Andveltitankur á Ljósafell

Þó að Ljósafell sé meira en 30 ára gamalt ber skipið aldurinn vel. Togarinn er eins og mjólkurpóstur fyrir frystihúsið og er alltaf til löndunar á mánudagsmorgnum og hefur svo verið alla tíð síðan systurskipið Hoffell var selt 1996. Ýmislegt er búið að gera skipinu til góða t.d. fór skipið til Póllands 1988 og kom heim eins og nýtt veturinn 1989. Ennþá er verið að flikka upp á Ljósafellið og á síðasta ári var settur á skipið veltitankur eða réttar sagt andveltitankur og setur hann töluverðan svip á skipið, þar sem hann kemur áfastur framan við stýrihúsið og myndar göngubrú fyrir framan það.

Áhöfnin lætur mjög vel að þessari viðbót og segja mikið betra að vinna á skipinu eftir þetta. Veltitankurinn var smíðaður af vélaverkstæði LVF og stjórnun gerð af rafdeild LVF., en teikningar og hönnun var unnin af Ráðgarði-skiparáðgjöf í Reykjavík.

Starfsmannafélag LVF

Starfsmannafélag LVF var með aðalfund sinn þriðjudaginn 27. apríl. Á fundinum var meðal annars kosin ný stjórn, en hana skipa: Hrefna Guðný Kristmundsdóttir, formaður, Bjarnheiður Pálsdóttir, Dagbjört Sigurðardóttir, Grétar Arnþórsson, Jóhann Óskar Þórólfsson og Kjartan Reynisson, sem meðstjórnendur, en Óðinn Ómarsson var kjörinn varamaður. Starfsmannafélagið hefur starfað að miklum krafti m.a. með helgarferð til Akureyrar á s.l. hausti ásamt öðrum uppákomum. Annað kvöld munu starfsmenn fjölmenna í mat og dansi-ball á Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík og opnar húsið kl. 20.00. Að loknu borðhaldi verður dansleikur sem er öllum opinn.

Á myndinni eru Hrefna Kristmundsdóttir formaður Starfsmannafélags LVF og Paulius Naucius á vinnustað s.l. haust.

Glaðningur frá SÍF

Starfsmenn SÍF komu í síðustu viku færandi hendi til Fáskrúðsfjarðar. Komu þeir með nokkrar tertur til að fagna góðri uppsjávarvertíð í vetur og mestu síldarsöltun sem verið hefur hjá LVF á síðustu vertíð eða 23.000 tunnur. Loðnuvinnslan hf var hæst söltunarstöðva á síðustu vertíð. Mikil ánægja var með þessa heimsókn SÍF-manna meðal starfsfólks. Hafi þeir kærar þakkir fyrir. Á myndinni eru frá vinstri Þorri Magnússon framleiðslustjóri LVF, Kristján Jóhannesson síldarsöltun SÍF og Teitur Gylfason framleiðslustjóri uppsjávarsviðs SÍF með eina af tertunum á milli sín.

Meiri kolmunni

Kl. 17.00 í dag kom færeyska skipið Christian í Grótinum til Fáskrúðsfjarðar með um 1900 tonn af kolmunna, sem veiddist suður af Færeyjum.

Kolmunnaveiði

Góð kolmunnaveiði hefur verið sunnarlega í færeysku lögsögunni á stóru svæði undanfarnar tvær vikur. Einnig hefur verið góð veiði suðvestur af Orkneyjum hjá skipum m.a. frá Írlandi. Í gær var byrjað að landa úr írska skipinu Western Endeavour um 2000 tonnum og í dag verður landað úr Ingunni AK svipuðum afla.

Þegar þessum löndunum er lokið verður búið að taka á móti 18.000 tonnum af kolmunna hjá LVF það sem af er árinu.

Kolmunnalandanir í dymbilviku

Skoska skipið Conquest landaði um 1000 tonnum af kolmunna fimmtudaginn 8. apríl og 9. apríl landaði færeyska skipið Krúnborg 2400 tonnum. Laugardaginn 10. apríl landaði svo hið nýja og glæsilega skip Færeyinga Finnur Fríði 2500 tonnum, en þetta er þriðji farmurinn af kolmunna sem Finnur Fríði landar á Fáskrúðsfirði í vetur. Kolmunninn er nú farinn að veiðast syðst í færeysku lögsögunni og er viku fyrr á ferðinni miðað við síðasta ár. Til Fáskrúðsfjarðar hafa borist um 14000 tonn af kolmunna það sem af er árinu.

