Frábær mars mánuður hjá Sandfelli og Hafrafelli.
Frábær mars mánuður þrátt fyrir vont veður, Sandfell og Hafrafell með samtals 476 tonn. Sandfell með 264 tonn og Hafrafell með 212 tonn.
Hér má sjá lista nr. 5 skv. aflafréttum.
Sæti | áður | Nafn | Heildarafli | Róðrar | Mesti afli | Höfn |
1 | 1 | Sandfell SU 75 | 263.7 | 21 | 22.1 | Grindavík, Sandgerði |
2 | 2 | Indriði Kristins BA 751 | 230.7 | 16 | 24.3 | Grindavík, Tálknafjörður, Akranes, Hafnarfjörður, Sandgerði |
3 | 3 | Vésteinn GK 88 | 217.7 | 17 | 20.6 | Grindavík, Þorlákshöfn |
4 | 4 | Hafrafell SU 65 | 211.6 | 21 | 21.8 | Grindavík, Sandgerði |
5 | 6 | Tryggvi Eðvarðs SH 2 | 205.5 | 14 | 26.0 | Grindavík, Ólafsvík, Akranes, Hafnarfjörður, Sandgerði |
6 | 5 | Kristján HF 100 | 201.8 | 19 | 19.5 | Grindavík, Sandgerði, Hafnarfjörður |
7 | 7 | Auður Vésteins SU 88 | 191.0 | 19 | 19.7 | Grindavík, Sandgerði, Hafnarfjörður, Þorlákshöfn |
8 | 9 | Gísli Súrsson GK 8 | 156.1 | 17 | 18.0 | Grindavík, Ólafsvík, Sandgerði, Þorlákshöfn |
9 | 11 | Óli á Stað GK 99 | 149.1 | 16 | 14.4 | Grindavík, Sandgerði |
10 | 10 | Jónína Brynja ÍS 55 | 148.8 | 19 | 14.6 | Bolungarvík |
11 | 8 | Hamar SH 224 | 145.7 | 6 | 41.6 | Rif |
12 | 13 | Fríða Dagmar ÍS 103 | 139.7 | 17 | 14.7 | Bolungarvík |
13 | 12 | Einar Guðnason ÍS 303 | 124.8 | 12 | 21.0 | Suðureyri |
14 | 14 | Kristinn HU 812 | 122.4 | 17 | 17.9 | Arnarstapi, Ólafsvík |
15 | 16 | Háey I ÞH 295 | 116.4 | 10 | 26.3 | Grindavík, Rif |
16 | 15 | Hulda GK 17 | 96.5 | 13 | 15.4 | Grindavík, Sandgerði |
17 | 17 | Særif SH 25 | 88.4 | 12 | 18.1 | Rif, Arnarstapi |
18 | 19 | Bíldsey SH 65 | 84.6 | 6 | 22.7 | Grindavík, Sandgerði |
19 | 18 | Stakkhamar SH 220 | 72.2 | 8 | 16.7 | Arnarstapi, Rif |
20 | 22 | Gullhólmi SH 201 | 55.8 | 5 | 18.3 | Grindavík, Rif, Sandgerði |
Frysting á loðnu og tengdum afurðum
Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á frystihúsi Loðnuvinnslunnar sem staðsett er húsi sem gengur undir nafninu Fram og er við Hafnargötu á Fáskrúðsfirði. Þar eru frystar afurðir af uppsjávarskipum eins og loðna, síld, makríll og síðast en ekki síst loðnuhrogn.
Komið hefur verið fyrir nýjum frystitækjum og húsið allt lagað og endurbætt.
Samkvæmt Þorra Magnússyni framleiðslustjóra var mikil og góð undirbúningsvinna á haustmánuðum til þess að allt gekk með miklum ágætum.
“Þegar við ýttum á græna takkann fór allt í gang” sagði Þorri og hrósaði á hásterti bæði iðnaðarmönnum sem og starfsfólki LVF og sagði að það hefði allt staðið sig með prýði.
Vinnsla á heilfrystri loðnu gekk vel og voru fryst 2.800 tonn. Stór markaður fyrir heilfrysta loðnu hefur verið í Úkraníu, en eðli málsins samkvæmt hefur myndast skarð í þann markað. Vonandi er það tímabundið fyrir það góða fólk sem þar býr.
Þegar Þorri var spurður út í gengi á hrogna vinnslunni svaraði hann:
“Vinnsla á hrognum gekk hreint frábærlega bæði til sjós og lands og megum við vera stolt af okkar fólki þar bæði þjónustudeildum, vinnslufólki og sjómönnum sem gerði enn og aftur hreint frábæra hluti sem víða er tekið eftir”.
2.751 tonn af loðnuhrognum voru fryst hjá Loðnuvinnslunni og þykir það gott miðað við magn veiðiheimilda og sem hlutfall af heildarframleiðslu í landinu en sú framleiðsla var 11.200 tonn.
Hráefnið kom frá Hoffelli, auk 10.000 tonna af loðnu til hrognatöku frá þremur skipum frá Götu í Færeyjum.
Um er að ræða mjög góða markaðsvöru enda þykja loðnuhrogn herramanns matur víða um heim.
Næst verður það makrílvertíð, og segir Þorri að undirbúningur hennar sé kominn á fullt skrið. “Við hlökkum bara til” sagði framleiðslustjórinn að lokum.
BÓA
Ingimar Óskarsson ráðinn sem verkstjóri í vélsmiðjunni.
Ingimar Óskarsson hefur verið ráðinn til starfa sem verkstjóri í vélsmiðju Loðnuvinnslunnar.
Ingimar hefur nú þegar starfað í vélsmiðjunni í u.þ.b. 10 ár þar sem hann hefur komið að viðgerðum, nýsmíði og viðhaldi tækja og þar af síðust 7 ár leyst Ingólf af þegar hann hefur farið í frí. Síðustu ár hefur hann lagt stund á nám í vélvirkjun samhliða starfi.
Ingimar tekur við starfinu 1. júní nk.
Loðnuvinnslan óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.
Skipstjórinn og snjósleðinn
Hjálmar Sigurjónsson er skipstjóri á Ljósafelli SU 70. En það er ekki það eina sem hann er. Hann er líka eiginmaður, faðir, afi, sonur, bróðir, vinur og einstaklingur sem hefur gaman af allskyns sporti og þar á meðal snjósleðasporti. Hann hefur farið um allar koppagrundir á sleðanum sínum og er alls engin byrjandi í því sporti, hér er vanur maður á ferð.
Þann 4.mars s.l, sem var föstudagur, var veður og skyggni með miklum ágætum. Ljósafellið hafði komið í land kl. 6 þennan morguninn og átti að fara út aftur eftir hádegi næsta dag. Svo hann hafði tíma og tækifæri til þess að skemmta sér svolítið. Hann kíkti inná á spjallþráð snjósleðaáhugafólk hér á Fáskrúðsfirði til að athuga hvort að einhver væri að fara í sleðaferð en á þeim tímapunkti var engin á þeim buxunum svo að hann ákvað að fara sjálfur á gamalkunnar slóðir. Hann skellti á sig hlífðarbúnaðinum, hlífar og hjálmur og allar græjur. Síðan ók Hjálmar sem leið lá upp á Engihjalla, kíkti niður í Gilsárdalinn og ók upp að Guðrúnarskörðum. Land var snævi þakið og hægt að aka snjósleðanum um allt. Færið var nokkuð gott, púðursnjór og harðnaður snjór sitt á hvað sem var gott fyrir sleðann hans Hjálmars því sá kælir sig með púðursnjónum sem hann skvettir undir sig. Þá datt Hjálmari í hug að athuga hvort að hann kæmist upp á Hoffell. Hann hafði farið þar upp oft áður, t.a.m. hafði hann farið upp á Hoffell fjórum sinnum í sömu vikunni fyrir einhverju síðan. Leiðin sem sleðafólk velur upp á Hoffell er sú sama og göngufólk velur, upp Sauðdalinn sem gengur upp frá bænum Hólagerði og þar áfram upp Eyrarskarð. Hjálmar valdi leiðina af kostgæfni. Hann stoppaði sleðann og tók stöðuna og mat það þannig að hann ætti að komast þessa leið. Það gekk vel framan af og hann var kominn nánast alla leið upp þegar gripið minnkaði og Hjálmar tók á það ráð að spóla hann niður því ferðin var of lítil til þess að geta snúið við með öruggum hætti. „Þetta var nú leiðinlega bratt“ sagði Hjálmar þegar hann var að lýsa aðstæðum. Hann hóf að moka frá sleðanum með höndunum, því enga hafði hann skófluna, og fór síðan að bauka við að snúa sleðanum. „Ég ætlaði nú ekkert að taka séns með því að setjast á sleðann, svo ég hálf hékk í honum þegar ég var að mjaka honum af stað“ lýsti Hjálmar. Hann fann að sleðinn var að losna og ákveður að láta hann fara, reynir að stilla stýrið þannig af að sleðinn renni niður á sléttu sem var nokkuð fyrir neðan, sleðinn myndi stoppa þar, sem hann og gerði.
