Sjómannadagshelgi – sigling

Siglingin verður á laugardaginnn 3. júní, daginn fyrir Sjómannadag, kl 10:00.

Loðnuvinnslan óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Mynd: Þorgeir Baldursson.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Ljósafell 50 ára

Mörg eru þau mannanna verk sem endast ekki lengi.  Það þarf ekki á neinn hátt að rýra gildi þeirra en þau verk sem fá alúð og góða umsjón geta enst um ár og síð.  Skip og bátar eru þar engin undantekning og til þess að færa sönnur á þau orð að alúð og góð umsjón hafi vægi, beinum við sjónum að fallegu skipi sem hefur vaggað í sjónum í hálfa öld, en Ljósafell SU 70  á fimmtíu ára afmæli í dag, 31.maí 2023.  Afmælisdagurinn reiknast frá þeim degi þegar það lagðist í allra fyrsta sinn að heimahöfn á Búðum í Fáskrúðsfirði þann 31.maí 1973.  Klukkan sex að morgni þann vordag var veðrið  í Fáskrúðsfirði NV 7,  2 stiga hiti og léttskýjað.

Nafnið Ljósafell prýddi áður  trébát í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og  hefur þessum fleyjum er bera þetta fallega, bjarta nafn farnast vel.  Í norðanverðum Fáskrúðsfirði stendur reislulegt fjall sem ber heitið Ljósafjall og er nafnið dregið þaðan, líkt og hefð er orðin fyrir hjá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni, dótturfélagi þess, þar sem skip og bátar hljóta nöfn af fjöllum sem standa vörð um Fáskrúðsfjörð.

Ljósafell er ísfisktogari og  er byggt í Muroran í Japan. Það var tíunda og seinasta skip sinnar tegundar sem byggt var í Muroran og komu til Íslands en í dag eru þau aðeins tvö eftir á landinu, en það eru Ljósafell og Múlaberg frá Siglufirði.

Þegar allt var reiðubúið til að hleypa Ljósafellinu af stokkunum  Muroran var mætt þar áhöfn sem átti að sigla skipinu heim. Voru það:

 Skipstjóri: Guðmundur Ísleifur Gíslason

Fyrsti stýrimaður: Pétur Jóhannsson

Annar Stýrimaður: Haraldur Benediktsson

Vélstjóri: Gunnar Ingvarsson

Annar vélstjóri: Rafn Valgeirsson

Þriðji vélstjóri: Jón Erlingur Guðmundsson, sem jafnframt var útgerðarstjóri.

Matsveinn: Hjalti Kristjánsson

Háseti: Gunnar Geirsson

Allra fyrsta færslan í  Leiðarbók skipsins er á þessa leið:

„Föstudagurinn 6.apríl 1973.

Kl. 16.00 að staðartíma var skipið afhent með undirskrift.  Sögð nokkur orð af Jóni Erlingi og nokkrum Japönum.  Skálað í kampavíni.  Síðan buðu seljendur í kvöldverð.  Fór hann að öllu leiti vel fram. Skipshöfnin flutti um borð“.

Og ef litið er á þá næstu:

Laugardaginn 7.apríl.

Íslenski fáninn dreginn að húni.  Tekið um borð síðustu nauðsynjar fyrir skipið.  Lögð síðasta hönd á alla vinnu.  Allt virðist í besta lagi“.

Svo rennur upp bjartur og fagur sunnudagurinn 8.maí 1973 og þá eru landfestar leystar kl. 12.30 og stýrt eftir radar að Kyrrahafi.  Fyrsti áfangastaður er Honolulu á Hawai eyjum.

Sú staða var uppi í heimsmálunum í aprílmánuði 1973 að Súesskurðurinn var lokaður vegna deilna og því ekki hægt að sigla þá leið sem styst væri að fara, þ.e. Rauðahafið í gegn um Súes í Miðjarðarhaf og þaðan á Atlantshafið heim.   Þess í stað beið Ljósafells og áhafnar lengri leiðin heim.