Kolmunnalandanir 2004

Í dag er verið að landa hjá Loðnuvinnslunni hf um 1100 tonnum af kolmunna úr skoska skipinu Conquest og írska kolmunnaskipið Western Endeavour bíður löndunar á um 2000 tonnum. Fyrsti kolmunninn sem barst til Íslands á þessu ári kom til Fáskrúðsfjarðar 16. febrúar, en þá landaði færeyska skipið Finnur Fríði um 2300 tonnum og aftur landaði Finnur Fríði 27. febrúar um 2500 tonnum á Fáskrúðsfirði. Það hafa því borist til Fáskrúðsfjarðar um 8000 tonn af kolmunna það sem af er árinu. Á myndinni sést að verið er að landa úr Conquest og Western Endeavour bíður.

Niðurstöður aðalfundar LVF

Á aðalfundi LVF 26. mars 2004 voru mættir hluthafar sem höfðu yfir að ráða 91% hlutafjárins í félaginu. Ársreikningur LVF var samþykktur. Í ársreikningi 2003 kemur fram að hagnaður LVF af reglulegri starfsemi var kr. 169 millj. og hagnaður eftir skatta var kr. 129 millj. Heildartekjur voru kr. 2,7 milljarðar og höfðu hækkað um 17% frá árinu á undan. Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaður (EBITDA) var kr. 452 millj. og veltufé frá rekstri nam kr. 378 millj. Eigið fé LVF var kr. 1.470 millj. og hafi hækkað um 10% frá fyrra ári og eiginfjárhlutfall var 48%. Nettó skuldir félagsins voru um síðustu áramót kr. 946 millj.



Samþykkt var að greiða 5% arð til hluthafa vegna ársins 2003, sem nemur um kr. 34 millj.



Samþykkt var að heimila stjórn LVF að eignast fyrir félagsins hönd eigin hlutabréf eins og lög leyfa. Heimildin er allt að kr. 68 millj. að nafnverði og gildir til 26. sept. 2005.



Samþykkt var að stjórnarlaun formanns fyrir síðasta starfsár skuli vera kr. 400.000,- og aðalmanna kr. 200.000,-. Varamenn fái greitt í hlutfalli við stjórnarsetu.



Magnús Helgason gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var Friðrik Guðmundsson kjörinn í stjórnina í hans stað. Stjórnin skipti þannig með sér verkum: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Kjartan Reynisson, ritari, Elvar Óskarsson og Steinn Jónasson, meðstjórnendur. Varamenn voru kjörnir Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.



Endurskoðunarfélag var kjörið Bókun sf./Guðmundur Jóelsson, lögg. endurskoðandi.

Aðalfundir

Aðalfundir Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar hf verða haldnir á morgun 26. mars á Hótel Bjargi.

Byrjar aðalfundur KFFB klukkan 17.00 og LVF klukkan 18.00.

Afskipanir á lýsi og mjöli

Hinn 12. mars lestaði Havtank 1126 tonn af lýsi sem selt er á Bretlandsmarkað. Í gær lestaði Barbara 1000 tonn af fiskimjöli, sem einnig fer til Bretlands. N.k. fimmtudag 18. mars er væntanlegt til Fáskrúðsfjarðar flutningaskipið Atlas og mun lesta um 700 tonn af fiskimjöli sem fer til Danmerkur.

LVF kaupir 0,5% loðnukvótans

Nú er verið að ganga frá sölu útgerðarfélagsins Festar hf til þriggja aðila. Loðnuvinnslan hf kaupir 0,5% loðnukvótans, Grandi hf 1,5% og Skinney-Þinganes hf annað af eignum Festar m.a. nótaskipin Örn og Þórshamar og fiskimjölsverksmiðjuna Gautavík á Djúpavogi. Eftir kaupin er LVF með 1,5% loðnukvótans.

1500 tonn af loðnu í einu kasti.

Hoffell kom inn til löndunar í morgun með fullfermi og er verið að kreista hrogn úr farminum. Aflinn fékkst að mestu í einu kasti og tók Hoffell í kringum 1150 tonn og gaf síðan Norðborg frá Færeyjum um það bil 350 tonn. 1500 tonn í einu kasti er sennilega með því mesta sem hægt er að taka í loðnunót og væri ekki gert nema við góðar aðstæður. Norðborg kemur svo seinni partinn í dag með 2300 tonn til Fáskrúðsfjarðar.