Hoffell

Hoffell er nú að landa um 620 tonnum af kolmunna sem fékkst í Íslenskri lögsögu. Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Sandfell

Sandfell er á landleið með um 16 tonn í þessum róðri. Það er góður endir á góðum mánuði í veiði bátsins. Samtals ætti aflinn í október þá að vera um 256 tonn.

Ljósafell

Ljósafell kom inn seinnipartinn í gær og var landað og skipt um kör og ís í gærkvöldi. Með því hefur Ljósafell lokið við Haustrall Hafró og fer til hefðbundinna verkefna uppúr miðnætti í kvöld að loknum veiðafæraskiptum.

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgun smá slatta, 57 körum af afla. Það hentaði ágætlega vegna þess að síðasta togstöð áður en brældi var við Mjóeyrina hér í Fáskrúðsfirði. Þá er búið að ljúka við 158 togstöðvar af alls 179. Brottför í síðasta hluta rallsinns er kl 17:00 í dag, föstudaginn 27. október.

„Framtíðin er í Rúst“

María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson

Samkvæmt dagatalinu er vetur genginn í garð.  Eitt af því sem fylgir vetri konungi er myrkrið sem umlykur allt og felur þar sem ljós eru af skornum skammti.  Eitt af þeim húsum sem standa næst sjónum í þorpinu sem stendur við Fáskrúðsfjörð er hús sem kallað er Rúst.  Rúst tilheyrir Búðavegi en stendur samt miklu nær ónemdum vegi við flæðarmálið og þegar greinarhöfundur steig út úr bíl sínum, sem lagt var steinsnar frá sjónum , til þess að heimsækja húsráðendur í Rúst var myrkrið þétt en ljósin úr gluggum heimilisins í Rúst lýstu leið.

Í Rúst búa hjónin María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson ásamt sonum sínum Heiðberti Óla og Herði Marino og einum hvolpi sem heitir Krummi.  Í þessu gamla húsi hafa þau búið sér fallegt heimili og útsýnið úr suðurgluggunum þeirra er engu líkt, fjöllin og sjórinn í nærmynd.

Sigmar er Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér alla sína ævi, hér búa foreldar hans og hér bjuggu amma hans og afi.  Hann er elstur þriggja bræðra.  María Björk er uppalin í Vogum á Vatnsleysuströnd en á ættir sínar hingað.  Hún er ein fjögurra systra.  Faðir hennar er Fáskrúðsfirðingur og  amma hennar og afi bjuggu hér.  Í barnæsku kom María til ömmu og afa á Fáskrúðsfirði á hverju sumri og þegar ég spyr þau hvenær þau hafi kynnst segja þau að það hafi verið einhverntíman á æskuárum, þegar María Björk var stúlkan í heimsókn og Sigmar drengur á heimaslóðum og þau léku sér saman.  Hvort að örlögin voru ráðin strax þá er ómögulegt að segja en staðreyndin er sú að þau eiga margt sameiginlegt.  Þau eru t.a.m. fædd sama dag,  10.október 1985!

Það var svo árið 2006 að María Björk kemur til Fáskrúðsfjarðar ásamt vinkonum til þess að fara á konukvöld, skemmtun sem haldin var í íþróttahúsinu og þegar dansleikurinn hófst að skemmtun lokinni mættu karlmennirnir á svæðið og dansinn dunaði fram á nótt.  Á einhverjum tímapunkti hófu þau Sigmar og María dans sem þau dansa enn og af því að lífið er skemmtilegt og skondið á köflum þá giftu þau sig í Fáskrúðsfjarðrkirkju þann 10.10.10.  Á afmælisdegi þeirra beggja árið 2010.

Var aldrei vafamál hvar þið vilduð setjast að? spyr greinarhöfundur, „Nei, segir María Björk, ég sagði alltaf þegar ég var krakki að ég ætlaði að eiga heima á Fáskrúðsfirði þegar ég yrði stór.“ Svo ég er bara að lifa þann draum“ segir hún hlæjandi.  Og svo segir hún frá því þegar þau hjónin keyptu íbúðahúsið Rúst að hún hafi hringt í móður sína og sagt í símann: „Framtíðin er í Rúst“, mömmu hennar brá nú svolítið í fyrstu áður en hún áttaði sig á því hvað fólst í raun og veru í setningunni.  Já, orðaleikir eru skemmtilegir.

