Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem haldinn var í Wathnessjóhúsi  föstudaginn 12.maí 2023, voru afhentir styrkir til eflingar samfélagsins.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisin Skrúðs.  Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum.  Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir. 

Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.

Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar sem komin er nálægt sextugs aldri.

Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 1.8 milljón króna frá Kaupfélaginu og 1.8 milljón frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin er í lok júlí á Fáskrúðsfirði.

Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga og sagði hann það forréttindi að hafa svo dygga stuðningsaðila líkt og Kaupfélagið og Loðnuvinnsluna. “Þetta eru fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja heilmikið til samfélagsins og það er frábært” sagði Birkir.

Það kostar mikla peninga að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.

“Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkina sem við fáum frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni” sagði Birkir Snær að lokum.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna.  Af góðum hug koma góð verk.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson kaupfélagsstjóri, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Hollvinasamtaka Skrúðs, Birkir Snær Guðjónsson formaður Félags um Franska daga og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins.