Anton Fernández

Í lágreistu húsi við sjávarsíðuna er rafmagnsverkstæði Loðnuvinnslunnar til húsa.  Líkt og svo mörg önnur hús á þetta tiltekna hús sér sögu sem rétt er að minnast aðeins á.  Í eitt sinn var þarna starfrækt sláturhús og greinarhöfundur man vel eftir þeim tíma þegar slátrun á búfé var þar í fullum gangi og stúlkur og drengir bæjarins gátu komið þar við og fengið gefins lappir af sauðfé, sem síðan voru fláðar og húðin þurrkuð á spýtum hér og þar og síðan notuð sem mottur í barbie-leik.  Þá bjuggu í húsinu um tíma ungar konur sem komu til Fáskrúðsfjarðar til þess að vinna í frystihúsinu. Tilheyrðu þær hópi ungra kvenna af erlendu bergi sem gengu, og ganga jafnvel enn, undir samheitinu Ástölsku stelpurnar.   En í dag er þarna rafmagnsverkstæði með tvo fasta starfsmenn.

Antonio Fernández Martinez er verkstjóri á rafmagnsverkstæðinu.  Hann er spænskur að uppruna en hefur dvalið á Íslandi meiripart ævinnar.  Hann hefur aðlagað sig að íslensku lífi og er í dag Íslendingur, hefur sinn ríkisborgararétt og talar óaðfinnanlega íslensku.  Hann hefur aðlagað nafnið sitt og kallar sig Anton Fernández og er oftast kallaður Toni.

Hjá Loðnuvinnslunni hefur verið mikið um uppbyggingu og breytingar ýmiskonar sem kalla á rafmagn þannig að nóg hefur verið um verkefnin hjá starfsmönnum rafmagnsverkstæðisins.  Svo mikið að oftast er einn eða fleiri rafmagnsverktakar í vinnu sem Toni verkstjóri þarf að hafa umsjón með en hann vinnu líka verkin sjálfur.

Toni er fæddur í litlu þorpi en flutti ungur með foreldrum sínum og systkinum til Valencia og þar er hann uppalinn.  Hann gekk þar í skóla og sleit barnskónum í þessu heita suðræna landi og því liggur það beinast við að inna Tona eftir því hvernig honum hafi dottið í hug að koma til Íslands?

“Þegar ég var sextán ára gamall bauðst mér að fara í þriggja vikna ferð til Noregs með íslenskum vini mínum og foreldrum hans, en þegar við höfðum dvalið í tvær vikur í Noregi ákváðu þau að fara til Íslands og ég ákvað bara að skella mér með. Slá tvær flugur í einu höggi, sjá bæði Noreg og Ísland í sömu ferð”.   Foreldrar Tona heima á Spáni gáfu leyfi til fararinnar því að hann var jú að ferðast með fullorðnu fólki.  En þegar hingað á landið bláa kom, þá kom upp sú staða að Toni þurfti að vinna sér inn peninga til þess að kaupa sér far aftur heim.  Hann fór að vinna í Ísbirninum. Frystihúsi í Reykjavík sem Bubbi Morthens gerði ódauðlegt með lagi sínu Ísbjarnablús.  Svo vann Toni um tíma í Álafoss en réð sig síðan, með hinum íslenska vini sínum, á bát frá Þingeyri sem hét Litla Framnes, 150 tonna línubátur sem gerður var út af Kaupfélagi Dýrfirðinga.  Og í þessu samhengi er svo sannarlega hægt að segja að enginn veit hvert  vegurinn liggur, því þarna var hinn sextán ára gamli spænski drengur kominn á sjó við strendur Íslands um hávetur.  “Ég var bæði sjóhræddur og sjóveikur” sagði Toni.  “Þeir sóttu sjóinn mjög stíft þarna fyrir vestan, þeir veigruðu sér ekki við að fara til sjós þó svo að manni þætti brjálað veður og ölduhæðin næði mörgum metrum.” Toni réri á Litla Framnesinu tvær vertíðir og segir frá því að það hafi oft verið mikið fjör.  Þegar dvalið var í landi var líf og fjö.  Á vestfjörðum voru líka ungar konur frá útlöndum í fiskvinnslu og strax þá fékk Toni að kynnast mikilli vinnu sem löngum hefur tíðkast hjá hinni íslensku þjóð. “Þetta var hörku vinna” sagði Toni “og maður mótaðist af þessu”.

En hvernig leist foreldrum þínum á það að þú værir farinn að vinna til sjós á Íslandi löngu fyrir tvítugs aldur?  “Þeim leist ekkert á það” svaraði Toni, “ég er yngstur af mínum systkinum og þau vildu bara fá litla drenginn sinn heim” bætti hann við og brosti angurvær við minninguna.