Sigmar Örn og María Björk starfa bæði hjá Loðnuvinnslunni og greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvort að þau teldu það vera gott eða slæmt fyrir þeirra samband að starfa á sama stað en þau kváðu það ekki vera vandamál.  Þau hittust í matar- og kaffitímum, en annars væru samskiptin lítil því þau gengdu sitthvoru starfinu og rækjust ekki oft saman í hita leiksins.  „Við hittumst í matar- og kaffitímum því Sigmar vill gjarnan sitja hjá stelpunum“ segir María hlæjandi og Sigmar mótmælir ekki en brosir bara hlýtt til konu sinnar.  Þau eru sammála um að það sé gott að vinna hjá LVF, vinnustaðurinn sé fullur af skemmtilegu og góðu fólki og þar sem að hluti af samstarfsfólki þeirra sé fólk af erlendu bergi brotið sé lífið á vinnustaðnum fjölþjóðlegt og fjölbreytilegt.  María er líka í stjórn Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem hefur staðið fyrir skemmtilegum ferðum starfsmanna til útlanda sem og innanlands ásamt annarri starfsemi.  Þau eru á einu máli um að það sé kostur að vinna innan bæjarmarkanna vegna barnanna.  Ef eitthvað kemur uppá eru foreldrarnir bara tvær mínútur að aka í skóla sona sinna. „Við erum alltaf nálæg og alltaf til taks“ segja þau sátt við tilveruna.

En þegar vinnu er lokið, hvað gera þau þá?  „Ég starfa í Björgunarsveitinni og líka í Slökkviliðinu“ segir Sigmar og María segir að hún hafi unun af því að teikna.  Þeim þykir líka gaman að ferðast en fyrst og fremst hjá þeim báðum er samvera með fjölskyldunni. „Ég er afar heimakær manneskja“ segir María, „ég veit fátt betra en að vera heima hjá mér með mínu fólki“. Og það er auðfundið sem gestur á heimili þeirra að þau eru á heimavelli.  Sigmar sér um að bjóða kaffið og fer vönum höndum um skápa og skúffur en María játar þó á sig að hún sé öllu fyrirferðameiri í eldhús- og heimilisstörfum þó svo að Sigmar sé vel liðtækur. „Mér finnst best að fá hann til að fara út með strákanna á meðan ég þríf heimilið“ segir þessi bjarteyga unga kona og hlær.

Hjá flestum á lífið líka sína skuggahlið.  Þannig er það líka hjá ungu hjónunum í Rúst.  Þau hafa gengið saman í gegnum sorgir og þrautir.  Fyrir nokkrum árum veiktist María alvarlega í tengslum við meðgöngu sem endaði illa, þá munaði litlu milli lífs og dauða.  Slík lífsreynsla setur mark sitt á fólk og í þeirra tilfelli birtist það í þakklæti fyrir lífið sem þau eiga og lífin sem þau hafa skapað.  Það er bæði fallegt og gott.  Og þau dreymir um að skapa fleiri líf en fyrir því eru ákveðin vandkvæði sem vonandi verða bráðum úr sögunni því að í hjörtum þeirra Sigmars og Maríu er pláss fyrir fleiri.

Seta greinarhöfundar við eldhúsborðið í Rúst hafði, sem betur fer,  lítil áhrif á heimilishaldið. Unglingurinn hélt sig í herberginu sínu rétt eins og unglinga er háttur og yngri drengurinn lék sér við hvolpinn Krumma.  Andrúmsloftið var afslappað og viðmótið hlýtt.  Og þegar greinarhöfundur gekk í myrkrinu aftur að bíl sínum þá var það sjórinn sem breiddi öldur sínar yfir steinana í fjörunni og bauð góða nótt.

