Ljósafell

Ljósafell er nú að landa á fiskmarkað á Dalvík. Aflinn eru um 40 tonn. Búið er með 115 togstöðvar af 179 í Haustralli Hafrannsóknarstofnunar. Brottför aftur á Sunnudag 22. október.

Sandfell

Sandfell er nú að landa í Frystihús LVF á Fáskrúðsfirði. Aflinn er um 12,6 tonn þar af 12,2 tonn þorskur.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 390 tonnum af síld til söltunar. Vinnusluafköst í landi ráða ferðinni og dreifist löndunin því á tvo daga.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 150 tonnum af síld til söltunar. Brottför í næsta túr er að öllu óbreyttu á sunnudaginn 15. október kl 13:00

Síldin er komin

Grétar Þór Arnþórsson

Síldin er komin“ var hrópað á árum áður þegar síldarbátar komu að landi. Og enn kemur síldin þó ekkert sé hrópað,  því að þrátt fyrir breytta tíma er síldin enn verðmæt afurð.

Á dögunum kom Hoffellið að landi með rúm 400 tonn af norsk- íslenskri síld.  Að þessu sinni fer aflinn allur til söltunar.  Í gegnum vinnsluna geta farið um 180 tonn á dag miðað við að unnið sé í 12 tíma.

Grétar Arnþórsson er verkstjóri síldarverkunar hjá Loðnuvinnslunni og hefur starfað við sjávarútveg nánast allan sinn starfsferil ýmist í landi eða á sjó.  Grétar er, að öðrum ólöstuðum, einn helsti síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar en þekkingarinnar hefur hann aflað á áratuga langri starfsævi innan um silfur hafsins, eins og síldin var gjarnan kölluð.  Aðspurður sagði Grétar að síldin væri góð að þessu sinni þrátt fyrir að vera nokkuð feit og bætti því við að stundum væri erfitt að vinna feita síld í vélunum, hún vildi festast meira heldur en mögur síld, en að sama skapi væri hún mikið bragðbetri.  Eftir því sem greinarhöfundur og Grétar best vita er Loðnuvinnslan eina stöðin á landinu sem ennþá saltar síld í einhverju magni.  En saltsíld er ekki eina afurðin sem Loðnuvinnslan framleiðir, heldur er síldin líka lögð í edik, krydd eða salt, allt eftir því hvað kaupandinn óskar.   Og þótt fátt minni á gamla tíma við vinnu síldar í dag geta þeir sem áður stóðu á síldarplönum auðveldlega horfið aftur í tímann í huganum þegar lyktin af kryddsíldinni leggur fyrir vitin.

Loðnuvinnslan festi kaup á nýjum vélum s.l. sumar til þess að flaka síld. Eru þessar vélar afar fullkomnar og þarf mannshöndinn ekkert að koma þar að.  En þrátt fyrir sífellt aukna tækni og sjálfvirkni við vinnsluna eru ennþá störf sem eru nokkuð erfið, en í fyllingu tímans munu þau eflaust hverfa á braut.  Vélar sjá um að hausskera og flaka síldina, síðan fer hún í saltpækil í körum þar sem að hræra þarf í annað slagið og er það gert handvirkt. Eftir það er síldin færð í tunnur sem í dag eru úr plasti en trétunnurnar eru alveg horfnar á braut.

Eins og áður sagði er Grétar ekki nýr í þessum bransa.  Hann byrjaði að vinna á síldarplani á hinum svokölluðu síldarárum þegar hann var tíu ára gamall.  Og eitt af hans hlutverkum var til dæmis að boða mannskapinn til vinnu með því að hlaupa um bæinn og kalla „síldin er komin“. „Stundum þurfti maður að nota spýtu og renna henni eftir bárujárninu á húsunum til að ræsa“ sagði Grétar hlæjandi, „þá voru engir símar og þetta var leiðin“ bætti hann við.  Síðan hafði hann það hlutverk að færa  konunum( í þá daga voru það nánast eingöngu konur sem hausskáru síldina og settu í tunnur) tómar tunnur og salt. Aðspurður að því  hvort að rómantíkin sem mörgum fannst tilheyra síldarárunum sé enn til staðar segir Grétar að svo sé ekki „ég verð í það minnsta ekki var við það“ sagði hann sposkur „nú er svo mikill hávaði í vélunum að það myndi enginn heyra í harmonikkunni“ . Og er auðvitað að vísa til þess þegar dansað var á síldarplönum við harmonikkuleik hér áðurfyrr.

