Ýtt undir notkun á endurnýjanlegri orku
Á dögunum rituðu Landsvirkjun og FÍF ( Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) undir viljayfirlýsingu þess efnis að ýta undir notkun á endurnýjanlegri orku.
Fram til þessa hafa fiskmjölsframleiðendur notast bæði við olíu og rafmagn við sína framleiðslu en það rafmagn sem keypt hefur verið er svokallað skerðanlegt rafmagn sem Landsvirkjun selur á heildsöluverði. Á því hefur verið takmarkað framboð sem ræðst að mestu af því hvernig vatnsbúskapur Landsvikjunnar stendur. Markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.
Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að Landsvirkjun ætli að stuðla að því eins og hægt er að auka framboð á skerðanlegu rafmagni og FÍF ætlar að hvetja sína félagsmenn til þess að gera mjölframleiðslu enn umhverfisvænni með því að nota endurnýtanlega orkugjafa í stað þeirra sem menga meira.
Hjá Loðnuvinnslunni hefur verið notast bæði við rafmagn og olíu. Hefur notkunin ráðist annars vegar af framboði á skerðanlega rafmagninu og hins vegar af verði milli orkugjafanna. Árið 2015 var rafmagnsnotkunin töluverð, framleidd voru 83 þúsund tonn og notast við aðeins 472 tonn af olíu. Á síðasta ári var hins vegar notast við meiri olíu. Framleidd voru 64 þúsund tonn og notað við það 1777 tonn af olíu. Skýringin á mismuninum felst í því hve óhagstætt verðið var og trega var á flutningsgetu.
Með viljayfirlýsingunni binda menn vonir um að hægt verði að notast við rafmagn við mjölframleiðsluna í miklu ríkara mæli og framleiðslan verði þá að sama skapi grænni og vænni.
BÓA
Magnús Þorvaldsson
Magnús Þorvaldsson er fæddur í janúar 1942 og er því 75 ára gamall. Hann er fæddur og uppalinn hér í Búðaþorpi, yngstur fimm systkina. Faðir hans byggði hús hér í bæ sem kallast Álfhóll og stendur enn. Lítið steinsteypt hús sem stendur við Skólaveg 70. Í þá daga var meira um vert að eiga sér þak og heimili heldur en fjöldan allan af fermetrum og á æskuheimili Magnúsar var mannmargt , foreldrarnir með börnin sín fimm, amma og föðurbróðir. Og allir undu vel við sitt. Seinna byggði Þorvaldur faðir Magnúsar húsið Bæ sem stendur við Búðaveg 52 og bjó fjölskyldan þar um tíð þar til þau tóku sig upp og fluttu til Reykjavíkur 1954.
Magnús átti ættingja á Stöðvarfirði og fór gjarnan þangað á sumrin til að vinna. Átján ára gamall fór hann í Sjómannaskólann og eftir útskrift þaðan flutti hann til Stöðvarfjarðar og bjó þar og starfaði í tuttugu ár.
Starfsævinni hefur Magnús eytt á sjó, verið skipstjóri og sótt gull í greipar Ægis og var síðasta fastaplássið hjá Granda en þar lét Magnús af störfum 70 ára gamall. Hann lítur sáttur til baka og segist vera ríkur maður, hann eigi einn stjúpson, tvö afabörn og eitt langafabarn.
En þó að fastráðingar verði ef til vill ekki fleiri hjá þessum lífsglaða manni hefur hann nú ekki alveg lagt sjóvettlingana á hilluna. Fyrir skemmstu fór Magnús með „gamla Hoffellið“ , þ.e Hoffell II Su 802, á sjó. Skipið var mannað, kapteinn settur í brúnna og af stað fór það, án veiðafæra að vísu því að tilgangur fararinnar var að taka afla af Hoffelli Su 80. Tvo slíka túra fór Magnús með Hoffell II og aðspurður að því hvernig honum fyndist að setjast í skiptjórastólinn 75 ára gamall og fara til sjós svaraði hann: „ það er mjög gaman, maður yngist bara. Það er svo gaman að vera innan um mennina um borð bæði þá eldri og reyndari og ekki er síðra að fá að fylgjast með ungu mönnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref í sjómennskunni“.
