Sandfell

Sandfell er að landa á Fáskrúðsfirði í dag. Aflinn er um 5 tonn.

Ljósafell

Ljósafell er að landa fyrsta túr eftir verkfall. Aflinn er um 70 tonn og fer ýmist í vinnslu í Frystihúsi LVF og á Fiskmarkað. Næsta verkefni áhafnar og skips er að fara í árlegt Togararall Hafrannsóknarstofnunar sem hefst á laugardag.

Flotinn af stað

Flotinn er nú kominn af stað eftir verkfallið. Hoffell er að landa um 750 tonnum af loðnu til heilfrystingar, Sandfell er að landa á Stöðvarfirði um 4,5 tonnum og Ljósafellið er að veiðum.

Silver Bergen

Flutningaskipið Silver Bergen var að lesta um 700 tonn af frosnum afurðum hjá Loðnuvinnslunni hf í dag.

Hafrafell SU 85

Hafrafell er nú að landa á Stöðvarfirði. Aflinn er um 11 tonn í dag en var 10 tonn í gær. Guðni og félagar reru einnig á föstudag og laugardag sl og lönduðu um 8 tonnum í hvort skipti.

Norskir loðnubátar

Að undanförnu hafa nokkrir Norksir loðnubátar landað hjá Loðnuvinnslunni hf. Þetta eru Gerda Maria, Österbris, Roaldsen, Rödholmen og Havglans. Samtals voru þessir bátar með um 2000 tonn. Auk þess er Gerda Maria sem sést á meðfylgjandi mynd komin aftur og bíður löndunar með um 320 tonn.

Gerda Marie

Eitt af norsku fjölveiðiskipunum sem kemur reglulega til Fáskrúðsfjarðar er Gerda Marie AS-32 –Av.  Skipstjóri á Gerdu Marie er Sten Magne Melingen.  Er útgerðin í eigu fjölskyldu Sten Magne og eru faðir hans, Lars Johan Melingen og föðurbróðir, Karsten Melingen,  ásamt fleiri fændum  áhafnameðlimir um borð.  Nafn skipsins Gerda Marie er dregið af formæðrum þeirra bræðra Lars Johans og Karstens, og hefur nafnið farið vel á þessu happafleyi.  Heimahöfn þess er í Torangsvåg.

Áhöfnin telur 10 manns og hefur bróðurparturinn verið um borð síðan skipið kom í eigu útgerðarinnar árið 1989. „Ég er nýji maðurinn um borð“, sagði einn brosmildur maður í matsalnum, „ég er bara búinn að vera hér í fimmtán ár“.

Gerda Marie hefur komið til hafnar á Fáskrúðsfirði einum fimmtán sinnum og í þetta sinn með u.þ.b. 320 tonn af loðnu.  Aðspurður svaraði skipstjórinn því til að ástæða þess að þeir kæmu til hafnar hér og lönduðu sínum afla hjá Loðnuvinnslunni væri þríþætt, hingað væri stutt sigling frá miðunum, þeir fengju gott verð fyrir aflann og síðast en ekki síst sú staðreynd að  hér væri afbragðsgóð þjónusta.  Og því til staðfestingar taldi hann upp nokkra hluti sem þeim þætti mikið til koma. „Loðnuvinnslan lánar okkur bíl svo við getum keyrt um og skoðað á meðan við bíðum löndunar eða bíðum af okkur brælu, og þá er okkur ógleymanleg ferðin sem Lvf bauð okkur í á Mývatn í fyrra, hún var alveg frábær“.  Í sama streng tóku aðrir áhafnameðlimir og sögðu frá því í gamni að einn þeirra væri duglegur að styrkja íslenskan ríkissjóð með því að borga hraðasektir. „ Hann gleymir sér í göngunum“ sögðu noðmennirnir með bros á vör.

