Loðnuvinnslan styrkir

Sagt er að besta gjöfin sé sú sem heldur áfram að gefa.  Þannig er því varið með þá styrki sem Loðnuvinnslan veitti á aðalfundi sínum föstudaginn 2.júlí 2021.  Á fundinum voru afhentir styrkir fyrir samtals 24.5 milljónir króna. 

Knattspyrnudeild Leiknis fékk 11 milljónir í styrk.  Er þeim peningum varið til að efla og styrkja knattspyrnuiðkun karla, kvenna og kátra krakka. Magnús Ásgrímsson er formaður knattspyrnudeildar og sagði hann styrkinn vera ómetanlegan í rekstri deildarinnar og sagði LVF vera sterkan og traustan bakhjarl.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 7 milljón króna styrkt til sinnar starfsemi. Alberta Eide Guðjónsdóttir er formaður starfsmannafélagsins og var hún afar þakklát fyrir framlagið fyrir hönd félagsmanna sinna. Hún sagði að peningunum yrði varið í að efla félagslífið með einhverjum hætti.  Þá sagði Alberta að í umræðunni væri að fara í utanlandsferð á vori komandi, en slíkar ferðir hafa verið nokkuð reglulegar á vegum starfsmannafélagsins og ávalt verið hin besta skemmtun.

Þá fékk Björgunarsveitin Geisli 5 milljón króna styrk sem varið verður til kaupa á nýjum björgunarbát.  Grétar Helgi Geirsson er formaður Geisla og sagði hann styrkinn gríðarlega góðan.  “Endurnýjun á björgunarbátnum Hafdísi var á 15 ára plani, en aðstæður og samstarf við Rafnar, fyrirtækið sem hannar og smíðar björgunarbáta eins og Hafdísi, gerði það að verkum að tækifæri til að fá nýjan, stærri og betri bát bauðst á þessum tímapunkti” sagði Grétar. Hann bætti því líka við það hefði ekki verið möguleiki fyrir Geisla að fara út í þessi bátaskipti án þessa góða stuðnings sem björgunarsveitin fær frá LVF .  “Það er ómetanlegt hvernig Loðnuvinnslan hefur alltaf hlaupið undir bagga í okkar starfsemi” sagði Grétar.

Bæjarhátíðin Franskir dagar fengu 1,5 milljónir króna. Síðustu helgina í júlí verða Franskir dagar haldnir hátíðlegir á Fáskrúðsfirði í 25 skiptið. Að halda veglega bæjarhátíð með metnaðarfullri dagskrá kostar peninga og þá skiptir máli að eiga góða að. María Ósk Óskarsdóttir Snædal er gjaldkeri félagsins um Franska daga.  Sagði María að styrkirnir sem berast annars vegar frá Loðnuvinnslunni og hins vegar frá Kaupfélaginu væru mjög mikilvægir. “Að fá þessa styrki munar öllu fyrir okkur” sagði María og bætti því við að þetta væru lang rausnarlegustu styrkirnir sem bæjarhátíðin fengi og sagði svo “þetta væri bara ekki hægt án þessara styrkja”.  Áhersla verður lögð á vandaða dagskrá fyrir börn að þessu sinni og reynt eftir fremsta megni að gera það með þeim hætti að það verði ókeypis fyrir börnin að taka þátt. 

Sjá má á þessum styrkveitingum að margir njóta góðs af og gjafirnar halda áfram að gefa.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson, Magnús Ásgrímsson, Alberta Eide Guðjónsdóttir, Grétar Helgi Geirsson, María Ósk Óskarsdóttir Snædal og Elvar Óskarsson

Kaupfélagið styrkir

Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga föstudaginn 2.júlí 2021 veitti félagið styrki að upphæð 4,65 milljónir króna.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón króna. Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtakanna og sagði að styrkurinn væri afar vel þeginn.  “Hollvinasamtökin hafa verið svo lánsöm að fá styrki frá Kaupfélaginu, á síðast liðnum árum, til endurbóta á félagsheimilinu Skrúði” sagði Smári.  Félagsheimilið hefur verið málað, snyrt og endurbætt á margan máta fyrir styrkféð og þar sem Hollvinasamtökin hafa litla sem enga möguleika á að afla fjár í því magni sem þarf til að endurbæta og viðhalda húsi af  þeirri stærðargráðu sem Skrúður er,  er styrkurinn algerlega ómetanlegur. Við kunnum Kaupfélaginu bestu þakkir fyrir sagði Smári.

