Afskipanir á lýsi og mjöli
Hinn 12. mars lestaði Havtank 1126 tonn af lýsi sem selt er á Bretlandsmarkað. Í gær lestaði Barbara 1000 tonn af fiskimjöli, sem einnig fer til Bretlands. N.k. fimmtudag 18. mars er væntanlegt til Fáskrúðsfjarðar flutningaskipið Atlas og mun lesta um 700 tonn af fiskimjöli sem fer til Danmerkur.
LVF kaupir 0,5% loðnukvótans
Nú er verið að ganga frá sölu útgerðarfélagsins Festar hf til þriggja aðila. Loðnuvinnslan hf kaupir 0,5% loðnukvótans, Grandi hf 1,5% og Skinney-Þinganes hf annað af eignum Festar m.a. nótaskipin Örn og Þórshamar og fiskimjölsverksmiðjuna Gautavík á Djúpavogi. Eftir kaupin er LVF með 1,5% loðnukvótans.
1500 tonn af loðnu í einu kasti.
Hoffell kom inn til löndunar í morgun með fullfermi og er verið að kreista hrogn úr farminum. Aflinn fékkst að mestu í einu kasti og tók Hoffell í kringum 1150 tonn og gaf síðan Norðborg frá Færeyjum um það bil 350 tonn. 1500 tonn í einu kasti er sennilega með því mesta sem hægt er að taka í loðnunót og væri ekki gert nema við góðar aðstæður. Norðborg kemur svo seinni partinn í dag með 2300 tonn til Fáskrúðsfjarðar.
Hrognafrysting fyrir Japansmarkað
Í dag er verið að kreista loðnuhrogn úr farmi Hoffells. Að mati kaupanda frá Japan, sem staddur er á Fáskrúðsfirði, eru hrognin orðin nógu þroskuð til framleiðslu fyrir Japansmarkað. Byrjað verður að frysta hrognin í fyrramálið, en í dag er verið að frysta loðnu á markaði í Austur-Evrópu.
Loðnulöndun
Færeyska skipið Jupiter kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 1500 tonn af loðnu. Verið er að flokka úr skipinu til frystingar fyrir Japansmarkað.
Loðnulandanir
Færeyska skipið Krunborg er að landa um 2400 tonnum af loðnu hjá LVF. Jupiter færeyski kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 1500 tonn af loðnu og bíður löndunar.
Aðalfundur LVF 2004
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 26. mars kl.18.00. Fundarefni: Venjuleg aðalfundarstörf og heimild til LVF um að eignast eigin hlutabréf eins og lög kveða á um.
Löndunarbið á Fáskrúðsfirði
Líflegt er við höfnina á Fáskrúðsfirði í dag. Verið er að landa um 1500 tonnum af loðnu úr Vilhelm Þorsteinssyn EA 10, en einnig var landað úr skipinu frosinni loðnu, sem fór um borð í flutningaskip í morgun. Þá bíða tvö færeysk skip löndunar á loðnu, Krunborg með um 2400 tonn og Júpiter með um 1500 tonn.
Finnur Fríði kominn aftur
Færeyska skipið Finnur Fríði kom til Fáskrúðsfjarðar um kl. 20.00 í gærkveldi með um 2470 tonn af kolmunna úr fjórðu veiðiferð sinni. Skipið landaði fullfermni á Fáskrúðsfirði 16. febrúar s.l.
Afkoma LVF 2003
Hagnaður LVF 129 milljónir króna.
Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2003 nam kr. 129 millj. eftir skatta, en árið 2002 var hagnaður LVF kr. 295 millj. Í samanburði á afkomunni á milli ára munar mest um að fjármagnsliðir eru nú kr. 135 millj. óhagstæðari en árið á undan, en þá voru fjármagnsliðir jákvæðir um kr. 118 millj. Þá hefur styrking íslensku krónunnar einnig mikil áhrif á útkomuna, þar sem mun færri krónur fást fyrir afurðirnar.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru tæpir kr. 2,7 milljarðar og höfðu aukist um 17% frá árinu áður. Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (EBITDA) varð kr. 452 millj. eða 17% af tekjum og lækkaði um kr. 28 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam kr. 378 millj. sem er 14% af tekjum, en árið 2002 var fjármunamyndunin kr. 423 millj. eða 18%. Afskriftir voru kr. 267 millj. og höfðu lækkað um kr. 17 millj.
Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.470 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Eigið fé hækkaði um kr. 128 millj. á milli ára eða um 10%. Arðsemi eigin fjár var 8,8%.
Nettó skuldir LVF voru í árslok kr. 946 millj. og höfðu lækkað um kr. 284 millj. frá árinu á undan. Fjárfestingar félagsins árið 2003 voru kr. 74 millj.
Á launaskrá LVF komu 305 manns á síðasta ári, en að jafnaði vinna hjá félaginu um 170 manns.
Hluthafar í árslok voru 226. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stærsti hluthafinn með um 84% hlutafjárins.
Sjá uppgjör undir ársskýrslur.
LVF hlýtur viðurkenningu
Hinn 17. febrúar s.l. afhenti Ævar Agnarsson frá Iceland Seafood Corporation, USA, nokkrum fyrirtækjum í sjávarútvegi viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi gæði framleiðslu sinnar árið 2003 fyrir Bandaríkjamarkað. Þau fyrirtæki sem viðurkenningu hlutu voru auk Loðnuvinnslunnar hf., Guðmundur Runólfsson hf.,
Útgerðarfélag Akureyringa hf., Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf og Sjóvík. Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri og Þorri Magnússon, framleiðslustjóri, tóku á móti viðurkenningu LVF. Gísli Jónatansson þakkaði stjórnendum Iceland Seafood fyrir hönd viðtakenda. Athöfnin fór fram á Lækjarbrekku í Reykjavík.
Á myndinni eru frá vinstri Ævar Agnarsson ISC., Ellert Vigfússon Sjóvík, Ingólfur Hjaltalín FH., Guðm. Smári Guðmundsson GR., Móses Geirmundsson GR., Pétur Pétursson FH., Gunnar Larsen ÚA., Magnús Baldursson ÚA., Gísli Jónatansson LVF., og Þorri Magnússon LVF.
Fyrsti kolmunninn
Fyrsti kolmunninn sem hingað berst til lands á árinu kemur til Fáskrúðsfjarðar í dag. Það er færeyska skipið Finnur Fríði sem kemur til Fáskrúðsfjarðar um kl. 12.30 með 2300 tonn, sem veiddust vestur af Írlandi. Finnur Fríði er nýtt skip, sem kom til heimahafnar í Færeyjum 20. desember s.l. og er þetta þriðja veiðiferð skipsins. Skrokkur skipsins var byggður í Rúmeníu, en var svo dreginn til Noregs um mánaðarmótin ágúst-september 2003, þar sem skipið var klárað. Skipstjóri á Finni Fríða er Arne Hansen, sem áður var með Trónd í Götu, skip sömu útgerðar. Útgerðarmaður skipanna er Jákup Jacobsen í Götu í Færeyjum.
Myndin er tekin er Finnur Fríði kom til heimahafnar í desember s.l. Tróndur í Götu er í baksýn