Fyrsta loðnan
Hoffell kom í morgun með fullfermi af loðnu sem er fyrsti farmurinn á þessari vertíð sem berst til Fáskrúðsfjarðar. Af því tilefni færði Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri áhöfninni á Hoffelli rjómatertu. Á myndinni sést Magnús afhenda Bergi Einarssyni skipstjóra tertuna
Gleðilegt nýtt ár 2005
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan h/f óska Austfirðingum, svo og landsmönnum öllum, farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir samskiptin á liðnum árum.
Firmakeppni í knattspyrnu
Firmakeppni Hótels Bjargs og Leiknis í innanhússknattspyrnu var haldin í 8. sinn 30. desember s.l. og fór lið salthúss og frystihúss LVF með sigur að hólmi. Sigurvegararnir fengu að launum pítsaveislu á Hótel Bjargi og farandgrip mikinn til varðveislu, sem LVF gaf á sínum tíma. Á síðastliðnu ári hafði þessi gripur verið í höndum fiskimjölsverksmiðju LVF. Að þessu sinni voru leikmenn sigurliðsins allir af erlendu bergi brotnir eða þeir Ifet, Samir, Kenan og Adnan frá Bosníu, Rimantas frá Litháen og Andrzej frá Póllandi.
Jólakveðja
Óskum starfsmönnum okkar og viðskiptavinum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan h/f
Glettingur
Glettingur, tímarit um austfirsk málefni, 14. árg. 3. tbl. 2004 er kominn út. Ritstjóri Glettings að þessu sinni er Magnús Stefánsson frá Berunesi.
Meðal efnis í blaðinu er viðtal sem Magnús átti við Gísla Jónatansson um 70 ára starfsemi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Viðtalinu fylgja myndir frá ýmsum tímum í sögu félagsins.
Þá er m.a. athyglisverð grein í blaðinu er nefnist „Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði 100 ára“, sem Albert Eiríksson skrifar.
Glettingur er til sölu í Sparkaupum, Fáskrúðsfirði.
Kolmunni
Bergur VE 44 landaði í nótt um 500 tonnum af kolmunna hjá LVF.
Kolmunni
Bergur VE 44 er að landa um 300 tonnum af kolmunna hjá LVF, en skipið kom inn til Fáskrúðsfjarðar vegna brælu.
Fulltrúafundur KFFB
Fulltrúafundur KFFB verður haldinn á Hótel Bjargi fimmtudaginn 9. desember 2004 kl. 18.00.
Fundarefni: Fækkun félagsdeilda, endurmat stofnsjóðs félagsmanna og önnur mál.
Kvöldverður á hótelinu að loknum fundi.
Kolmunnalöndun
Bergur VE 44 landaði í gær hjá LVF 865 tonnum af kolmunna. Aflinn fékkst í færeysku lögsögunni.
Bergur landar
Bergur VE 44 landaði um 260 tonnum af kolmunna hjá LVF í gær, en skipið kom inn vegna smávægilegrar bilunar. Treg kolmunnaveiði hefur verið að undanförnu bæði í íslensku og færeysku lögsögunni.
Uppgjör LVF 1/1-30/9 2004
Tap varð af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 9 mánuði ársins 2004 að fjárhæð kr. 52 millj. eftir skatta samanborið við kr. 74 millj. hagnað á sama tímabili 2003.
Rekstrartekjur félagsins voru kr. 1.702 millj. og drógust saman um kr. 324 millj. eða um 16% miðað við árið á undan, en rekstrargjöld lækkuðu um 7%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 127 millj. samanborið við kr. 331 millj. árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 83 millj. en var kr. 277 millj. á 9 mánuðunum 2003. Afskriftir voru kr. 164 millj. og höfðu lækkað um kr. 44 millj. Fjármagnsliðir voru nú neikvæðir um kr. 25 millj. samanborið kr. 36 millj. árið 2003.
Félagið fjárfesti fyrir kr. 305 millj. fyrstu 9 mánuðina og er þar m.a. um að ræða loðnukvóta, fiskvinnslubúnað og ný tæki í fiskimjölsverksmiðju og flokkunarstöð fyrir uppsjávarfisk.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.384 millj., sem er 47% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir voru kr. 1.184 millj. og hækkuðu um kr. 141 millj. á tímabilinu.
Þriðji ársfjórðungur varð félaginu mjög óhagstæður m.a. annars vegna þess að lítið veiddist af kolmunna í ágúst og september, verð á fiskimjöli fór lækkandi vegna mikils framboðs á sama tíma og olíuverð hækkaði stöðugt á heimsmarkaði. Þá hefur afkoma í freðfiskframleiðslu verið slök á árinu og gengisþróun óhagstæð.
Afkoma félagsins á síðasta ársfjórðungi ræðst einkum af veiðum og vinnslu á síld.
Sjá milliuppgjör undir ársskýrslur.
Víkingur landar hjá LVF
Víkingur AK 100 er að landa um 100 tonnum af síld hjá LVF sem skipið fékk í Berufjarðarál. Nú er bræla á síldarmiðunum.