En hvað gerir Grétar Arnþórsson í frístundum? „Það skemmtilegasta sem ég gerði þegar ég var yngri var að vera í fótbolta, en nú er ég ekki nógu fljótur að hlaupa til þess að fá að vera með“ svaraði hann.  Grétar á líka gróðurhús og hefur gaman af því að rækta eitt og annað, hann er t.a.m. með jarðaber, plómur og eplatré sem gefa ávöxt og þegar hann er inntur frekar eftir því sem fellur af eplatrénu hans svarar hann að bragði: „það koma epli, en ég gæti ekki lifað af eplarækt“.   Þá hefur Grétar unun af því að eyða tíma með sínu fólki og að ferðast um landið með hjólhýsið og fjölskylduna finnst honum skemmtilegt og endurnærandi fyrir sál og líkama.  Og sjálfsagt veitir ekkert af því að endurnæra sál og líkama þegar menn eru í streitufullu starfi og leggja marga klukkustundir að baki á hverjum degi.

Þrátt fyrir að enn væri eitthvað eftir af vínarbrauðinu og kaffinu var spjallinu lokið.  Verkstjórinn hafði aðeins tekið af sér skóna, sat í vinnugallanum með hárnetið á höfðinu meðan á spjallinu stóð, en annríkið í vinnslusalnum kallaði hann til sín og kveðja greinarhöfundar hvarf í hávaðanum frá vélunum.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa á Ísafirði eftir að hafa lokið við 61 togstöð af 179 í haustralli Hafró. Verið er að nota bræluna til að losa. Haldið verður áfram með leiðangurinn um leið og veður hægist.

Hoffell

Hoffell er komið til löndunar með um 415 tonn af Norsk-íslenskri síld til söltunar. Brottför að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Hafnarfirði. Aflinn er um 25 tonn. Brottför kl 22:00 ( Eftir landsleik ) Þá verður haldið áfram með Haustrall Hafró.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 160 tonnum af makríl. Skipið heldur til veiða á NA-síld kl 13:00 á morgunn, laugardag.

„Ég var aldrei lítill“

Baldvin Guðjónsson
Baldvin Guðjónsson

Á sumardaginn fyrsta 25.apríl 1935 fæddist drengur í Byggðarholti, húsi sem stendur við Skólaveg  58 á Fáskrúðsfirði.  Var hann þrettánda barn foreldra sinna.  Drengurinn fékk nafnið Baldvin og er Guðjónsson.  Þegar Baldvin var ársgamall flutti hann ásamt fjölskyldunni í hús sem heitir Gestsstaðir sem stendur einnig við Skólaveg og þar bjó Baldvin alveg þangð til að hann flutti á Dvalarheimilið Uppsali fyrir nokkrum árum.  Talandi um upphaf lífsgögnu sinnar sagði Baldvin: „þeim leist nú þannig á karlinn að best væri að stofna slysavarnarfélag“.  Enda skemmtileg tilviljun að slysavarnardeildin Hafdís er stofnuð sama dag og Baldvin leit fyrst dagsins ljós, og gaman að segja frá því að þau eru bæði á góðum járnum enn.

Þrátt fyrir að vera orðinn 82 ára gamall er hugur Baldvins skarpur sem hnífur.  Hann man eftir mönnum, málefnum og atvikum frá liðinni tíð rétt eins og gerst hefðu í gær.  Baldvin hefur ávallt átt heima á Fáskrúðsfirði, hér hefur hann lifað og starfað og skilaði sínu dagsverki vel.  Hann starfaði í yfir fimmtíu ár hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og síðar Loðnuvinnslunni.  „Alla mína starfsævi fyrir utan tvö ár sem ég var í vinnu í frystihúsinu Fram“ segir Baldvin.