En hvernig er að fara til sjós án veiðafæra? „Það er svolítið örðuvísi“ svaraði Magnús, „en ég hef gert þetta áður á Víkingi frá Akranesi og þá vorum við að sækja Makríl“. „En getur það orðið varasamt að leggjast þétt að öðrum stórum skipum en þá skiptir höfuðmáli að hjálpast að og það gekk snuðrulaust fyrir sig, áhafnirnar á báðum Hoffellum löggðu sig fram um að gera þetta vel og verkið var unnið af mikilli fagmennsku og öryggi“.
Aðspurður að því hvernig Hoffell II reyndist á sjónum svaraði Magnús því til að hann væri mjúkur og góður og að það heyrðist varla í vélunum. „Ég hef aldei áður verið á bát þar sem vélarnar standa á gúmmípúðum eins og í fínum skemmtiferðaskipum, ég hrökk upp um miðja nótt og hélt að það væri dautt á“ sagði Magnús og hló við.
Og aftur ætlar Magnús að stýra Hoffelli II, það er leið til Akureyrar í botnhreinsun og snyrtingu ýmiskonar eins og gömul og góð skip eiga skilið eftir vinnutörn og mun Magnús Þorvaldsson stýra því heilu í höfn.
BÓA
Ljósafell
Ljósafell er nú að landa um 50 tonnum eftir stuttan túr. Uppistaða aflans er þorskur. Þetta er fyrsta heimalöndun skipsins eftir að hafa tekið þátt í togararalli Hafrannnsóknarstofnunar undanfarnar þrjár vikur. Jafnframt er þetta fyrsti vinnsludagur frystihússins í bolfiski eftir að hrognafrystingu lauk á þriðjudag.
Ljósafell
Hoffellin
Afskipanir
Hoffellin
Finnur Fríði
Færeyska fjölveiðiskipið Finnur Fríði FD 86 er okkur Fáskrúðsfirðingum að góðu kunnugt enda hefur það lagt upp afla hjá Loðnuvinnslunni til fjölda ára. Skipstjóri á Finni Fríða er Andri Hansen, ungur maður með góða nærveru og þétt handtak. Það fékk undirrituð að upplifa í spjalli yfir kaffibolla að morgni dags þar sem rigningin bankaði létt á glugga á milli þess sem sólin reyndi að brjótast fram.
Þegar Andri var inntur eftir því hvaðan nafnið Finnur Fríði kæmi sagði hann að norskur maður að nafni Finnur, með viðurnefnið hinn fríði vegna þess hve fríður og föngulegur hann var, ætti sér sess í færeyskri sögu og t.a.m. hefur verið ort um hann og Hálvdán bróður hans mikill vísnabálkur uppá 97 vísur þar sem sagt er frá því er þeir bræður fara til Írlands til að krækja í dóttur kóngsins, lentu þeir þar í bardaga við menn kóngsins og segir í einni vísunni að Finnur hafi barist við tólf hermenn í einu. Í lok vísnabálksins deyr Finnur en Hálvdán bróðir hans lifir. Við þessar vísur er gjarnan sungið fallegt lag og dansaður færeyskur hringdans. Þannig að segja má með sanni að þetta fallega skip beri nafn með rentu.
Finnur Fríði var smíðaður í Noregi árið 2003 og var Andri ráðinn skipstjóri aðeins 25 ára gamall. „Við vorum tveir“, sagði Andri,“ ég og Bogi Jakobsen sem voru stýrimenn hjá föður mínum Arne Hansen á gamla Þrándi í Götu og hann kenndi okkur allt sem hann kunni til þess að verða góðir skipstjórar“.
Þegar Andri var spurður að því af hverju þeir kæmu aftur og aftur hingað til Fáskrúðsfjarðar svaraði hann því til að ástæðan væri helst sú að útgerð Finns Fríða ætti í góðu sambandi við Loðnuvinnsluna, „hér fáum við gott verð og góða þjónustu“ sagði hann. „Að auki hafa myndast vinasambönd, við þekkjum orðið fólk hér, bæði á skrifstofunni og í Bræðslunni. Sem dæmi um það hve vel er tekið á móti okkur þá ætlar Kjartan (Reynisson) að keyra með okkur í rútu að Kárahnjúkavirkjun til að skoða hana“.
