom að landi í gær, sunnudag með um 100 tonna afla. 50 tonn eru þorskur, 30 tonn karfi, 10 tonn ýsa og annar afli.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn til löndunar s.l. miðvikudag með 100 tonn. Þar af var 60 tonn þorskur, 25 tonn karfi og 15 tonn ufsi og annar afli.