Eins og fyrr segir var stefnan sett á Honolulu, þangað var  ellefu daga sigling og lesa má í leiðarbókinni að vel hafi gengið, veðrið afar gott, reyndar svo gott að áhöfnin skellti upp sundlaug á efra dekki.  En á þriðja degi siglinga fannst laumufarþegi um borð.  Reyndist það vera rotta sem hafði laumað sér með en treglega gekk að handsama gestinn og tókst það ekki fyrr en á fimmta degi og eins og segir í leiðarbókinni: „Í dag var laumufarþeginn handsamaður og varpað í vota gröf látinn“.

Á leiðinni til Honolulu hafði olíuþrýstings rör valdið vandræðum, svo að telex var sent til Japan til að fá nýtt og því stoppaði skipið í fimm daga í sólarparadísinni meðan beðið var eftir nýju. Því næst var svo stefnan sett á Panama.  Eftir átján sólahringa siglingu var loks komið að Panama þar sem hafsögumenn komu um borð til þess að leiðbeina á siglingunni um Panamaskurðinn.  Hófst sú ferð kl. 9.45 og kl. 20.15 var lagst við festar í Cristobal, sem er ein stærsta hafnarborg Panama, Atlantshafs megin.

Þar var tekin olía og nauðsynjar til næsta áfanga og lagt af stað til Íslands þann 14.maí 1973.  Löng sigling er frá Panama upp Atlantshafið og gekk hún vel samkvæmt Leiðarbókinni og svo kl. 07.00 að morgni 31.maí er siglt hjá Hafnarnesi og inn í Fáskrúðsfjörð.  Þar var slegið af ferð til að hengja upp flögg svo að skipið kæmi í sparifötum fram fyrir bæjarbúa í fyrsta sinni.  Tollafgreiða þurfti skipið og að því loknu var loks lagst að bryggju kl.11.00 og þá var „fagnað með fánum og ræðuhöldum og síðan var skipið til sýnis fyrir alla“ (úr Leiðarbók).

Á því herrans ári 1973 bar sjómannadag upp á 3.júní og þá fór Ljósfell í skemmtisiglingu með fullt skip af fólki og hefur gert það allar götur síðan.  Og svo þann 7. júní fór skipið í sinn fyrsta veiðitúr og kom að landi með 106 tonn af afla viku síðar. Og núna fimmtíu árum eftir fyrsta túrinn hefur Ljósafell Su 70 komið með 198.471 tonn og 470 kíló af fiski til hafnar.

Og enn er Ljósafell að draga björg í bú en segja má um skip eins og hús að þau séu einskins virði ef ekki býr eða starfar þar fólk, en mikil áhafnagæfa hefur fylgt skipinu.  Á þessum fimmtíu árum hafa einungis verið fjórir fastráðnir skipstjórar á skipinu. Það eru þeir Guðmundur Ísleifur Gíslason, Albert Stefánsson, ( báðir látnir)  Ólafur Helgi Gunnarsson og Hjálmar Sigurjónsson.  Starfandi skipstjóri á Ljósafelli í dag er Kristján Gísli Gunnarsson í forföllum Hjálmars.

Ólafur Helgi var á Ljósafellinu í 40 ár.  Aðspurður sagði hann að það væri gott skip en hefði orðið svo miklu betra við lenginguna sem það hlaut árið 1989. „Þá var skipið lengt um 6,6 metra, það var skipt um brú, sett á það pera, skipt um aðalvél og togspil“ sagði Ólafur.  Hann sagði að við þessa breytingu hefði skipið breyst mikið t.d. hafi það haldið mikið betri ferð á togi og látið svo miklu betur í brælu.  

Síðan voru aftur gerðar breytingar á skipinu árið 2007 og þá var eldhúsið endurnýjað og matvæla kælar færðir aftur í. „Það var svo önugt fyrir kokkinn að þurfa alltaf að fara fram í stefni til þess að sækja matvæli í kælinn“ sagði Ólafur.  Þá komu líka ný togspil sem þóttu afar góð, tæki í brú yfirfarinn og endurnýjuð og aðalvélin yfirfarin.