Blakdeild Leiknis fékk 1,5 milljónir króna.  Elsa Sigrún Elísdóttir er formaður blakdeildarinnar og aðspurð sagði hún peningana munu fara að miklu leiti í krakkablakið. Börn borga engin æfingagjöld hjá blakdeildinni en þjálfari þarf að fá umbun fyrir sitt starf líkt og aðrir þannig að hluti af fénu fer í það.  “Svo fer drjúgur hluti í að endurnýja búnað” sagði Elsa Sigrún, “það þarf nýja bolta annað dót sem við þurfum til æfinga” bætti hún við.  Elsa sagði  stjórnendur blakdeildarinnar afar þakklát fyrir stuðninginn og með honum kæmist blakdeildin hjá klandri, eins og formaðurinn orðaði svo skemmtilega.

Félag um Franska daga fékk 1,5 milljónir króna frá Kaupfélaginu.  Bæjarhátíðin Franskir dagar heldur upp á 25 ára afmæli síðustu helgina í júlí. Á dagskránni verður eitthvað fyrir alla en aðal áhersla verður lögð á skemmtilegheit fyrir börnin.  María Ósk Óskarsdóttir Snædal er gjaldkeri  félags um Franska daga og þakkar rausnarlegan stuðning Kaupfélagsins í gegn um árin.

Þá fengu blak- og knattspyrnudeild Leiknis búnað, að verðmæti 650 þúsund króna, til þess að streyma leikjum. Um er að ræða mynadvél og hljóðnema sem nota skal til þess að sýna, og lýsa með orðum, leikjum deildanna í beinu streymi. Þannig geta fjarstaddir horft á Leiknisliðin etja kappi við andstæðinga hvar svo sem menn eru niður komnir.   Eru stjórnendur blak- og knattspyrnudeildar sannfærð um að þetta muni gleðja marga og gefa þeim sem ekki eiga heimangengt tækifæri til að fylgjast með. Kunna þau Kaupfélaginu allra bestu þakkir fyrir góða gjöf.

Björgunarbátasjóður Austurlands fékk 500 þúsund krónur til kaupa á björgunarbátnum Hafbjörgu.  Björgunarbátasjóður Austurlands er félag sem heldur utan um rekstur björgunarbáts sem er að hluta til í eigu sjóðsins og að hluta í eigu Landsbjargar. Hafbjörg á heimahöfn í Neskaupstað.  

Einar Hálfdánarson sagði styrk sem þennan hafa mikla þýðingu fyrir verkefnið. “Við sinnum hafsvæðinu frá Papey að Héraðflóa og erum gjarnan á sjó við erfiðar aðstæður og því skiptir máli að hafa góðan bát” sagði Einar og þakkar fyrir hönd Björgunarbátasjóðsins.

Skrifað stendur “sælla er að gefa en að þiggja” en á þessu bjarta sumarkvöldi er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga deildi út styrkjum var ekki síður sælt að þiggja þvi að allur fer peningurinn í starf í þágu samfélagsins með einum eða öðrum hætti.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson, Einar Hálfdánarson, Elsa Sigrún Elísdóttir, María Ósk Óskarsdóttir Snædal, Birkir Snær Guðjónsson, Jóna Björg Jónsdóttir og Steinn Jónasson.

Afkoma Loðnuvinnslunnar 2020

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 2. júlí.  Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2020 var 663 millj á móti  2.067 millj árið 2019.  Tekjur LVF voru 11.905 millj sem er 7% samdráttur frá fyrra ári. Tekjur að frádregnum eigin afla voru 9.142 millj. Veltufé frá rekstri var 2.025 millj á móti 2.678 millj. 2019.  Eigið fé félagsins í árslok 2019 var 10.446 millj. sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut.  Afkoma félagsins var ágæt árið 2020  þrátt fyrir loðnubrest og vandamál á makraði í kringum covid.   Allar deildir félagsins gengu vel.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 millj.

Stjórn LVF er þannig skipuð: Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Steinn Jónasson, Högni Páll Harðarsson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Elsa Sigrún Elísdóttir.
Varamenn: Jónína Guðrún Óskarsdóttir og Jóna Björg Jónsdóttir.

Afkoma Kaupfélagsins 2020

Aðalfundur KFFB var haldinn 2. júlí.  Hagnaður árið 2020   559 millj.  Eigið fé KFFB var 9.565 millj. sem er 99.8% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.
Í stjórn KFFB eru: Steinn Jónasson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Högni Páll Harðarson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Óskar Guðmundsson. 
Varamenn :Ólafur Níels Eiríksson, Jónína Óskarsdóttir og Jóna Björg Jónsdóttir.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í morgun með 70 tonn af blönduðum afla.  Aflnn var 20 tonnn Karfi, 20 tonn Ufsi, 20 tonn ýsa og samtals 7 tonn af Ýsu og öðrum afla.

