Mikil kolmunnaveiði suður af Færeyjum.

Jupiter FD 42 frá Götu er að landa 2000 tonnum af kolmunna, þá eru væntanlegir á morgun til Fáskrúðsfjarðar bæði Hoffell og skoski báturinn Conquest með fullfermi, samtals 2500 tonn.

Fyrst kvenna

Það bar til tíðinda í morgun hjá LVF að kona mætti á vakt í fiskimjölsverksmiðjunni. Hún heitir Alberta Guðjónsdóttir og mun vera fyrst kvenna á Fáskrúðsfirði til að hefja störf við sjálfa framleiðsluna. Konur hafa hins vegar starfað um árabil á rannsóknarstofunni og við ræstingar hjá verksmiðjunni. Mikil gleði ríkti í morgun á meðal starfsmannanna yfir því að fá kattþrifna konu í hópinn. Velkomin Alberta.

Kolmunni úr lögsögu Færeyja.

Finnur Fríði landaði 2408 tonnum af kolmunna í gær og nótt. Hoffell er væntanlegt í fyrramálið með 1200 tonn af kolmunna. Kolmunninn veiðist nú syðst í lögsögu Færeyja við miðlínu Skotlands og Færeyja.

Hans Óli ráðinn til LVF

Hans Óli Rafnsson hefur verið ráðinn til LVF og mun m.a. hafa umsjón með tölvuvinnslu og launaútreikningum hjá félaginu. Hann tekur við starfinu af Kjartani Reynissyni, sem gegnt hefur því í 24 ár.

Hans Óli er fæddur á Fáskrúðsfirði 31. júlí 1966 og ólst þar upp. Hann lauk prófi í rafeindavirkjun árið 1993. Hann starfaði hjá Skiparadio 1993-1996 og síðar hjá Eltak. Hann hefur að undanförnu starfað sem verktaki hjá Voga- og mælitækni í Reykjavík og unnið við uppsetningar á tölvuvogum og tölvustýringum.

Kona hans er Berglind Agnarsdóttir, leikskólastjóri, og eiga þau tvö börn, Ellen Rós f. 1991 og Unnar Ara f. 1997. Hans Óli mun hefja störf hjá LVF 9. maí n.k.

Aðalfundur KFFB

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga var haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 8. apríl kl. 17.30.

Hagnaður KFFB skv. samstæðureikningi nam kr. 29,5 millj., en eigið fé þess var kr. 1.346 millj. sem er 95,7% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa var samþykkt að leggja niður innlánsdeild félagsins miðað við 15. apríl 2005. Þá var ákveðið að fækka félagsdeildum úr fjórum í tvær fyrir aðalfund 2006.

Kjartan Reynisson sem verið hefur í stjórn KFFB frá 1993 og stjórnarformaður frá 1997 gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var Jónína Óskarsdóttir kjörin í hans stað. Stjórnin hefur skipt með sér verkum:

Steinn B. Jónasson, formaður, Elvar Óskarsson, varaformaður, Elínóra Guðjónsdóttir, ritari, Lars Gunnarsson og Jónína Óskarsdóttir meðstjórnendur. Í varastjórn eru Smári Júlíusson, Ármann Elísson og Magnús Ásgrímsson.

Aðalfundur LVF

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 8. apríl 2005 kl. 18.30.

Niðurstöður ársreiknings LVF hafa þegar verið birtar, en hagnaður LVF eftir skatta nam kr. 50,7 millj. króna. Tekjur félagsins námu kr. 2.232 millj.og eigið fé var kr. 1.486 millj. sem er 50% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða 5% arð til hluthafa.

Stjórnin var öll endurkjörin og hefur skipt með sér verkum: Friðrik M. Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Kjartan Reynisson, ritari, Steinn B. Jónasson og Elvar Óskarsson meðstjórnendur. Í varastjórn eru: Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.

Aðalfundir 2005

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 8. apríl 2005 kl. 17.30.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 8. apríl 2005 kl. 18.30.

Sameiginlegur kvöldverður að loknum aðalfundunum.

Tróndur landar

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkvöldi með um 2600 tonn af kolmunna, sem skipið fékk nálægt miðlínu suður af Færeyjum.

Kolmunni streymir að landi.

Skoski báturinn Taits landaði 1235 tonnum af kolmunna í morgun. Von er á norskum bát í kvöld með 1800 tonn og á morgun kemur annar skoskur bátur með 1400 tonn.

Kolmunni

Skoska skipið Conquest FR 225 landaði í nótt 760 tonnum af kolmunna hjá LVF.

Togararall

Ljósafell kom úr árlegu togararalli á fimmtudagskvöldið. Það gekk vel í rallinu og tók það rúma 16 daga. Tekin voru 152 tog víðsvegar út af suðurströnd landsins allt vestur að Snæfellsnesi. Heildarafli í rallinu var nálægt 80 tonnum sem var landað bæði í Reykavík og hér heima. Skipið var með um 30 tonn en hafði áður landað 50 tonnum í Reykjavík. Upplýsingar úr þessum röllum eru notaðar i reiknilíkön hjá Hafrannsóknarstofnun og er þetta í tuttugasta skiptið sem farið er í togararall þannig að töluverðar upplýsingar eiga að vera komnar í samanburðarlíkan þeirra, sem á síðan að gefa okkur betri og betri upplýsingar um ástand fiskistofnanna við landið. Ljósafellið fer aftur á veiðar núna eftir helgina.

Loðnuvertíð lokið

Hoffell landaði í dag 460 tonnum af loðnu sem veiddist út af Vestfjörðum. Frá áramótum hefur verið landað á Fáskrúðsfirði 41.800 tonnum af loðnu og 3.600 tonnum af kolmunna eða um 45.000 tonnum. Á loðnuvertíðinni 2003 bárust til Fáskrúðsfjarðar um 30.000 tonn af loðnu og um 5000 tonn af kolmunna. LVF er því búin að taka á móti 10.000 tonna meiri afla það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra. Þá hafa verið fryst 822 tonn af loðnu fyrir Japansmarkað og um 350 tonn af loðnuhrognum.


Loðnuvertíðin var mjög sérstök að þessu sinni. Veiðin byrjaði strax eftir áramótin og var ágætis veiði í janúar og fram í febrúar. Um 20. febrúar var veiðin orðin mjög lítil út af Suðurland. Þá fóru skipin að fá loðnu út af Breiðafirði og síðar út af Vestfjörðum og um svipað leyti fengu nokkur skip loðnu fyrir norðan land eða út Héðinsfirði. Heildarkvóti íslenskra skipa á vetrarvertíð 2005 var 748.000 tonn og skv. skýrslu Samtaka fiskvinnslustöðva í dag er eftir að veiða um 180.000 tonn eða 24% úthlutaðs kvóta á vetrarvertíð.