Þegar Hjálmar Sigurjónsson var inntur eftir sinni skoðun á Ljósafelli sagði hann snöggur upp á lagið: „Snilldarfleyta, það fer mjög vel með mann og er mjög gott sjóskip“.  Hjálmar sagi líka að hann hefði siglt á nokkrum togurum í gegn um tíðina og sér fyndist Ljósafellið bera af.

Gæfa hefur fylgt þessu skipi.  Ekki hafa orðið stór skakkaföll hjá skipi eða áhöfn og mikill stöðugleiki í mannskap.  Allnokkrir  hafa verið stóran hluta af sinni starfsævi á Ljósafelli.

Þegar Ljósafell kom heim á Fáskrúðsfjörð kom það með von um betri tíð.  Reksturinn í sjávarútvegi hafði verið strembinn árin á undan og draumurinn um öflugt skip sem gat farið hvert sem er að sækja fisk til að vinna í frystihúsinu á Búðum var að rætast.  Hálfri öld síðar hefur vonin og draumurinn sína táknmynd í Ljósafelli SU 70 sem enn sinnir sínu hlutverki og mun vonandi gera það áfram um langt skeið.

Til hamingju áhöfn og útgerð og Fáskrúðsfirðingar allir með fallega, reislulega skipið sem vaggar hljóðlega á sjónum í dag sem og aðra daga.

Að lokum langar mig að birta hér ljóð sem Björn Þorsteinsson frá Þernunesi orti í tilefni að heimkomu Ljósafells úr breytingu  árið 1989.

Nú í dag við hátíð höldum

þá heima er Ljósafellið aftur.

Enn á sollnum sjávaröldum

sigrað hefur manndómskraftur.

Og skipið fært til heimahafnar,

-því heim er jafnan stefni snúið-

en síðan það úr djúpi drafnar

dregur auð í þjóðarbúið.

Þetta skip er farsæl fleyta,

sem fært hefur mikinn afla að landi.

Og núna er því búið að breyta

svo betur undir kröfum standi.

Lengja það og styrkja og stækka,

það stefnir vonandi allt til bóta.

En líka þyrftir helst að hækka

hlutaskipti og aflakvóta.

En kringum landið fiskum fækkar.

Það fæst af útgerð lítill gróði.

Og skuldabagginn stóri stækkar.

Menn stöðugt biðja um hjálparsjóði.

En það er öllum erfitt gaman

afarkostum þurfa að sæta.

Og því við skulum þjappast saman,

úr þrengingunum reyna að bæta.

En núna á ekki við að vera

volaður og niðurdreginn.

Heldur kraft í brjósti bera.

Bjartsýn horfa fram á veginn

og gleðjast hér á góðri stundu.

Gleyma öllu böli að sinni.

Fagna meður léttri lundu

Ljósafelli og skipshöfninni.

Björn Þorsteinsson, Þernunesi.

BÓA

Ljósafell. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir

Á afmælisdögum er til siðs að fá sér köku.

Fiskimjölsverksmiðjan hefur tekið á móti 70.000 tonnum á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjan hefur tekið á móti 70.000 tonnum af hráefni þegar Hoffell landar í dag. Starfsmönnum verksmiðjunnar var færð kaka af þessu tilefni.

Þetta er með því mesta sem hefur verið tekið á móti á fyrstu 5 mánuðum ársins. Vinnslan hefur gengið mjöl vel.

Myndir: Loðnuvinnslan.

Hoffell á landleið með rúm 2.000 tonn af Kolmunna.

Hoffell er á landleið með rúm 2.000 tonn af Kolmunna og verður í fyrrmálið.  Hoffell hefur þá veitt 18.500 tonn af kolmunna á árinu og tæp 32.000 í heildina í öllum tegundum.