Þegar skip koma að landi eftir langa útiveru þarf oft að versla við heimamenn. Það þarf að kaupa varahluti, olíu, matvöru, fá þjónustu vegna veiðafæra og annað í þeim dúr og þar sem Færeyingar og Íslendingar eiga það sameiginlegt að vera aðdáendur sauðkindarinnar og þeirra afurða sem rekja má til hennar, hefur það sést all oft í verslun hér á Búðum þegar Færeyskir sjómenn kaupa íslenskan lopa í stórum stíl, „hann er ódýrari heldur en heima“ sagði Andri brosandi þegar minnst var á lopakaupin. „Og síldin, marineraða síldin sem er framleidd hér á Fáskrúðsfirði, það er besta síldin, við verðum alltaf glaðir að fá hana“.
Eins og mörgum er kunnugt tók áhöfnin á Finni Fríða þátt í björgunaraðgerðum í utanverðum Skagafirði á dögunum. Neyðarkall barst frá báti með tveimur mönnum innanborðs og er skemmst frá því að segja að mönnunum var bjargað úr gúmmíbáti um borð í Finn Fríða. Þegar undirrituð bað Andra segja svolítið frá þessu atviki sagði hann:“ Við vorum við loðnuveiðar í Faxaflóa og þegar við vorum komnir með 1100 tonn var lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar til löndunar, ég ákvað að fara norður fyrir land vegna veðurs. Þegar við vorum úti fyrir Skagafirði kom kallið og við brugðumst strax við, fundum mennina í gúmmíbátnum, tókum þá um borð og gáfum þeim heita súpu og kaffi og teppi til að koma í sig hita. Stuttu síðar kom þyrlan og sótti mennina og við héldum áfram ferð okkar“. Aðspurður að því hvort að menn þurfi að hugsa sig um þegar kall eins og þetta berst svaraði Andri um hæl: „nei, menn fara bara af stað, allt annað má bíða“.
Þegar Finnur Fríði heldur úr höfn á Fáskrúðsfirði er stefnan tekin vestur af Írlandi til að veiða kolmuna en Andri Hansen skipstjóri er að fara í frí, hann fer heim til Færeyja að hitta eiginkonu og börnin sín þrjú og kveður undirritaða með hvatningarorðum um að heimsækja Færeyjar til að sjá sérstaka græna litinn sem einkennir þessar fallegu eyjar.
BÓA
Hornfirðingar landa
Högaberg
Nýr verkstjóri
Í janúar s.l. var ráðinn til starfa hjá Loðnuvinnslunni nýr verkstjóri sem ber nafnið Hannes Auðunsson. Hann fluttist til Fáskrúðsfjarðar í byrjun árs ásamt konu sinni, Angeliku Ewu Filimonow og tveggja ára gömlum syni þeirra. Að auki á Hannes annan dreng sem er fimm ára og býr hann í Grindavík. Hingað fluttu þau hjónin frá Stykkishólmi.
Hannes er fæddur 22.júlí 1988 og er því 28 ára gamall. Faðir hans er íslenskur en móðir hans er frá Nýja Sjálandi. Fyrstu þrjú ár ævi sinnar ólst Hannes upp á Djúpavogi en flutti þá með móður sinni til Nýja Sjálands og barnæsku sinni eyddi hann ýmist hjá föður sínum á Djúpavogi eða móður sinni á Nýja Sjálandi. Árið 2006 kom hann síðan til Íslands til að hefja menntaskólagöngu.
Hannes ól draum í brjósti sínu á yngri árum, hann dreymdi um að verða flugmaður og í þeim tilgangi að vinna sér inn peninga fyrir flugnámi, réð hann sig til starfa hjá Vísi á Djúpavogi. En þá gripu örlögin í taumana er hann kynntist konunni sinni sem hafði komið frá Póllandi til Djúpavogs að vinna.
Er undirrituð innti Hannes um ástæðu þess að hann og fjölskyldan komu til Fáskrúðsfjarðar sagði hann að umfjöllun sem birtist í blaði í fyrra, um tækninýjungar í Frystihúsinu hefðu fyrst vakið áhuga hans á Loðnuvinnslunni og síðan þegar auglýst var laust starf verkstjóra ákvað hann að sækja um og „varð mjög sáttur þegar ég fékk það“ bætti hann við. „Ég sá þetta sem tækifæri og konan mín var til í að flytja, og þrátt fyrir að ekki sé lengri tími liðinn síðan ég hóf störf, þá leggst þetta mjög vel í mig“ sagði Hannes „það var afar vel tekið á móti okkur hér, hvort heldur í vinnu, leikskóla drengsins eða út í samfélaginu, kannski verð ég bara gamall hér“ sagði þessi ungi verkstjóri að lokum og kvaddi með bros á vör.
BÓA