En þegar sleðinn var laus spyrnti Hjálmar sér frá til þess að forðast það að lenda undir honum og „þá lendi ég á leiðinlegum stað, á harðfenni og missi þar fótanna og renn af stað“ sagði Hjálmar. Hann segir frá því hvernig hann rennur stjórnlaust áfram, um 30 til 40 metra og lendir á klettanibbu sem stóð upp úr snjónum og þar brotnar á honum hægri fóturinn. En hann stöðvast ekki þar heldur rennur áfram á miklum hraða ca. 200 til 300 metra þar til hann stöðvast að lokum. Hjálmar vissi að hann var fótbrotinn, það fór ekkert á milli mála þegar hann lenti á klettinum. Þegar hann var loksins stopp sá hann að fóturinn var allur úr lagi genginn. „Hann snéri eiginlega öfugt og ég var alls ekki viss í hvora áttina ég átti að snúa honum til þess að hann væri réttur, en ég rambaði á það“ sagði Hjálmar, sem talar um slysið af mikilli yfirvegun og raunsæi. Til allrar hamingju var símasamband og síminn hans óskaddaður svo hann gat hringt í neyðarlínuna 112.
„Ég var aðeins pirraður við konuna á neyðarlínunni. Hún sagði mér að hún gæti séð hvar síminn minn var staddur svo hún var með staðsetningu, en hún fór að vesenast með að fá nákvæma lýsingu á á staðháttum og svo framvegis. Svo ég sagði henni að segja björgunarfólkinu að ég væri á gönguleiðinni upp á Hoffell, þangað rötuðu þeir sem kæmu eftir mér“, svo bætti hann við: „ég má bara ekki vera að þessu masi, ég þarf að fara að stoppa blæðingu“. Blæðingin var allveruleg, því að fóturinn hékk aðeins saman á nokkrum tægjum af holdi, sinum og æðum. Hann var með snjóflóðavarnarpoka á bakinu og tók úr honum reimina og hnýtti henni fast utan um fótinn til að stöðva blæðinguna og beið svo eftir björguninni. „Og var ekki hræðilega erfitt að bíða?“ spurði greinarhöfundur og því svaraði Hjálmar snarlega: „nei, nei, það var svo mikið að gera í símanum“. Sjúkraflutningafólk, björgunarsveitarfólk og göngumaður á ferð voru að fylgjast með og athuga með hann. „Og þegar sjúkraflutningafólkið kom á staðinn var mér gefin sprauta sem gerði þetta allt bærilegra“ bætti Hjálmar við kíminn.
Á stundum eru örlög eða tilviljanir fólki hliðholl, jafnvel að því marki að skilja á milli lífs og dauða. Þennan örlagaríka dag í lífi Hjálmars skipstjóra var þyrla, sem er notuð í ferðaþjónustu, stödd á Eskifirði. Hjálmar segir svo frá: „mér var sagt að flugmaðurinn hefði lenti á Mjóeyri á Eskifirði, kannski að fá sér kaffi hjá Sævari Guðjónssyni, en Sævar segir við flugmanninn að hann þurfi að skreppa á þyrlunni yfir á Fáskrúðsfjörð og bjarga slösuðum manni niður úr fjalli“. Og flugmaðurinn gerði það. Þegar þyrlan kom á staðinn voru sjúkraflutningafólkið og björgunarsveitarfólkið að hlú að Hjálmari og koma honum og börur. Á meðan beið þyrlan. Þegar búið var að koma okkar manni fyrir í þyrlunni, sem er ekki hönnuð til þess að flytja sjúkrabörur og því var það nokkuð snúið að koma þeim fyrir , flaug hún með Hjálmar niður að Hólagerði þar sem sjúkrabíll beið sem ók honum í veg fyrir sjúkraflug til Akureyrar.
Á sjúkrahúsinu hefur Hjálmar nú þegar farið í þrjár aðgerðir. Sú fyrsta var aðeins til þess að púsla fætinum saman, þ,.e holdi, sinum og æðum. Ákveðið var að bíða með að raða beinum saman þar til sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum kæmi eftir helgina. Þá fór fram aðgerð tvö sem var til þess að laga rammann sem settur var á fótinn í fyrstu aðgerðinni og hafði það hlutverk að stilla fótinn af. Í aðgerð þrjú var fyrrnefndur rammi fjarlægður og beinin voru skrúfuð saman með allskonar járndóti, skrúfum, plötum og hólkum. Þá þurfti að taka beinflísar úr báðum mjöðmum til þess að nota í varahluti. „Ég kalla þetta minniháttar tilfærslu á líkamspörtum“ sagði Hjálmar og bætti svo við „við þetta mausuðu doxarnir í fimm og hálfa klukkustund“.