Næst verður farið á Makrílveiðar þegar hann byrjar að gefa sig.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Loðnuvinnslan styður og styrkir

Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar hf, sem haldinn var í Wathnessjóhúsi þann 12.maí 2023 útdeildi fyrirrækið styrkjum til hinna ýmsu málefna.

Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 17 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfa.  Vilberg Marinó Jónsson er formaður Leiknis og sagði hann að þessi styrkur skipti sköpum fyrir félagið. “ Ekki aðeins leggur þessi upphæð þungt lóð á vogaskálarnar við rekstur félagsins, en innan þess eru margar deildir, heldur gefur okkur kost á því að stofna nýjar deildir innan félagsins” sagði Vilberg er hann var inntur eftir viðbrögðum við styrknum.  Hann sagði að það væri í vinnslu að stofna rafíþróttadeild innan Leiknis sem slæst þá í för með þeim deildum sem fyrir eru.  Vilberg sagði einnig að til greina kæmi að stofna einhvers konar styrktarsjóð sem iðkendur gætu sótt í til þess að komast á íþróttamót. Er hugsunin á bak við það að jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar því sannarlega eru aðstæður heimila misjafnar. “Þetta er mjög rausnarlegur styrkur og við erum afar þakklát Loðnuvinnslunni” sagði Vilberg Marinó.

Þá lætur LVF 10 milljónir króna af hendi rakna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til styrktar því góða starfi sem þar fer fram. Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er formaður starfsmannafélagsins og var að vonum afar ánægð með styrkinn og sagði: “Það er ómetanlegt að fyrirtækið styrki starfsmannafélagið svona rausnarlega því það er mjög mikilvægt að starfsfólk komi saman utan hefðbundins vinnutíma og geri sér glaðan dag því slíkt eflir liðsheildina og eykur starfsánægju”.

Starfsmannafélag LVF er ötult félag sem stendur fyrir margvíslegum ferðum og atburðum fyrir sitt fólk.  Arnfríður sagði að margt spennandi væri fram undan og mætt þar nefna sjómannadagsskemmtun þar sem boðið verður upp á veitingar og lifandi tónlist. “Og í október ætlum við að fara í tíu daga ferð til Sikileyjar þar sem allir geta heldur betur hlaðið batteríin í hlýjunni” sagði Arnfríður og heyra mátti eftirvæntingu í röddinni sem án efa er að finna hjá öðru starfsfólki líka.

Síðan verður fjölskyldu-jólastund á aðventunni. Að sögn Arnfríðar stóð starfsmannafélagið fyrir slíkri skemmtun á síðasta ári og heppnaðist hún býsna vel. “Það yljaði um hjartarætur að sjá breið bros á litlum andlitum innan um fjölskyldu og vini svo ekki sé nú minnst á jólasveinana” sagði Arnfríður  og bætti því við að stjórn starfsmannafélagsins væri afar þakklátt fyrir þennan rausnarlega styrk.

Félag um Franska daga fékk 1.8 milljónir í styrk til þess að halda bæjarhátíðna Franska daga. Nánar má lesa um þessa styrkveitingu í greininni um styrki Kaupfélagsins.

Björgunarsveitin Geisli hlaut 1 milljón króna til styrktar sinni starfssemi. Það er hverju samfélagi mikilvægt að hafa innan sinna raða félagsskap sem er tilbúin til þess að láta til sín taka þegar slys, hamfarir eða aðrir erfiðleikar berja að dyrum. Loðnuvinnslan hefur í gegn um tíðina verið dyggur og trúr stuðningsaðili Geisla og á því er engin breyting.

Gretar Helgi Geirsson er formaður björgunarsveitarinnar Geisla og sagði að svona myndarlegur styrkur hefði mikla þýðingu fyrir sveitina bæði hvað varðar rekstraröryggi, því útgjöld geta verið óvænt ef útköll verða mjög stór, auk þess að geta mögulega lagt fyrir í endurnýjun búnaðar og viðhaldið þeim sem fyrir er. 