BÓA

Síldin að fara

Alls voru fimm flutningabílar hér á Fáskrúðsfirði í morgunn að sækja um 900 tunnur saltsíld sem fer í útflutning með Norrænu til Danmerkur og Svíþjóðar.

Hoffell

Hoffell er nú að landa. Aflinn er um 360 tonn af Norsk-Íslenskri síld sem fer til söltunar.

Lærir íslensku í frístundum

Ernestas Lūža

„Ég er hinn frálsi förusveinn á ferð með staf og mal“.  Þessi hending úr dægurlagatexta kom í huga greinarhöfundar þegar hún sat að spjalli við ungan mann frá Litháen sem starfar hjá Loðnuvinnslunni.  Þessi ungi maður heitir Ernestas Lūža og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann dvalið víða um heiminn.

„Ég er fæddur og uppalinn í litlum bæ í vestur Litháen, þar búa ekki nema um 20 þúsund íbúar og þykir það lítill bær í mínu heimalandi“, sagði Ernest, eins og hann bauð greinarhöfundi að kalla sig enda væri það alþjóðlegt nafn og færi betur í munni flestra heldur en fullt nafnið hans.  Ernest stundaði nám í sínum heimabæ og í menntaskóla bauðst honum að taka þátt í Erasmus verkefni, en það eru verkefni sem styrkt eru af Evrópusambandinu og lítur að mennta-, æskulýðs- og íþróttamálum ungmenna.  Í gegnum slíkt samstaf dvaldi hann í Portúgal í sex mánuði.  Því næst lá leiðin til Englands þar sem Ernest vann í eitt ár. “Það var mjög gott að vera í Englandi til að byrja með, en svo kom Brexit og þá breyttist margt, það varð erfitt að vera útlendingur“.

Ernest hefur alltaf haft áhuga á tungumálum.  Auk móðurmálsins talar hann reiprennandi ensku, og skilur og talar svolítið í þýsku og rússnensku og er núna á fullu að læra íslensku.  „Ég átti frænda sem bjó í Kanada og hann kom stundum í heimsókn og þá spjallaði ég við hann á ensku.  Hann hrósaði mér fyrir hvað ég var duglegur að tala svo ég kepptist við að læra enskuna til að kunna meira þegar hann kæmi næst“ sagði þessi geðþekki ungi maður brosandi.

Hvernig datt þér í hug að koma til Fáskrúðsfjarðar og fara að læra íslensku?  Því svaraði Ernest á þann veg að hann hefði vitað af þessum bæ síðan hann var lítill drengur en þannig vill til að besti vinur hans frá því í barnæsku kom hingað á hverju sumri til þess að heimsækja föður sinn sem ennþá býr hér á Fáskrúðsfirði. „Ég man hvað ég öfundaði hann af því að fá að fara til Íslands aftur og aftur“ sagði hann.  Og svo fyrir rúmu ári síðan þegar Ernest fann að dvölin í landi Bretadrottningar stóð ekki lengur undir væntingum ákvað hann að skella sér til Íslands.  Hann fékk vinnu hjá Loðnuvinnslunni og keypti sér far með flugi frá London til Reykjavíkur og þaðan í Egilsstaði.  Hann kannast nú alveg við það að viðbrigðin hafi verið töluverð frá London.  „Þegar ég kom var svartamyrkur svo að ég sá nú ekki alveg hversu lítill bærinn var, en svo rann upp fyrir mér ljós og þá fékk ég nú svolítið sjokk.  Engin verslunarmiðstöð, engin bar og nánast engin umferð, hvorki af bílum né gangndi vegfarendum.  En mér hefur nú samt tekist að villast hér“ segir hann hlæjandi.  Ernest segir að sér hafi verið vel tekið í vinnunni, fólk sé kurteist og hjálpsamt.  „Ég hef verið beðinn um að kenna nýjum starfsmönnum handtökin og það er fínt, en ég gæti alveg þegið pínu meiri ábyrgð“ segir þessi ungi maður sem hefur heilbrigðan metnað í starfi.