Þá gefur það óneitnalega lífinu lit í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð að fá hingað báta og skip frá frændum okkar í Noregi og Færeyjum.  Þeir ganga hér um götur og heilsa heimamönnum, þeir versla við þá er selja vörur og þjónustu og vinabönd myndast.  Það var í það minnsta notaleg stemning að sitja í borðsalnum á Gerdu Marie með Sten Magne, föður hans, frændum og öðrum áhafnarmeðlimum, sötra kaffisopa og spjalla við þessa góðu vini Loðnuvinnslunnar og  Fáskrúðsfjarðar.

BÓA

Myndin er af Karsten Melingen og Lars Johan Melingen

Næturvaktin

Þegar flestir bæjarbúar fara að ganga til náða er ákveðin hópur fólks ennþá í vinnunni. Það er fólk sem vinnur næturvaktir. Í Bræðslunni var hópur fólks við vinnu aðfaranótt mánudagsins 13.febrúar. Tunglið speglaði ásjónu sína í sjónum, veðrið var milt og fjörðurinn var stilltur. En í Bræðslunni var unnið að miklu kappi. Verið var að landa uppúr norska fjölveiðiskipinu Roaldsen, 400 tonnum af loðnu til flokkunar.  Þorgeir Einar Sigurðsson er annar tveggja vaktformanna og var hann við vinnu umrædda nótt. Aðspurður að því hvort að það væri öðruvísi að vinna á nóttunni eða daginn svaraði hann því til að það væri svo, hann sagði allt utanaðkomandi áreiti væri umtalsvert minna og að sama skapi væri erfiðara með alla aðstoð ef hennar þyrfti með. „Ef eitthvað bilar sem við getum ekki lagað sjálfir, þurfum við að kalla út mannskap eða bíða til morguns, en öll aðstoð frá Rafmagnsverkstæðinu eða Vélsmiðjunni er auðfengin og við truflum ekki þeirra nætursvefn nema í neyð“ sagði vaktformaðurinn.   Hann sagði að sami kjarni starfsmanna hefði unnið í Bræðslunni um langt skeið og samanlögð reynsla þeirra og kunnátta væri allmikil og þau  reyndu að vera sjálfbær um flesta hluti.

Auka mannskapur kemur til stafa þegar verið er að flokka en annars eru það u.þ.b 14 starfsmenn sem sinna sínum störfum í Bræðslunni á ársgrundvelli. Þeirra starf felst í því að framleiða mjöl og lýsi og þar sem vinnustaðurinn er tæknilegur og allar upplýsingar um framleiðsluna birtast á tölvuskjám er eftirlit með þeim stór hluti starfsins auk almenns viðhalds og umsjónar með tækjum, búnaði og húsnæði.

Þegar undirrituð lagði höfuðið á koddann var unnið af kappi við verðmætasköpun á þessum vinnustað Loðnuvinnslunnar sem lætur sér í léttu rúmi liggja hvort það er nótt eða dagur. „Við vinnum þegar það er vinna“ sagði vaktformaðurinn um leið og hann bauð góða nótt.

BÓA

Akeroy

Norska skipið Akeroy landaði 1.370 tonnum af kolmunna hjá Loðnuvinnslunni í gær. Skipið fer síðan á loðnuveiðar úr Íslenska loðnustofninum.

Norskir loðnubátar

Nokkur Norsk loðnuskip hafa landað hjá Loðnuvinnslunni að undanförnu. Þetta eru Kings Bay, Fiskebas, M Ytterstad, Eros og Liafjord. Samtals voru þessir farmar um 1.600 tonn og fór aflinn til frystingar og bræðslu. Von er á fleiri Norskum skipum á næstunni.

Norðingur

Færeyska uppsjávarskipið Norðingur KG 21, landaði um 1.900 tonnum af kolmunna hjá Loðnuvinnslunni hf um helgina. Á myndinni má sjá skipið renna framhjá Hoffellinu þegar það kemur að löndunarbryggjunni.

Fiskebas

Norska uppsjávarskipið Fiskebas landaði loðnu á föstudaginn og aftur í gær samtals 350 tonnum.