Greinarhöfundur bað Baldvin að draga upp mynd af lífinu í Búðaþorpi þegar hann var að alast upp.  „Það var fátækt og mikil barnamergð á flestum heimilum“ segir hann og tilgreinir nokkur heimili þar sem voru tólf og fjórtán börn.  „Lífið gekk út á að draga björg í bú, allir sem gátu áttu kýr og kindur.  Og hænur voru auðvitað allsstaðar, þá var enginn að amast við því þó að haninn galaði“ sagði Baldvin hlæjandi.  Hann rifjar það upp að á einhverju tímabili hafi verið 85 kýr í bænum og 440 kindur á vertarfóðrum, sem þýddi margfalt fleira fé á sumrin þegar lömbin voru komin. „Gekk fé þetta hér í fjallinu og allir höfðu nóg að borða“.  „Þá var mönnum ekki bannað að bjarga sér“ bætir hann við.  Þá sagði hann frá því að margir hefðu átt trillur og fiskað.  Ýsan og þorskurinn voru seld til útflutnings en steinbítur var ekki nýttur á sama hátt.  Þá mátti fólk gjarnan hirða steinbítinn og flestir voru með einhverskonar útbúnað til þess að hengja og þurrka fiskinn þannig að harðfiskur var oftast til.  Talandi um æskuna og uppvöxtin segir Baldvin greinarhöfundi að hann hafi einhverju sinni verið spurður að því hvort að hann hefi verið óþægur þegar hann var lítill og hann sagðist hafa svarað því á þennan veg: „nei aldrei, enda var ég aldrei lítill“. Og vísar þar til þess hversu stór hann var sem barn og er sannarlega enn.

Á þeim árum sem Baldvin er að vaxa úr grasi var ekki mikill tími til að leika sér.  Fljótt þurftu börn að fara að hjálpa til heimavið, hugsa um skepnur og sinna öðrum tilfallandi verkum.  Og Baldvin var þar enginn undantekning.  Hann byrjaði að vinna á barnsaldri. „Björn Stefánsson, fyrsti Kaupfélagsstjórinn fékk mig til þess að koma í vinnu til þess að vigta 100 punda kolapoka ( rúm 45 kíló). Svo þurfti að henda þessum pokum uppá pall og keyra svo heim til fólks og bera pokana þar inn“.  Þegar Baldvin var tólf ára gamall kom hreppstjórinn að máli við hann og bað hann að slétta öll leiðin í Franska grafreitnum.  Þetta var ærinn starfi fyrir tólf ára gutta en Baldvin var öflugur og vann þetta verk samviskusamlega.  Síðan kom franskt herskip og dátarnir máluðu krossana og girðinguna. „Ég fékk vel borgað, það kom ávísun frá franska konsúlnum í Reykjavík og faðir minn sagði að hann hefði aldrei haldið á svona hárri ávísun“.

Síðan vann Baldvin við beitningar í tvö ár.  Þá byggði Búðahreppur frystihúsið Fram og fór Baldvin að starfa þar sem tækjamaður. „Þá var Sölvi Ólason forstjóri og Benedikt á Bergi verkstjóri“ sagði Baldvin skilmerkilega, enda með allt slíkt á hreinu.  Það var svo Gunnar Jónasson sem kom að máli við Baldvin til þess að spyrja hann hvort hann vildi ekki taka að sér að aka vörubíl Kaupfélagsins. Í þá daga þurfti ekkert sérstakt ökuleyfi fyrir vörubíla umfram aðra bíla. Gunnar kenndi honum að aka, Baldvin fór til Eskifjarðar í ökupróf og þar með var hann orðinn bílstjóri, starf sem hann sinnti í áratugi.  Árið 1975 fór Baldvin svo í meiraprófið, eins og það hét þá, enda kröfur um slík réttindi orðin almenn.