Árið 1979 réð Toni sig til starfa á Pólarsíld.  Þar réri hann á bát sem hét Guðmundur Kristinn.  Á Pólarsíld kynntist hann ungri konu, Önnu Karen Hjaltadóttur,  og framtíðin var ráðin.  Þau bjuggu sér heimili og eignuðust þrjú börn sem í dag eru orðin fullorðin og barnabörnin eru tvö.  Fljótlega eftir komuna til Fáskrúðsfjarðar fór Toni að leysa af á togurunum Ljósafelli og Hoffelli, og komst síðan í fast pláss á Ljósafelli og var þar háseti í mörg ár.  En eftir því sem börnum þeirra hjóna fjölgaði langaði hann að vera meira heima við. Taka meiri þátt í uppeldi og lífi barna sinna og tók þá ákvörðun að skella sér í iðnnám.  Hann fór í Verkmenntaskólann í Neskaupsstað og lauk þaðan sveinsprófi í rafvikjun og bætti svo við sig meistaranámi.  Hinn spænskættaði  Antonio valdi sér leið í lífinu sem er algeng á Íslandi, fara að vinna á unga aldri, mennta sig svo þegar lífssólin er komin ofurlítið hærra á loft.  Ef hann hefði dvalið áfram í sínu heimalandi hefði lífið vafalaust orðið öðruvísi.  “En ekki betra” segir Toni, “ég er mjög ánægður með líf mitt hér, rætur barna minna eru hér, ég á mjög góða fjölskyldu, ég hefði ekki getað verið heppnari.  Ég væri sáttur ef ég yrði kallaður á morgun” segir hann og leggur áherslu á orð sín.

Toni hefur, eins og áður sagði, íslenskt ríkisfang, hann segist hugsa á íslensku en hann haldi spænskunni vel við.  Sér í lagi eftir að internetið kom.  “Ég er fréttasjúkur” segir hann, “fyrst horfi ég á fréttirnar á Stöð2, síðan á RUV, og eftir það þarf ég að kíkja á spænsku fréttirnar.  Ég er að fylgst með því hvað þeir ætla að gera í Kataloniu” segir hann og bætir því við að þessi fréttasýki geti gert konuna hans pirraða en það er greinilega ekki alvarlegt því hann hlær dillandi hlátri  þegar hann segir frá því.  “Ég er meiri Íslendingur en Spánverji” segir Toni enda búinn að búa hér á landi í 42 ár.  “Við hjónin vinnum mikið, eins og algengt er hér á landi, við erum enn í gamla tímanum”.  Hann segir að lífið hjá þeim hjónum sé þannig að þau vinna langan vinnudag og fari svo heim í náttfötin og hafi það huggulegt.  “Hún Anna mín getur ekki staðið kyrr í sömu sporunum í 10 mínútur svo að hún segir já ef hún er beðin að vinna”.  En svo taka þau sér góð frí og ferðast um landið og til útlanda.  Þau hitta börnin sín og barnabörn.  Þau heimsækja fólkið hans Tona á Spáni reglulega og eru í góðu sambandi við fjölskylduna sína þar.

Toni hefur lífssýn sem heillaði greinarhöfund afar mikið.  Hann vill gjarnan ferðast um og skoða sem mest af tilverunni og upplifa sem mest.  Hann segir frá því þegar eldgosið var á Fimmvörðuhálsi fyrir nokkrum árum síðan, hafi hann splæst á sig að fara í þyrluflug yfir gosið.  Þyrlan lenti síðan í grendinni svo að Toni gat bæði heyrt og séð gosið í návígi.  “Ég bauð syni mínum með mér og þetta var ótrúleg upplifun.  Það er alls óvíst að ég hafi tækifæri til að komast svona nálægt eldgosi aftur í lífinu.  Þetta kostaði svolitla peninga en vel þess virði”  sagði hann og bætti síðan við þessum þýðingarmiklu orðum “við lifum eitt augnablik”.

Toni og Anna Karen tóku uppá því fyrir nokkrum árum síðan að skella sér í skíðaferð til Ítalíu. Flestir gera ráð fyrir að ef fólk fer í slíka ferð séu það vant skíðafólk en sú var aldeilis ekki raunin í þeirra tilfelli.  Þau langaði bara að læra á skíði og gera það á skemmtilegan hátt.  “Anna mín fór á námskeið og skíðar núna mjög vel en ég vildi læra sjálfur” segir Toni, “ég hef gaman af því að hreyfa mig og skellti mér bara í djúpu laugina” bætir hann við og segir greinarhöfundi frá þessum dásamlega stað í Ítölsku ölpunum  þar sem hægt er að eiga góð frí hvort heldur menn skíða eður ei.

Í kaffihorninu hjá strákunum á rafmagnsverkstæðinu var hlýtt og notalegt. En önnum kafinn maður eins og Toni gat ekki setið að spjalli lengi, verkefnin þurftu á hans athygli að halda.  Því gengum við samferða út og kvöddumst þar.  Og á leið heim fann greinarhöfundur að þessi setning sat í kollinum: “við lifum í eitt augnablik” og í stóra samhenginu er það sjálfsagt alveg rétt og því réttast að njóta hvers dags og fagna hverjum nýjum degi.

BÓA