Loðnulandanir
Norsku bátarnir Gerda Marie og Slaatteröy komu til Fáskrúðsfjarðar í gær með um 1100 tonn af loðnu og er loðnufrysting í fullum gangi hjá LVF þessa dagana.
Fyrsta loðnan til Fáskrúðsfjarðar
Fyrsta loðnan á þessari vertíð barst til Fáskrúðsfjarðar í gær þegar tveir norskir bátar Nordfisk og Gerda Marie lönduðu hér samtals um 700 tonnum. Hluti af aflanum fór í frystingu fyrir Austur-Evrópumarkað.
Myndina af Nordfisk tók Jónína Óskarsdóttir í gær.
Jólakveðja
Óskum starfsfólki okkar, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan h/f
Árshátíð LVF 2006
Árshátíð Loðnuvinnlunnar hf verður haldin í Félagsheimilinu Skrúði laugardaginn 2. desember kl. 20.00. Samkoman hefst með borðhaldi, þar sem flutt verður skemmtidagskrá. Ómar Gunnarsson matsveinn á Hoffelli sér um veislumatinn að þessu sinni og er von á fjölbreyttum matseðli. Að loknu borðhaldi verður stiginn dans þar sem hljómsveitin Nefndin frá Egilsstöðum leikur og syngur. Um 170 manns hafa tilkynnt þátttöku í hátíðnni.
LVF óskar gestum sínum góðrar skemmtunar.
11.000 tunnur hjá LVF
Nú er búið að salta í um 11.000 tunnur af síld á haustvertíðinni hjá síldarverkun LVF. Saltað hefur verið í 9.600 tunnur af flökum og bitum og um 1.400 tunnur af heilli síld. Þessi framleiðsla hefur öll verið seld og fer hún til Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og Kanada.
Hoffell er búið að veiða um 2.500 tonn af kvóta sínum og hefur síldin öll verið tekin í nót út af Austfjörðum. Síldin hefur verið mjög góð til vinnslu og hafa um 18% af henni verið yfir 350 gr. Veður hefur þó nokkuð hamlað veiðum í haust og frátafir vegna brælu verið tíðar. Hoffell á nú eftir að veiða um 1.800 tonn af síldarkvótanum.
Uppgjör LVF 1/1-30/9 2006
Tap af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 9 máunði ársins 2006 nam kr. 68 millj. Þessi niðurstaða rekstrarreiknings ræðst fyrst og fremst af breytingum á gengi íslensku krónunnar, en fjármagnsliðir eru nú kr. 330 millj. hærri en á sama tíma árið 2005.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 1.892 millj. og hækkuðu um 12% miðað við sama tímabil 2005. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 343 millj., sem er 18% af tekjum, en var kr. 90 millj. eða 5% af tekjum árið á undan. Veltufé frá rekstri var kr. 213 millj. eða 11% miðað við 3% á sama tíma í fyrra. Afskriftir voru kr. 146 millj., sem er svipað og árið áður.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.539 millj., sem er 50% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir voru kr. 1.192 millj. og höfðu lækkað um liðlega 80 millj. á milli ára.
Afkoma félagsins á síðasta ársfjórðungi 2006 ræðst einkum af því hvernig síldarvertíðin gengur og af þróun á gengi íslensku krónunnar.
Uppgjör LVF 1/1-30/6 2006
Tap af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 6 mánuði ársins 2006 nam kr. 67 millj. Þessi niðurstaða rekstrarreiknings ræðst fyrst og fremst af gengisbreytingu íslensku krónunnar, en fjármagnsliðir eru nú 383 millj. króna hærri en á sama tíma 2005.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 1.653 millj. og hækkuðu um 17% miðað við sama tímabil 2005. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 411 millj., sem er 25% af tekjum, en var kr. 159 millj. eða 11% árið á undan. Veltufé frá rekstri var kr. 290 millj. eða 18% af tekjum miðað við 9% á miðju ári 2005. Afskriftir voru kr. 97 millj. samanborið við kr. 115 millj. árið áður.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.540 millj. sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um kr. 61 millj. á milli ára. Nettó skuldir voru kr. 1.220 millj. og hækkuðu um kr. 245 miðað við sama tíma 2005.
Afkoma félagsins á síðari hluta ársins ræðst einkum af síldarvertíðinni í haust og þróun á gengi íslensku krónunnar.
Franskir dagar 2006
Óskum Fáskrúðsfirðingum og gestum góðrar skemmtunar á Frönskum dögum. KFFB – LVF
Tunnuskip á Fáskrúðsfirði
Nú er svo komið að Loðnuvinnslan h/f á Fáskrúðsfirði er eina fyrirtækið hér á landi sem enn framleiðir saltsíld, en á síðastliðnu ári var saltað í 25000 tunnur hjá fyrirrækinu, 20000 tunnur af flökum og bitum og 5000 tunnur af heilli og hausskorinni síld. Heila síldin var eftirflökuð nokkrum mánuðum seinna og seld sem flök.
Í maí og júní s.l. bárust til Fáskrúðsfjarðar um 2200 tonn af norsk-íslenskri síld, sem öll var unnin til manneldis. Saltað var í 7300 tunnur af flökum og bitum og fryst voru um 90 tonn af flökum. Þessar síldarafurðir eru allar seldar og afskipanir þegar hafnar.
Í dag er flutningaskipið Haukur að losa hér um 11000 tómar tunnur, sem saltað verður í með haustinu. Tunnuskip er því heldur sjaldgæf sjón nú til dags hér á landi nema einstöku sinnum á Fáskrúðsfirði.
Sjómannadagurinn 2006
LVF óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.
Nýtt sveitarfélag
Í dag verður formlega til hin nýja FJARÐABYGGÐ og eru þar með sameinuð í eitt fjögur sveitarfélög, Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppur.
Fjarðalisti og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn og verður Guðmundur R. Gíslason forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Þorgrímsson formaður bæjarráðs. Fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar verður haldinn þriðjudaginn 13. júní kl. 14.00 að Sólbrekku í Mjóafirði.
Íbúum hinnar nýju Fjarðabyggðar er óskað til hamingju með daginn og árnað heilla í framtíðinni. LVF
Eiríkur Ólafsson lætur af störfum
Eiríkur Ólafsson hefur látið af störfum sem fulltrúi kaupfélagsstjóra KFFB og framkvæmdastjóra LVF eftir að hafa starfað hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og dótturfyrirtækjum þess bæði á sjó og í landi um 32ja ára skeið.
Stjórnir félaganna og framkvæmdastjóri þakka Eiríki mjög gott samstarf og fyrir mikinn dugnað í störfum sínum fyrir félögin. Eiríki er óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
Við starfi Eiríks hefur tekið Kjartan Reynisson sem starfað hefur hjá KFFB og dótturfyrirtækjum í 30 ár og þar af á skrifstofum félaganna frá 1981-2005. Kjartan er boðinn velkominn á ný til starfa hjá hjá félögunum.