Áramót
Óskum starfsfólki okkar og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári. Þökkum samskiptin á árinu sem er að líða.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf.
Gleðileg jól
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf
Alma farin
KL. 4.30 í morgun lagði norski dráttarbáturinn Stadt Valiant af stað með flutningaskipið Ölmu í togi áleiðis til Akureyrar. Á Akureyri verður sett nýtt stýri á skipið og frekari skemmdir kannaðar. Það er óhætt að segja að sjónarsviptir sé af Ölmu, en hér er skipið búið að liggja við bryggju síðan 6. nóvember s.l. Það er von Fáskrúðsfirðinga að viðgerðin gangi hratt og vel fyrir sig, svo að Alma megi sem fyrst sigla um heimsins höf á ný. Skipshöfninni sendum við góðar kveðjur og óskir um gleðileg jól.
Árshátíð LVF 2011
Árshátíð Loðnuvinnslunnar hf verður haldin í Félagsheimilinu Skrúði laugardaginn 10. desember n.k. Hátíðin hefst með borðhaldi kl. 20.00, en húsið verður opnað kl. 19.30.
Sumarlína ehf sér um veislumatinn, en hljómsveitin Nefndin leikur fyrir dansi. Formaður skemmtinefndar er Kjartan Reynisson.
Góða skemmtun. Loðnuvinnslan hf
Green Lofoten farin með farminn
Kl. 14.00 í dag lagði flutningaskipið Green Lofoten af stað frá Fáskrúðsfirði til St. Petersburg með um 3000 tonn af frystum afurðum sem voru um borð í Ölmu. Hoffell kom með Ölmu í togi til Fáskrúðsfjarðar aðfaranótt 6. nóvember s.l., en skipið hafði misst stýrið er það sigldi út frá Hornafirði aðfaranótt 5. nóvember.
Alma er enn við bryggju á Fáskrúðsfirði og bíður þess að verða dregin til viðgerðar innanlands eða erlendis.
Helgarferð starfsmanna
Um síðustu helgi var farin ferð til Akureyrar á vegum Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar. Gist var í tvær nætur á Hótel KEA og farið á jólahlaðborð á hótelinu á laugardagskvöldið. M.a.var farið í kynnisferð í Bjórverksmiðjuna á Árskógssandi og að sjálfsögðu kannaði fólk jólavörurnar í verslunum Akureyrarbæjar. Um 75 manns tóku þátt í ferðinni og var hún hin ánægjulegasta í alla staði. Formaður Starfsmannafélags LVF er Jens Dan Kristmannsson.
Gáfu hjartsláttarrita
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf færðu Heilsugæslunni á Fáskrúðsfirði Holter hjartsláttarrita og sendistöð að gjöf frá fyrirtækjunum. Afhendingin fór fram í Tanga (gamla kaupfélaginu) sunnudaginn 6. nóvember s.l. að viðstöddum gestum. Gísli Jónatansson afhenti gjöfina f.h. stjórna fyrirtækjanna og tók Þórarinn Baldursson yfirlæknir Heilsugæslunnar í Fjarðabyggð við henni. Ávörp fluttu Þórarinn Baldursson, Stefán Þórarinsson framkvæmdastjóri lækninga HSA og Jónína G. Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur á Fáskrúðsfirði. Að lokinni afheningu var gestum boðið að skoða Tanga og þiggja veitingar.
Á myndinni eru f.v. Þórarinn Baldursson, Jónína G. Óskarsdóttir, Stefán Þórarinsson og Gísli Jónatansson. Ljósm. Guðmundur Hraunfjörð.
Hoffell dregur Ölmu til Fáskrúðsfjarðar
Aðfaranótt 5. nóvember s.l. missti flutningaskipið Alma stýrið er það var að sigla út frá Hornafirði. Hoffell var á leið til síldveiða í Breiðafirði er skipið fékk kall frá Landhelgisgæslunni vegna neyðarástands Ölmu úti fyrir Hornafjarðarósi. Um kl. 06.00 var komið taug á milli skipanna, en veður var vont og slitnaði taugin eftir um tvo tíma, en þá hafði tekist að koma Ölmu nokkuð vel frá landi. Vegna veðurs var ekki komið taug aftur á milli skipanna fyrr en um kl. 15.30. Í fyrstu var ætlunin að Hoffell myndi draga skipið til Reyðarfjarðar, en síðar var fallið frá því og ákveðið að draga skipðið inn til Fáskrúðsfjarðar. Skipin lögðust svo að bryggju á Fáskrúðsfirði um kl. 03.30 6. nóvember. Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni, þyrla send austur og tvö varðskip send af stað. Annað þeirra var hið nýja varðskip Þór. Þegar Hoffell var komið með Ölmu í mynni Fáskrúðsfjarðar var varðskipinu Ægi snúið við, en Þór hélt austur til Reyðarfjarðar. Björgun Ölmu tókst í alla staði vel og urðu engin slys á mönnum við björgun skipsins.
Alma er 97 metra langt skip, skráð í Limasson á Kýpur, en eigendur eru frá Úkraínu. Skráður eigandi flutningaskipsins er Armidia Shipping Company Limited.
Á myndinni er Alma við bryggju á Fáskrúðsfirði. Ljósm. Gísli Jónatansson
Beðið eftir síldinni
Á Fáskrúðsfirði er beðið eftir því að Hoffell geti haldið til síldveiða, þar sem Loðnuvinnslan hf er eina fyrirtækið sem enn framleiðir saltsíld. Það sem af er árinu er búið að úthluta 10.000 tonnum af íslenskri sumargotssíld, en það var gert til að mæta meðafla með makríl í sumar. Á s.l. ári var úthlutað 40.000 tonnum af Íslandssíldinni og vona menn að úthlutunin nú verði ekki minni. Skv. rannsóknum á síldinni í sumar virtist sýkingin vera að ganga nokkuð til baka. Undirmenn á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni hafa að undanförnu verið í verkfalli og hefur það komið niður á rannsóknum bæði á síld og loðnu. Rannsóknarskipið Dröfn hóf þó síldarrannsóknir á Breiðafirði 19. október s.l. og skip frá Skinney-Þinganesi ætlaði að halda til síldveiða undan Suðurlandi, en þeir áttu eftir einhvern kvóta frá í sumar. Það verður því vonandi ekki langt að bíða eftir frekari úthlutun á íslensku sumargotssíldinni.
Franskir dagar
Óskum Fáskrúðsfirðingum og gestum góðrar skemmtunar á Frönskum dögum.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf
Afskipanir á mjöli og lýsi
Þann 16. júlí lestaði Onarfjord 660 tonn af loðnulýsi hjá LVF og í gær lestaði Wilson Aveiro um 1100 tonn af loðnumjöli. Afurðirnar eru seldar til Noregs og Danmerkur.
Sumarloðna
Í gær landaði norska skipið Röttingoy frá Bergen um 780 tonnum af loðnu hjá LVF. Um 280 sjómílna sigling var af miðunum.