Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar hf, sem haldinn var í Wathnessjóhúsi þann 12.maí 2023 útdeildi fyrirrækið styrkjum til hinna ýmsu málefna.

Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 17 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfa.  Vilberg Marinó Jónsson er formaður Leiknis og sagði hann að þessi styrkur skipti sköpum fyrir félagið. “ Ekki aðeins leggur þessi upphæð þungt lóð á vogaskálarnar við rekstur félagsins, en innan þess eru margar deildir, heldur gefur okkur kost á því að stofna nýjar deildir innan félagsins” sagði Vilberg er hann var inntur eftir viðbrögðum við styrknum.  Hann sagði að það væri í vinnslu að stofna rafíþróttadeild innan Leiknis sem slæst þá í för með þeim deildum sem fyrir eru.  Vilberg sagði einnig að til greina kæmi að stofna einhvers konar styrktarsjóð sem iðkendur gætu sótt í til þess að komast á íþróttamót. Er hugsunin á bak við það að jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar því sannarlega eru aðstæður heimila misjafnar. “Þetta er mjög rausnarlegur styrkur og við erum afar þakklát Loðnuvinnslunni” sagði Vilberg Marinó.

Þá lætur LVF 10 milljónir króna af hendi rakna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til styrktar því góða starfi sem þar fer fram. Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er formaður starfsmannafélagsins og var að vonum afar ánægð með styrkinn og sagði: “Það er ómetanlegt að fyrirtækið styrki starfsmannafélagið svona rausnarlega því það er mjög mikilvægt að starfsfólk komi saman utan hefðbundins vinnutíma og geri sér glaðan dag því slíkt eflir liðsheildina og eykur starfsánægju”.

Starfsmannafélag LVF er ötult félag sem stendur fyrir margvíslegum ferðum og atburðum fyrir sitt fólk.  Arnfríður sagði að margt spennandi væri fram undan og mætt þar nefna sjómannadagsskemmtun þar sem boðið verður upp á veitingar og lifandi tónlist. “Og í október ætlum við að fara í tíu daga ferð til Sikileyjar þar sem allir geta heldur betur hlaðið batteríin í hlýjunni” sagði Arnfríður og heyra mátti eftirvæntingu í röddinni sem án efa er að finna hjá öðru starfsfólki líka.

Síðan verður fjölskyldu-jólastund á aðventunni. Að sögn Arnfríðar stóð starfsmannafélagið fyrir slíkri skemmtun á síðasta ári og heppnaðist hún býsna vel. “Það yljaði um hjartarætur að sjá breið bros á litlum andlitum innan um fjölskyldu og vini svo ekki sé nú minnst á jólasveinana” sagði Arnfríður  og bætti því við að stjórn starfsmannafélagsins væri afar þakklátt fyrir þennan rausnarlega styrk.

Félag um Franska daga fékk 1.8 milljónir í styrk til þess að halda bæjarhátíðna Franska daga. Nánar má lesa um þessa styrkveitingu í greininni um styrki Kaupfélagsins.

Björgunarsveitin Geisli hlaut 1 milljón króna til styrktar sinni starfssemi. Það er hverju samfélagi mikilvægt að hafa innan sinna raða félagsskap sem er tilbúin til þess að láta til sín taka þegar slys, hamfarir eða aðrir erfiðleikar berja að dyrum. Loðnuvinnslan hefur í gegn um tíðina verið dyggur og trúr stuðningsaðili Geisla og á því er engin breyting.

Gretar Helgi Geirsson er formaður björgunarsveitarinnar Geisla og sagði að svona myndarlegur styrkur hefði mikla þýðingu fyrir sveitina bæði hvað varðar rekstraröryggi, því útgjöld geta verið óvænt ef útköll verða mjög stór, auk þess að geta mögulega lagt fyrir í endurnýjun búnaðar og viðhaldið þeim sem fyrir er. 

“ Við þökkum Loðnuvinnslunni kærlega fyrir okkur” sagði Gretar Helgi formaður.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna.

Eftir þessa rausnarlegu útdeilanir styrkja frá LVF og KFFB komu þessi fleygu orð upp í hugann og við hæfi að gera þau að lokaorðum.

-Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF, Elvar Óskarsson stjórnarformaður LVF, Birkir Snær Guðjónsson formaður Félags um Franska daga, Steinar Grétarsson starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla og Vilberg Marinó Jónsson formaður Leiknis.