Sagt er að besta gjöfin sé sú sem heldur áfram að gefa.  Þannig er því varið með þá styrki sem Loðnuvinnslan veitti á aðalfundi sínum föstudaginn 2.júlí 2021.  Á fundinum voru afhentir styrkir fyrir samtals 24.5 milljónir króna. 

Knattspyrnudeild Leiknis fékk 11 milljónir í styrk.  Er þeim peningum varið til að efla og styrkja knattspyrnuiðkun karla, kvenna og kátra krakka. Magnús Ásgrímsson er formaður knattspyrnudeildar og sagði hann styrkinn vera ómetanlegan í rekstri deildarinnar og sagði LVF vera sterkan og traustan bakhjarl.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 7 milljón króna styrkt til sinnar starfsemi. Alberta Eide Guðjónsdóttir er formaður starfsmannafélagsins og var hún afar þakklát fyrir framlagið fyrir hönd félagsmanna sinna. Hún sagði að peningunum yrði varið í að efla félagslífið með einhverjum hætti.  Þá sagði Alberta að í umræðunni væri að fara í utanlandsferð á vori komandi, en slíkar ferðir hafa verið nokkuð reglulegar á vegum starfsmannafélagsins og ávalt verið hin besta skemmtun.

Þá fékk Björgunarsveitin Geisli 5 milljón króna styrk sem varið verður til kaupa á nýjum björgunarbát.  Grétar Helgi Geirsson er formaður Geisla og sagði hann styrkinn gríðarlega góðan.  “Endurnýjun á björgunarbátnum Hafdísi var á 15 ára plani, en aðstæður og samstarf við Rafnar, fyrirtækið sem hannar og smíðar björgunarbáta eins og Hafdísi, gerði það að verkum að tækifæri til að fá nýjan, stærri og betri bát bauðst á þessum tímapunkti” sagði Grétar. Hann bætti því líka við það hefði ekki verið möguleiki fyrir Geisla að fara út í þessi bátaskipti án þessa góða stuðnings sem björgunarsveitin fær frá LVF .  “Það er ómetanlegt hvernig Loðnuvinnslan hefur alltaf hlaupið undir bagga í okkar starfsemi” sagði Grétar.

Bæjarhátíðin Franskir dagar fengu 1,5 milljónir króna. Síðustu helgina í júlí verða Franskir dagar haldnir hátíðlegir á Fáskrúðsfirði í 25 skiptið. Að halda veglega bæjarhátíð með metnaðarfullri dagskrá kostar peninga og þá skiptir máli að eiga góða að. María Ósk Óskarsdóttir Snædal er gjaldkeri félagsins um Franska daga.  Sagði María að styrkirnir sem berast annars vegar frá Loðnuvinnslunni og hins vegar frá Kaupfélaginu væru mjög mikilvægir. “Að fá þessa styrki munar öllu fyrir okkur” sagði María og bætti því við að þetta væru lang rausnarlegustu styrkirnir sem bæjarhátíðin fengi og sagði svo “þetta væri bara ekki hægt án þessara styrkja”.  Áhersla verður lögð á vandaða dagskrá fyrir börn að þessu sinni og reynt eftir fremsta megni að gera það með þeim hætti að það verði ókeypis fyrir börnin að taka þátt. 

Sjá má á þessum styrkveitingum að margir njóta góðs af og gjafirnar halda áfram að gefa.

BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson, Magnús Ásgrímsson, Alberta Eide Guðjónsdóttir, Grétar Helgi Geirsson, María Ósk Óskarsdóttir Snædal og Elvar Óskarsson