„Og hverju varstu svo að aka Baldvin?“ Ég sá til dæmis um að fylla á olíutanka hjá fólki.  Þegar olíukyndingin tók við af kolunum þá var settur stór olíutankur á pallinn á vörubílnum og ég ók um og fyllt á.  Ég sá um 160 heimili, bæði í bænum og sveitinni sem ég þurfti að koma með olíu til einu sinni í mánuði“.  Þá lá vegurinn yfir í Reyðarfjörð yfir Staðarskarð, skarð sem er liggur austan við Höfðahús, og oft var erfitt að komast þar yfir á stórum bíl með fullan olíutank á pallinum.  „Oft var þetta basl á veturna, ég reyndi nú birgja bændur á Kolmúla, Hafranesi, Þernunesi og Vattarnesi upp fyrir veturinn til þess að þurfa ekki að fara á bílnum yfir skarðið í vondri færð og veðrum.  Og þegar það hafði snjóað mikið þurfti  stundum að moka niður allt að tvo metra til þess að komast að tönkunum hjá fólki.  En ég hafði nú oftast hjálp þá“.

Svo ók Baldvin fé í sláturhúsið á hausti.  Kaupfélagið rak sláturhús um langt árabil eins og tíðkaðist um landið allt á árum áður.  „Ég átti sjálfur fé á fjalli þannig að ég smalaði á laugardögum, ók síðan fénu í sláturhúsið á sunnudögum þannig að hægt yrði að byrja að slátra á mánudagsmorgnum.  Þá slátruðu bændur sjálfir.“  Svo rifjar hann upp hvað ávallt hafi verið tekið vel á móti honum á öllum sveitabæjunum sem hann þjónustaði hvort heldur hann kom með olíu eða náði í fé til slátrunnar.  „Viltu ekki kaffi Baldi minn? var allstaðar boðið.  Þetta voru allt vinir mínir“ sagði Baldvin með hlýju.

Þá þurfti líka að aka ís, fiski og  öðru tilfallandi.  Og þá voru ekki til neinir lyftarar eða græjur sem gerðu mönnum starfið léttara. „Maður byrjaði á því að lyfta öllu uppá pallinn, hoppa svo uppá og raða því á pallinn svo að vel færi“. Menn urðu sterkir og stæltir af öllum þessum lyftingum og Baldvin segir að hann hafi bara stælst af þessari vinnu og man ekki til þess að hafa verið vondur í kroppnum.  Þá var það hluti af starfi Baldvins að fara með unglinga inní hjalla sem reistir voru skammt innan við þorpið til þess að hengja upp skreið. „það var skemmtilegt að vinna með unglingunum, en nú eru svo kölluð unglingavandamál.  Hér áður fyrr unnu unglingar við hlið foreldra sinna og það var hollt og gott.  Nú hanga þau bara með síma og myndavélar“.

Baldvin keyrði vörubílinn um allt til þess að sækja og senda vörur og varning.  Hann fór margar ferðir til Reyðafjarðar og Egilsstaða.  Stundum fór hann þrjár ferðar á dag á Reyðarfjörð í Fóðurblönduna.  Og einhverju sinni var hann sendur til Akureyrar eftir smjöri. „Ég þekkti alla á Reyðarfirði, alla á Egilsstöðum og flesta á Eskifirði“ segir Baldvin og segir greinarhöfundi frá  konu frá Reyðarfirði sem starfaði á Uppsölum.  Hann sagðist hafa beðið hana að spyrja pabba sinn hvort hann myndi eftir Baldvin frá Fáskrúðsfirði, kom konan til baka með það svar að pabbi hennar myndi vel eftir Baldvin, hann væri ógleymanlegur svona stór og sterkur.  Og Baldvin hlær að þessu öllu saman.

Þá var Baldvin mikil sláttumaður með orf og ljá.  Greinarhöfundur man eftir að hafa horft á Baldvin slá engi og tún af miklum móð.  Og hann var fljótur.  Hann tók gjarnan að sér að slá fyrir fólk en þá hafði hann yfirleitt ekki tíma nema á nóttunni.  Ófáar bjartar sumarnætur vakti hann og vann með orf og ljá og þegar mál var komið fyrir flesta að rísa úr bælum sínum ræsti Baldvin vélina í vörubílnum.

