Magnús Þorvaldsson

Magnús Þorvaldsson er fæddur í janúar 1942 og er því 75 ára gamall. Hann er fæddur og uppalinn hér í Búðaþorpi, yngstur fimm systkina. Faðir hans byggði hús hér í bæ sem kallast Álfhóll og stendur enn. Lítið steinsteypt hús sem stendur við Skólaveg 70. Í þá daga var meira um vert að eiga sér þak og heimili heldur en fjöldan allan af fermetrum og á æskuheimili Magnúsar var mannmargt , foreldrarnir með börnin sín fimm, amma og föðurbróðir. Og allir undu vel við sitt. Seinna byggði Þorvaldur faðir Magnúsar húsið Bæ sem stendur við Búðaveg 52 og bjó fjölskyldan þar um tíð þar til þau tóku sig upp og fluttu til Reykjavíkur 1954.

Magnús átti ættingja á Stöðvarfirði og fór gjarnan þangað á sumrin til að vinna.  Átján ára gamall fór hann í Sjómannaskólann og eftir útskrift þaðan flutti hann til Stöðvarfjarðar og bjó þar og starfaði í tuttugu ár.

Starfsævinni hefur Magnús eytt á sjó, verið skipstjóri og sótt gull í greipar Ægis og var síðasta fastaplássið  hjá Granda en þar lét Magnús af störfum 70 ára gamall. Hann lítur sáttur til baka og segist vera ríkur maður, hann eigi einn stjúpson, tvö afabörn og eitt langafabarn.

En þó að fastráðingar verði ef til vill ekki fleiri hjá þessum lífsglaða manni hefur hann nú ekki alveg lagt sjóvettlingana á hilluna. Fyrir skemmstu fór Magnús með „gamla Hoffellið“ , þ.e Hoffell  II Su 802, á sjó. Skipið var mannað, kapteinn settur í brúnna og af stað fór það, án veiðafæra að vísu því að tilgangur fararinnar var að taka afla af Hoffelli Su 80.  Tvo slíka túra fór Magnús með Hoffell II og aðspurður að því hvernig honum fyndist að setjast í skiptjórastólinn 75 ára gamall og fara til sjós svaraði hann: „ það er mjög gaman, maður yngist bara. Það er svo gaman að vera innan um mennina um borð bæði þá eldri og reyndari og ekki er síðra að fá að fylgjast með ungu mönnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref í sjómennskunni“.

En hvernig er að fara til sjós án veiðafæra?  „Það er svolítið örðuvísi“ svaraði Magnús, „en ég hef gert þetta áður á Víkingi frá Akranesi og þá vorum við að sækja Makríl“. „En getur það orðið varasamt að leggjast þétt að öðrum stórum skipum en þá skiptir höfuðmáli að hjálpast að og það gekk snuðrulaust fyrir sig, áhafnirnar á báðum Hoffellum löggðu sig fram um að gera þetta vel og verkið var unnið af mikilli fagmennsku og öryggi“.

Aðspurður að því hvernig Hoffell II reyndist á sjónum svaraði Magnús því til að hann væri mjúkur og góður og að það heyrðist varla í vélunum. „Ég hef aldei áður verið á bát þar sem vélarnar standa á gúmmípúðum eins og í fínum skemmtiferðaskipum, ég hrökk upp um miðja nótt og hélt að það væri dautt á“ sagði Magnús og hló við.

Og aftur ætlar Magnús að stýra Hoffelli II, það er leið til Akureyrar í botnhreinsun og snyrtingu ýmiskonar eins og gömul og góð skip eiga skilið eftir vinnutörn og mun Magnús Þorvaldsson stýra því heilu í höfn.

BÓA