Ernestas Lūža

„Ég er hinn frálsi förusveinn á ferð með staf og mal“.  Þessi hending úr dægurlagatexta kom í huga greinarhöfundar þegar hún sat að spjalli við ungan mann frá Litháen sem starfar hjá Loðnuvinnslunni.  Þessi ungi maður heitir Ernestas Lūža og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann dvalið víða um heiminn.

„Ég er fæddur og uppalinn í litlum bæ í vestur Litháen, þar búa ekki nema um 20 þúsund íbúar og þykir það lítill bær í mínu heimalandi“, sagði Ernest, eins og hann bauð greinarhöfundi að kalla sig enda væri það alþjóðlegt nafn og færi betur í munni flestra heldur en fullt nafnið hans.  Ernest stundaði nám í sínum heimabæ og í menntaskóla bauðst honum að taka þátt í Erasmus verkefni, en það eru verkefni sem styrkt eru af Evrópusambandinu og lítur að mennta-, æskulýðs- og íþróttamálum ungmenna.  Í gegnum slíkt samstaf dvaldi hann í Portúgal í sex mánuði.  Því næst lá leiðin til Englands þar sem Ernest vann í eitt ár. “Það var mjög gott að vera í Englandi til að byrja með, en svo kom Brexit og þá breyttist margt, það varð erfitt að vera útlendingur“.

Ernest hefur alltaf haft áhuga á tungumálum.  Auk móðurmálsins talar hann reiprennandi ensku, og skilur og talar svolítið í þýsku og rússnensku og er núna á fullu að læra íslensku.  „Ég átti frænda sem bjó í Kanada og hann kom stundum í heimsókn og þá spjallaði ég við hann á ensku.  Hann hrósaði mér fyrir hvað ég var duglegur að tala svo ég kepptist við að læra enskuna til að kunna meira þegar hann kæmi næst“ sagði þessi geðþekki ungi maður brosandi.

Hvernig datt þér í hug að koma til Fáskrúðsfjarðar og fara að læra íslensku?  Því svaraði Ernest á þann veg að hann hefði vitað af þessum bæ síðan hann var lítill drengur en þannig vill til að besti vinur hans frá því í barnæsku kom hingað á hverju sumri til þess að heimsækja föður sinn sem ennþá býr hér á Fáskrúðsfirði. „Ég man hvað ég öfundaði hann af því að fá að fara til Íslands aftur og aftur“ sagði hann.  Og svo fyrir rúmu ári síðan þegar Ernest fann að dvölin í landi Bretadrottningar stóð ekki lengur undir væntingum ákvað hann að skella sér til Íslands.  Hann fékk vinnu hjá Loðnuvinnslunni og keypti sér far með flugi frá London til Reykjavíkur og þaðan í Egilsstaði.  Hann kannast nú alveg við það að viðbrigðin hafi verið töluverð frá London.  „Þegar ég kom var svartamyrkur svo að ég sá nú ekki alveg hversu lítill bærinn var, en svo rann upp fyrir mér ljós og þá fékk ég nú svolítið sjokk.  Engin verslunarmiðstöð, engin bar og nánast engin umferð, hvorki af bílum né gangndi vegfarendum.  En mér hefur nú samt tekist að villast hér“ segir hann hlæjandi.  Ernest segir að sér hafi verið vel tekið í vinnunni, fólk sé kurteist og hjálpsamt.  „Ég hef verið beðinn um að kenna nýjum starfsmönnum handtökin og það er fínt, en ég gæti alveg þegið pínu meiri ábyrgð“ segir þessi ungi maður sem hefur heilbrigðan metnað í starfi.

Síðastliðin vetur var oft erfiður segir hann og bætir því við að hann hafi fundið fyrir þunglyndi og stundum einmannaleika því hann hefði ríka þörf fyrir að vera í tengslum við fólk. „Það var myrkrið og skorturinn á félagslífi sem mér fannst erfiður“ sagði hann og bætti því við að þegar hann var að vinna langan vinnudag þá gat hann með illu móti hringt heim vegna tímamismunar.  Svo var það í janúar s.l.  að hann tók þá ákvörðun að læra íslensku til þess að geta verið meiri þátttakandi í samfélaginu.  Hann hafði áður náð sér í forrit í símann sinn sem hjálpaði honum að snara einni og einni setningu yfir á íslensku og segir greinarhöfundi stoltur að hann hafi pantað sér samloku á flugvellinum á Egilsstöðum, á íslensku!  Hann keypti sér kennslubækur í íslensku og lá í þeim á kvöldin.  „Ég lærði í 4 klukkutíma á kvöldin og þegar ég kom í vinnu næsta morgun og reyndi að segja eitthvað á íslensku, skildi mig enginn“ rifjar hann hlæjandi upp.  „En svo kom kona sem heitir Ása og bauð mér að lána mér barnabækur til að reyna að lesa.  Og svo bauð hún mér heim til sín til að hjálpa mér að stauta í gegn um bækurnar.  Hún hjálpaði mér mjög mikið og ég er henni mjög þakklátur“ segir Ernest.  Nú fer þessi ungi maður á Reyðarfjörð á íslenskunámskeið og hann vakti aðdáun greinarhöfundar með kunnáttu sinni.  Hann talar mjög skiljanlega íslensku og skrifar meira að segja líka.  „Núna reyni ég að bjarga mér allstaðar á íslensku“ segir Ernest  og bætir við: „um daginn fór ég í bankann og talaði bara íslensku og svo í vinnunni næsta morgun sagði ein kona við mig, varstu bara að tala íslensku í bankanum í gær, og ég var alveg steinhissa á því hvernig hún gæti vitað það en komst svo að því að hún þekkti einhvern sem var þar staddur á sama tíma og ég“  segir hann og skellihlær.  Þá berst talið að því hvernig það sé að búa í litlu samfélagi og það samfélagi sem er ólíkt því sem menn eru vanir. „Ég ætlaði aldrei að ná því að hér er engin stefnumótamenning, ég skildi ekkert í því að engin af þeim ungu konum sem ég bauð á stefnumót virtust  skilja hvað ég var að bjóða“ og enn hlær Ernest.

„Allt breyttist svo í vor“ segir Ernest,“ þá var ég farinn að kynnast fólki, mér er boðið í heimahús, ég fer í líkamsræktarstöðina og svo fer ég stundum uppá skólavöll að spila fótbolta við krakkana þar og það er alveg ótrúlegt hvað ungir krakkar hér kunna í ensku“  segir Ernest hissa.

En hver eru framtíðaráform þessa unga manns? „Jú ætli það sé ekki bara eins og hjá flestum, eignast heimili og fjölskyldu og festa rætur einhversstaðar.  Það er svo sem ekkert sem bendir til þess að ég flytji heim aftur nema ástandið þar breytist til batnaðar.  Þar eru lág laun og erfitt að ná endum saman en hér næ ég að safna peningum til þess að ferðast svolítið“.

Spjall okkar Ernestas fór fram á fallegu haustkvöldi, við hittumst á kaffihúsi, fengum okkur drykk og áttum notalega stund.  Það mætti alveg kalla það stefnumót.

BÓA