“ Við þökkum Loðnuvinnslunni kærlega fyrir okkur” sagði Gretar Helgi formaður.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna.

Eftir þessa rausnarlegu útdeilanir styrkja frá LVF og KFFB komu þessi fleygu orð upp í hugann og við hæfi að gera þau að lokaorðum.

-Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF, Elvar Óskarsson stjórnarformaður LVF, Birkir Snær Guðjónsson formaður Félags um Franska daga, Steinar Grétarsson starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla og Vilberg Marinó Jónsson formaður Leiknis.

Kaupfélagið styður og styrkir

Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem haldinn var í Wathnessjóhúsi  föstudaginn 12.maí 2023, voru afhentir styrkir til eflingar samfélagsins.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisin Skrúðs.  Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum.  Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir. 

Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.

Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar sem komin er nálægt sextugs aldri.

Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 1.8 milljón króna frá Kaupfélaginu og 1.8 milljón frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin er í lok júlí á Fáskrúðsfirði.

Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga og sagði hann það forréttindi að hafa svo dygga stuðningsaðila líkt og Kaupfélagið og Loðnuvinnsluna. “Þetta eru fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja heilmikið til samfélagsins og það er frábært” sagði Birkir.

Það kostar mikla peninga að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.

“Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkina sem við fáum frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni” sagði Birkir Snær að lokum.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna.  Af góðum hug koma góð verk.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson kaupfélagsstjóri, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Hollvinasamtaka Skrúðs, Birkir Snær Guðjónsson formaður Félags um Franska daga og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Rekstur Loðnuvinnslunnar gekk afar vel á síðasta ári, reyndar skilaði árið methagnaði og því óhætt að fullyrða að fyrirtækið sé stöndugt en síðasta ár var langbesta rekstrarár Loðnuvinnslunnar. 

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar hf var haldinn 12.maí 2023 og hér birtast helstu niðurstöðutölur.

Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2022 var 3.483 milljarðar króna á móti 1.247 milljörðum árið 2021.

Tekjur LVF voru 18.180 milljarðar sem er 45% aukning frá fyrra ári.

Tekjur að frádregnum eigin afla voru 14.039 milljarðar.

Veltufé frá rekstri var 4.502 milljarðar á móti 1.572 milljörðum árið 2021.

Eigið fé félagsins í árslok 2022 14.895 milljarðar sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Stærsti hluthafi LVF er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar var ákveðið að greiða 20% arð til hluthafa sem gera 140 milljónir.

Nánari tölur má finna í reikningum ársins 2022 sem auðvelt er að nálgast á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.

Í stjórn LVF eru:

Elvar Óskarsson stjórnarformaður

Steinn Jónasson

Högni Páll Harðarson

Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Elsa Sigrún Elísdóttir

Varamenn í stjórn:

Óskar Þór Guðmundsson

Jóna Björg Jónsdóttir

BÓA

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stendur traustum fótum.  Á aðlafundi KFFB, sem haldinn var 12.maí 2023 komu eftirfarandi tölur fram.

Hagnaður ársins 2022 var 2.920 milljónir.

Eigið fé félagsins var 13.536 milljónir þann 31. 12. 2022, sem er 99,8% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.

Í stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga eru:

Steinn Jónasson stjórnaformaður

Elvar Óskarsson

Högni Páll Harðarson

Elsa Sigrún Elísdóttir

Óskar Þór Guðmundsson.

Varamenn í stjórn eru: Jónína Guðrún Óskarsdóttir, Ólafur Níels Eiríksson og Jóna Björg Jónsdóttir.

BÓA

Línubátar í apríl.

Sandfell og Hafrafell með mestan afla í apríl. Sandfell með 291 tonn og Hafrafell með 245 tonn.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Mér má sjá lokalista nr. 4.

