Hoffell er á leið til heimahafnar á Fáskrúðsfirði með um 920 tonna afla. Aflinn skiptist þannig að 780 tonn eru makríll og 140 tonn eru síld. Gekk túrinn mjög vel en það tók aðeins um tvo og hálfan sólarhring að ná umræddum afla. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að aflinn væri fenginn sunnan við Vestmannaeyjar og að makrílinn væri stór og fallegur eða um 500 gr að meðalvigt. Síldin væri einnig ágæt.

Þegar Sigurður var inntur eftir því hvort að hann væri ekki sáttur við gengið sagði hann að þetta væri góð byrjun, nú tæki við stíf sókn í makríl fram í september, en Hoffell hefur yfir að ráða um 10.000 tonna kvóta af makríl. “Ég vildi gjarnan sjá fleiri árganga, minni fiska sem gefur vísbendingu um að fiskurinn sé í endurnýjun, en það er svo sem ekkert að marka það strax” sagði skipstjórinn.

Hoffell verður í landi um kl. 02.30 aðfaranótt miðvikudagsins 8.júlí, hefst löndun á aflanum fljótlega upp úr því og þegar aflanum hefur verið landað verður lagt af stað á nýjan leik. “Törnin er byrjuð, við erum svolítið fyrr á ferðinni núna, við byrjuðum aðeins seinna í fyrra og það virðist vera nægur fiskur, svo ég er bara bjartsýnn” sagði Sigurður.

Nú hefur Sigurður skipstjóri verið í eitt ár á Hoffelli, hann byrjaði í júní 2019. Aðspurður sagði hann að árið hefði verið gott þrátt fyrir vonbrigði með kolmunnavertíð, loðnubrest og erfitt tíðarfar til sjós, en það hefði verið gæfuspor að flytja austur á firði.

Full ástæða er til að óska skipstjóra og áhöfn Hoffells til hamingju með þennan góða árangur.

BÓA