Síðastliðin vetur var oft erfiður segir hann og bætir því við að hann hafi fundið fyrir þunglyndi og stundum einmannaleika því hann hefði ríka þörf fyrir að vera í tengslum við fólk. „Það var myrkrið og skorturinn á félagslífi sem mér fannst erfiður“ sagði hann og bætti því við að þegar hann var að vinna langan vinnudag þá gat hann með illu móti hringt heim vegna tímamismunar.  Svo var það í janúar s.l.  að hann tók þá ákvörðun að læra íslensku til þess að geta verið meiri þátttakandi í samfélaginu.  Hann hafði áður náð sér í forrit í símann sinn sem hjálpaði honum að snara einni og einni setningu yfir á íslensku og segir greinarhöfundi stoltur að hann hafi pantað sér samloku á flugvellinum á Egilsstöðum, á íslensku!  Hann keypti sér kennslubækur í íslensku og lá í þeim á kvöldin.  „Ég lærði í 4 klukkutíma á kvöldin og þegar ég kom í vinnu næsta morgun og reyndi að segja eitthvað á íslensku, skildi mig enginn“ rifjar hann hlæjandi upp.  „En svo kom kona sem heitir Ása og bauð mér að lána mér barnabækur til að reyna að lesa.  Og svo bauð hún mér heim til sín til að hjálpa mér að stauta í gegn um bækurnar.  Hún hjálpaði mér mjög mikið og ég er henni mjög þakklátur“ segir Ernest.  Nú fer þessi ungi maður á Reyðarfjörð á íslenskunámskeið og hann vakti aðdáun greinarhöfundar með kunnáttu sinni.  Hann talar mjög skiljanlega íslensku og skrifar meira að segja líka.  „Núna reyni ég að bjarga mér allstaðar á íslensku“ segir Ernest  og bætir við: „um daginn fór ég í bankann og talaði bara íslensku og svo í vinnunni næsta morgun sagði ein kona við mig, varstu bara að tala íslensku í bankanum í gær, og ég var alveg steinhissa á því hvernig hún gæti vitað það en komst svo að því að hún þekkti einhvern sem var þar staddur á sama tíma og ég“  segir hann og skellihlær.  Þá berst talið að því hvernig það sé að búa í litlu samfélagi og það samfélagi sem er ólíkt því sem menn eru vanir. „Ég ætlaði aldrei að ná því að hér er engin stefnumótamenning, ég skildi ekkert í því að engin af þeim ungu konum sem ég bauð á stefnumót virtust  skilja hvað ég var að bjóða“ og enn hlær Ernest.

„Allt breyttist svo í vor“ segir Ernest,“ þá var ég farinn að kynnast fólki, mér er boðið í heimahús, ég fer í líkamsræktarstöðina og svo fer ég stundum uppá skólavöll að spila fótbolta við krakkana þar og það er alveg ótrúlegt hvað ungir krakkar hér kunna í ensku“  segir Ernest hissa.

En hver eru framtíðaráform þessa unga manns? „Jú ætli það sé ekki bara eins og hjá flestum, eignast heimili og fjölskyldu og festa rætur einhversstaðar.  Það er svo sem ekkert sem bendir til þess að ég flytji heim aftur nema ástandið þar breytist til batnaðar.  Þar eru lág laun og erfitt að ná endum saman en hér næ ég að safna peningum til þess að ferðast svolítið“.

Spjall okkar Ernestas fór fram á fallegu haustkvöldi, við hittumst á kaffihúsi, fengum okkur drykk og áttum notalega stund.  Það mætti alveg kalla það stefnumót.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa á fiskmarkað á Dalvík. Aflinn eru um 40 tonn. Búið er með 115 togstöðvar af 179 í Haustralli Hafrannsóknarstofnunar. Brottför aftur á Sunnudag 22. október.

Sandfell

Sandfell er nú að landa í Frystihús LVF á Fáskrúðsfirði. Aflinn er um 12,6 tonn þar af 12,2 tonn þorskur.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 390 tonnum af síld til söltunar. Vinnusluafköst í landi ráða ferðinni og dreifist löndunin því á tvo daga.