Sæti áðurNafnHeildarafliRóðrarMesti afliHöfn
11Sandfell SU 75291.12621.6Djúpivogur, Bakkafjörður, Þórshöfn, Stöðvarfjörður
22Hafrafell SU 65244.72416.0Hornafjörður, Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Djúpivogur
33Tryggvi Eðvarðs SH 2226.01225.2Ólafsvík, Sandgerði
44Kristján HF 100185.21324.2Grindavík, Sandgerði, Stöðvarfjörður, Vopnafjörður
55Háey I ÞH 295179.21422.2Húsavík, Raufarhöfn
66Indriði Kristins BA 751172.81324.1Grindavík, Sandgerði, Ólafsvík
714Vigur SF 80168.01521.3Hornafjörður, Djúpivogur
87Jónína Brynja ÍS 55167.01815.6Bolungarvík
99Kristinn HU 812162.9927.4Ólafsvík
108Einar Guðnason ÍS 303155.91523.5Flateyri, Suðureyri
1112Öðlingur SU 19131.81320.7Djúpivogur
1213Fríða Dagmar ÍS 103128.11414.3Bolungarvík
1310Særif SH 25115.8628.4Grindavík, Sandgerði
1416Óli á Stað GK 99104.31116.0Grindavík, Sandgerði
1511Stakkhamar SH 220102.21118.2Rif, Arnarstapi
1615Sævík GK 75774.0812.5Grindavík
1719Gullhólmi SH 20173.7716.9Rif
1817Gísli Súrsson GK 873.4718.4Grindavík
1922Bíldsey SH 6571.6524.0Rif
2018Auður Vésteins SU 8868.7716.2Grindavík
2120Vésteinn GK 8863.5421.0Grindavík
2221Dúddi Gísla GK 4825.1219.3Grindavík

Heimsókn góðra gesta

Í dag, fimmtudaginn 11.maí, fékk Loðnuvinnslan góða gesti.  Voru hér á ferð stjórnarliðar í  Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, hér eftir skammstafað SÚSS.

En SÚSS eru samtök sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu samtakanna er tilgangur þeirra:

  • að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu auðlinda í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu.
  • að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. við gerð laga og reglugerða sem varða sjávarútveg og sjókvíaeldi og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.
  • að taka þátt í mótun reglna um gjaldtöku vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og skiptingu á því gjaldi milli ríkis og sveitarfélaganna, ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.
  • Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.

Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar fór með gestina um fyrirtækið og sagði þeim frá starfssemi þess og uppbyggingu.

Íris Róbertsdóttir frá Vestmannaeyjum er stjórnarmaður í SÚSS og sagði hún heimsóknina hafa verið mjög áhugaverða og skemmtilega. “Þetta var frábær heimsók. Það er eitthvað fallegt á bak við hugsunina við eignarhaldið” sagði Íris og bætti því við að það væri ekki algengt að stöndugt sjávarútvegsfyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan væri í eigu samfélagsins og vísar þar til 83% eignarhluts Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar.

Tilgangur heimsóknarinnar er að heimsækja aðildarsveitafélög og kynnast þeim sjávarútvegfyrirtækjum sem eru starfrækt innan þeirra.  Sagði Íris að svona vinnuferðir væru afar gagnlegar því mikilvægt væri að stjórn SÚSS þekkti til þeirra fyrirtækja og hefði skilning á starfsemi þeirra.

Stjórn SÚSS hefur átt annríkt á Austurlandi þar sem þau hafa gert víðreisn og heimsótt sjávarútvegsfyrirtæki frá Djúpavogi til Neskaupstaðar.

BÓA

Frá vinstri: Þórdís Sif Sigurðardóttir Vesturbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir Dalvíkurbyggð, Björn Ingimarsson Múlaþingi, Íris Róbertsdóttir Vestmannaeyjum, Jón Björn Hákonarson Fjarðabyggð, Heimir Örn Árnason Akureyrarbæ, Friðrik Mar Guðmundsson Loðnuvinnslunni og Fannar Jónasson Grindavík.