Á síldarárunum vann Baldvin í hjáverkum í lögreglunni.  Þá var dansað á hverju kvöldi og það kom til Fáskrúðsfjarðar lögreglumaður úr Reykjavík sem hét Lárus Salomonsson. „Hann var fyrirtaksmaður“ sagði Baldvin og bætti því við að hann hefði nú  farið á hjónaball þrátt fyrir að hafa aldrei gifst.  Það hefði hann gert þegar hann var í löggæslustörfum með Lárusi.  Hann sagði einnig að hann hefði verið spurður að því af hverju hann hefði aldrei gifst og hann sagðist hafa svarað því  að það hefði verið viljandi gert, hann hefði ekki vilja skilja ef honum hefði ekki líkað hjónalífið.  Og greina mátti glettni í rödd Baldvins þegar hann sagði þessa sögu.

Aðeins einu sinni fór Baldvin á sjó.  Hann segir málavexti hafa verið með þessum hætti: „ ég var í heimsókn hjá Högna Skaftasyni, sem þá var skipstjóri á Hoffellinu.  Ég heyri að hann er að tala um að sig vanti mann.  Þá segi ég við hann að mig langi nú til að prófa að fara til sjós. „Heldur þú að þú drepist ekki“? spurði Högni. „Ég drepst eins og aðrir“ svaraði ég.  Ég hringdi í Gísla Jónatansson og spurði hann hvort ég mætti ekki fara og Gísli sagðist bara ekki getað neitað mér um það.  Ég fór og það gekk mjög vel.   Ég var ekkert sjóveikur og við veiddum 100 tonn.  Síðan er ákveðið að selja skuli aflann í Færeyjum og Högni segir við mig að ég skuli endilega koma með, ég hafi nú tekið þátt í því að veiða aflann.  Aftur hringi ég í Gísla og hann segir aftur að hann geti nú ekki neitað mér um þetta en svo fari ég aftur á bílinn.  Við vorum í tíu daga í Færeyjum og það var svo gaman“.  Er þetta eina utanlandsferð Baldvins á lífsleiðinni.   „En svo fór ég í  tíu daga ferð með vini mínum Jóni Kristinssyni um Ísland.  Við fórum vestur á firði og skoðuðum okkur um landið“.

Manneskjur koma og fara.  Í lífsins ólgusjó hefur Baldvin misst fjöslyldumeðlimi og vini. Hann lifir einn af sínum stóra systkinahópi og angurvær segir hann greinarhöfundi frá sviplegum dauða systkina, ættingja og vina og þegar hann segir frá lýsir hann áföllunum með því að segja:  „eitt höggið enn“.

Það eru mörg handtökin sem ein manneskja leggur af mörkum á einni starfsævi.  Og sé starfsævin á sjötta áratug eru þau ótrúlega mörg.  Sem dæmi um hversu langt  starfstímabil Baldvins var má nefna að hann starfaði hjá öllum Kaupfélagsstjórunum sem hafa starfað hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga fyrir utan einn. (Núverandi Kaupfélagsstjóri var ekki tekinn við þegar Baldvin lét af störfum.)

Baldvin Guðjónsson þjónaði Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga í rúma hálfa öld í formi starfskrafta sinna.  Nú er mál að þakka allt hans góða starf og hans framlags til Kaupfélgasins sem við þekkjum nú.

Segja má með sanni að spjall okkar hefði getað orðið miklu lengra því margar góðar minningar búa enn í huga Baldvins, en húmið fyrir utan gluggann hvíslaði:  „mál er að linni“.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum af blönduðum afla. Brottför skipsins er á morgunn 3. október kl 10:00. Verkefnið núna er „Haustrall“ á vegum Hafrannsóknarstofnunar. Í því felst að skipið tekur 179 togstöðvar á grunnslóð allt í kringum landið. Áætlað er að þetta verkefni taki allt að 4 vikur.

