Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar við undirritun samkomlagsins

Á dögunum rituðu Landsvirkjun og FÍF ( Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) undir viljayfirlýsingu þess efnis að ýta undir notkun á endurnýjanlegri orku.

Fram til þessa hafa fiskmjölsframleiðendur notast bæði við olíu og rafmagn við sína framleiðslu en það rafmagn sem keypt hefur verið er svokallað skerðanlegt rafmagn sem Landsvirkjun selur á heildsöluverði.  Á því hefur verið takmarkað framboð sem ræðst að mestu af því hvernig vatnsbúskapur Landsvikjunnar stendur.  Markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að Landsvirkjun ætli að stuðla að því eins og hægt er að auka framboð á skerðanlegu rafmagni og FÍF ætlar að hvetja sína félagsmenn til þess að gera mjölframleiðslu enn umhverfisvænni með því að nota endurnýtanlega orkugjafa í stað þeirra sem menga meira.

Hjá Loðnuvinnslunni hefur verið notast bæði við rafmagn og olíu.  Hefur notkunin ráðist annars vegar af framboði á skerðanlega rafmagninu og hins vegar af  verði milli orkugjafanna.  Árið 2015 var rafmagnsnotkunin töluverð, framleidd voru 83 þúsund tonn og notast við  aðeins 472 tonn af olíu. Á síðasta ári var hins vegar notast við meiri olíu. Framleidd voru 64 þúsund tonn og notað við það 1777 tonn af olíu. Skýringin á mismuninum felst í því  hve óhagstætt verðið var og trega var á flutningsgetu.

Með viljayfirlýsingunni binda menn vonir um að hægt verði að notast við rafmagn við mjölframleiðsluna í miklu ríkara mæli og framleiðslan verði þá  að sama skapi grænni  og vænni.

BÓA