Í dag, fimmtudaginn 11.maí, fékk Loðnuvinnslan góða gesti.  Voru hér á ferð stjórnarliðar í  Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, hér eftir skammstafað SÚSS.

En SÚSS eru samtök sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu samtakanna er tilgangur þeirra:

  • að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu auðlinda í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu.
  • að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. við gerð laga og reglugerða sem varða sjávarútveg og sjókvíaeldi og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.
  • að taka þátt í mótun reglna um gjaldtöku vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og skiptingu á því gjaldi milli ríkis og sveitarfélaganna, ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.
  • Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.

Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar fór með gestina um fyrirtækið og sagði þeim frá starfssemi þess og uppbyggingu.

Íris Róbertsdóttir frá Vestmannaeyjum er stjórnarmaður í SÚSS og sagði hún heimsóknina hafa verið mjög áhugaverða og skemmtilega. “Þetta var frábær heimsók. Það er eitthvað fallegt á bak við hugsunina við eignarhaldið” sagði Íris og bætti því við að það væri ekki algengt að stöndugt sjávarútvegsfyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan væri í eigu samfélagsins og vísar þar til 83% eignarhluts Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar.

Tilgangur heimsóknarinnar er að heimsækja aðildarsveitafélög og kynnast þeim sjávarútvegfyrirtækjum sem eru starfrækt innan þeirra.  Sagði Íris að svona vinnuferðir væru afar gagnlegar því mikilvægt væri að stjórn SÚSS þekkti til þeirra fyrirtækja og hefði skilning á starfsemi þeirra.

Stjórn SÚSS hefur átt annríkt á Austurlandi þar sem þau hafa gert víðreisn og heimsótt sjávarútvegsfyrirtæki frá Djúpavogi til Neskaupstaðar.

BÓA

Frá vinstri: Þórdís Sif Sigurðardóttir Vesturbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir Dalvíkurbyggð, Björn Ingimarsson Múlaþingi, Íris Róbertsdóttir Vestmannaeyjum, Jón Björn Hákonarson Fjarðabyggð, Heimir Örn Árnason Akureyrarbæ, Friðrik Mar Guðmundsson Loðnuvinnslunni og Fannar Jónasson Grindavík.