Fanney Linda

Fanney Linda

Þegar regnið lemur á gluggum og vindurinn hvín við hvert horn er gott að vera inni og spjalla við skemmtilega konu. Konan er nefnd Fanney Linda Kristinsdóttir og hún starfar á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.  Linda, eins og hún er jafnan kölluð, er fædd og uppalinn í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð. „Ég er fædd 1957 í Stafholti en flutti síðan tveggja ára gömul í Borgarhlíð“ segir Linda. Húsin sem hún nefnir með nafni standa samsíða við Skólaveg 60 og 62 á Fáskrúðsfirði.  Faðir Lindu, Kristinn Gíslason, byggði Borgarhlíð undir stækkandi fjölskylduna en Linda á tvær eldri systur en yngri bróðir hennar er látinn.

Foreldrar Lindu voru líka Fáskrúðsfirðingar, móðir hennar Lára Þórlindsdóttir var úr Hvammi en faðir hennar ólst upp í húsi sem heitir Steinholt. „Ég er hreinræktaður austfirðingur í báðar ættir“ segir Linda og segir greinarhöfundi skemmtilega sögu því tengdu. „ Það kom hér mannfræðingur fyrir allmörgum árum síðan og vildi fá að hitta það sem hann kallaði hreinræktaða austfirðinga og við mamma vorum beðnar að mæta, þetta átti ekki að vera neitt merkilegt og ekki taka mikinn tíma. En þegar við komum inní skóla þar sem hann hafði aðstöðu vorum við mældar í bak og fyrir. Málbandi var brugðið um nefið, á milli augnanna og hér og þar annarsstaðar og svo þurftum við að svara 200 krossaspurningum“.

Linda hefur líka haldið tryggð við sinn fjórðung, hún hefur ávalt búið á Fáskrúðsfirði fyrir utan tvö ár sem hún bjó á Eskifirði en þangað fór hún til að finna sér mannsefni.  Sautján ára gömul batt hún trúss sitt við Árna Sæbjörn Ólason og halda þau bönd enn. Þau hjónin byggðu sér hús og heimili og eignuðust tvo syni.

„Ég er rík manneskja“ segir Linda, „og það er ekkert sjálfgefið. Ég á góða syni, tengdadætur og barnabörnin eru auðvitað alveg dásamlega“ segir hún með stolti ömmunnar.

Ung fór Linda út á vinnumarkaðinn og vann framan af í frystihúsinu, tók síldarvertíðir þegar tækifæri gafst en hóf síðan störf á skrifstofu Kaupfélagsins síðan Loðnuvinnslunnar árið 1990.  Í 27 ár hefur hún starfað þar við bókhald og önnur tilfallandi skrifstofustörf. „Mitt starf felst helst í því að vinna í bókhaldi en svo sinni ég líka uppgjöri „ segir Linda.  Aðspurð að því hvort að starfið hafi breyst mikið í gegn um þessa tæplega þrjá áratugi sem hún hefur sinnt því segir Linda að það hafi gjörbreyst með tilkomu tækninnar.  „Nú fer allt í gegn um internetið og blýantarnir hafa alveg verið lagðir niður“ segir hún brosandi.  Og hún bætir því við að hún hafi alltaf unnið með svo góðu fólki.

Og hvað gerir þú svo í frístundum Linda? „Maður reynir nú aðeins að hreyfa sig og á sumrin förum við hjónin með hjólhýsið og ferðumst.  „Svo finnst mér gaman að sauma út“ segir hún og talið berst að því hvað faðir hennar saumaði fallegar myndir með sínar stóru og verklegu hendur. „Pabbi var sjómaður framan af ævinni, hann var bæði á gamla Hoffellinu og Bárunni en svo starfaði hann í mörg ár í frystihúsinu“.  Hann vann sem sagt með höndunum alla sína ævi en þessar sömu hendur kölluðu fram listaverk með saumnál að vopni.

Linda er mikil fjölskyldumanneskja, hún veit fátt betra en að fá stórfjölskyldunna í kaffi eða mat um helgar og njóta samvista við sitt fólk.  „Öll fjölskyldan er að fara saman til Spánar“ segir hún og tilhlökkunin leynir sér ekki í andlitinu.

Þegar okkar spjalli er lokið rignir enn. En greinarhöfundur er léttur í spori á heimleiðinni því það er mannbætandi að eyða tíma með góðu fólki, fólki eins og Fanney Lindu Kristinsdóttur.

BÓA