Hoffell á landleið með makríl

Hoffell er á landleið með fyrsta makríl farm ársins. Þykir tíðindum sæta að fyrstu makrílveiðar ársins séu einni viku fyrr heldur en á síðasta ári, þegar komið var fram í júlí við sömu tímamót.

Hoffell er líka fyrst íslenskra skipa til þess að fara í Smuguna í ár en áhöfnin hóf svo veiðarnar austur við norsku lögsöguna um 400 mílum frá austurlandi sem er býsna langt að heiman. Til að setja það í samhengi fyrir  okkur landkrabbana þá samsvarar það um 740 kílómetrum.  Skipið var aðeins fjóra daga á miðunum og er með 740 tonn af makríl í lestum sínum. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að fiskurinn væri fallegur og að allt hefði gengið vel.  Veðrið hefði verið ágætt þótt að þeir hefðu orðið varir við kaldaskít einn daginn.  En á heimleiðinni núna síðdegis þann 29.júní, sagði skipstjórinn að þeir væru í blíðu og smá þoku. “Við verðum heima um miðnætti” bætti hann við.

Aflanum verður landað í heimahöfn á Fáskrúðsfirði og fer hann allur til manneldis.  Þegar löndun er lokið verður haldið aftur til hafs og þegar Sigurður var spurður að því hvort að hann ætti von á að þeir færu aftur svona langt eftir makrílnum svaraði hann sposkur:” Það kemur bara í ljós, fiskurinn er með sporð og syndir út um allt”. Hoffell fer aftur til makrílveiða þar sem fiskinn verður að finna.

BÓA

Hoffell með 750 tonn

Hoffell er á landleið með samtals 750 tonn af stórum Makríl eða um 450 gr. Búast má því að það verði landað seint í kvöld eða um miðnætti. Veiðin var í síldarsmugunni og gaman að segja frá því að á síðasta ári var fyrsta löndunin hjá Hofelli 8. júlí svo núna er skipið að landa góðri viku fyrr.

Ljósafell SU

Ljósafell landaði samtals 110 tonnun um miðnætti . Aflinn er 50 tonn af Ufsa, 45 tonn af Þorski og 5 tonn af Ýsu og öðrum afla.

Ljósafell fer aftur út á morgun kl. 10.

Ljósafell með samtals 110 tonn

Um hádegið í dag kom Ljósafell inn með samtals 110 tonn. 55 tonn af Karfa, 7 tonn af Ýsu og 5 tonn af Þorski og öðrum afla.

Ljósafell fer aftur út kl. 10 annað kvöld.

Ljósafell

Í dag kl 13 kom Ljósafell með samtals 110 tonn af blönduðum afla. 55 tonn af Ufsa, 13 tonn af Þorski og 13 tonn af Ýsu og öðrum afla.

Ljósafell fer aftur út kl. 22 annað kvöld.

Góður gangur hjá Hoffelli

“Margur er knár þó hann sé smár” segir máltækið og lýsir einhverjum sem dugur er í og gerir mikið þrátt fyrir smæð. Hoffell SU er eitt af minnstu uppsjávarveiðiskipum íslenska flotans en engu að síður aflahæsta  kolmunna skipið á þessari vertíð og í öðru sæti af heildarafla eins og staðan er þegar þetta er ritað.  Það er góður árangur og góð ástæða til þess að slá á þráðinn til Sigurðar Bjarnasonar skipstjóra og heyra í honum hljóðið. Hann var að vonum ánægður með niðurstöðuna og sagði að uppskeran væri líkt og sáð var til. “Við sækjum stíft og það hefur gengið vel” sagði Siggi skipstjóri. 

Hoffell er núna að leita að makríl og sagði Siggi að þeir hefðu ekki fundi neinn enn, “hann er bara ekki kominn” sagði hann hæglátlega eins og hans er siður. Hann kvað lífið um borð ganga sinn vanagang og að áhöfnin á Hoffelli væri klár í makrílveiðar um leið og tækifæri gæfist.

BÓA

Ljósmynd Óðinn Magnason

Hoffell aflahæst í kolmunna.

Samkvæmt vef aflafrétta þá er Hoffell SU, sem er eitt minnsta uppsjávarskipið, aflahæðst í Kolmunna. Voru með 3163 tonn í tveim róðum og er því komið í annað sæti og kominn með yfir 20 þúsund tonn.