Og nú tekur við bataferli. Það verður langt og strangt en Hjálmar er bjartsýnn og réttsýnn. Hann veit að það er heilmikil vinna framundan, fyrst að leyfa fætinum að gróa, síðan af þjálfa hann til brúks á ný. Og læknar eru afar bjartsýnir á það að fóturinn geti orðið jafn góður aftur, sem er mikil mildi, því að Hjálmari er svo vel ljóst að það hefði getað farið svo miklu verr. Og sannarlega er hann þakklátur, og ekki bara hann, heldur fjölskyldan hans líka. Hann var heimtur úr helju með aðstoð fólks sem telur ekki eftir sér að fara lengri eða skemmri leiðir til þess að hjálpa fólki. Það eru góðar manneskjur.
BÓA
Fiskmjölsverksmiðjan
S.l haust sögðum við lesendum frá nýjum eimingartækjum í fiskmjölsverksmiðjunni. Eins og sagt var frá í þeirri grein þá hafa þau það hlutverk að eima upp soðið af fiskinum þannig að mjöl standi eftir. Er þessi útskýring á hlutverki þessara mikilvægu tækja sjálfsagt ekki fullnægjandi en verður látin duga hér.
Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar og aðspurður sagði hann að undangengin loðnuvertíð hefði gengið frábærlega og bætti því við að sennilega hefði aldrei gengið jafn snurðulaust að bræða á jafn langri vertíð.
„Og nýi eimingarbúnaðurinn er aldeilis búin að sanna ágæti sitt, það voru smá hnökrar í byrjun en eftir þá hnökra var það bara sæla“ sagði Magnús og var bara nokkuð sáttur.
Afar vel hefur gengið að framleiða mjöl og lýsi á undangenginni loðnuvertíð eða 6,867 tonn af mjöli og 3.259 tonn af lýsi. Er þetta yfir 80% af framleiddu magni síðasta árs.
Gera má úr því skóna að starfsfólk fiskmjölsverksmiðjunnar sé þreytt eftir vel heppnaða loðnuvertíð þar sem met voru slegin. Og nú er bara að fara undirbúa næstu vertíð, yfirfara tæki og tól svo að allt verði reiðubúið og sælan fái áfram að vera allsráðandi í brjósti verksmiðjustjórans Magnúsar Ásgrímssonar.
BÓA
Ljósafell kom inn í dag með 100 tonn til Þorlákshafnar.
Ljósafell kom inn í dag með 100 tonn til Þorlákshafnar, skipið landaði síðast fullfermi á sl. laugardag.
Aflinn var 40 tonn Utsi, 35 tonn Þorskur og 25 tonn Ýsa.
Ljósafell fer út aftur í fyrramálið.
Ljósafell kom inn til Þorlákshafnar í gær með fullfermi.
Ljósafell kom inn í gær til Þorlákshafnar með fullfermi rúm 100 tonn.
Aflinn var 40 tonn Þorskur, 30 tonn Utsi, 20 tonn Karfi og 10 tonn Ýsa og annar afli.
Skipið fór aftur út eftir löndun.
Mynd ; Þorgeir Baldursson.
Heimsókn frá Færeyjum
Vart hefur orðið góðra gesta hér á Fáskrúðsfirði síðast liðna tvo daga. Um er að ræða hóp af Færeyingum. Einn af skipuleggjendum heimsóknarinnar er Mortan Johannesen. Herramaður sem starfaði í áratugi sem sjómaður og var oft á sjó við strendur Íslands og kom að vonum oft í land líka og kynntist þá landi og þjóð.
Fyrir níu árum ákvað hann að skipuleggja ferð til Íslands sem var svo vel tekið að hann hefur gert það á hverju ári síðan og sífellt fer hópurinn sem ferðast með Mortan stækkandi. Í ár ferðuðust með honum 300 samlandar hans. „Við erum 300 núna og það voru 70 á biðlista. Næsta ár verðum við 400“ sagði Mortan á fallegri Færeysku sem auðvelt var að skilja .
Þau komu með Norrænu til Seyðisfjarðar og gista um boð í skipinu. Þau ferðast vítt og breitt um Austuland í tvo daga og halda svo heim aftur. Þegar Mortan var spurður að því hvers vegna þau hefðu valið að koma til Fáskrúðsfjarðar svaraði hann því til að það væri safnið um Franska sjómenn sem hefði upphaflega lokkað þau á staðinn. „Flestir samferðamenn mínir eru eða voru sjómenn“ svaraði Mortan, „svo að þetta safn um sögu samverkamanna okkar frá Frakklandi finnst okkur ómissandi á sjá“ bætti hann við. Svo lagði Mortan áherslu á hversu stórkostlega hefði verið tekið á móti hópnum hér á Fáskrúðsfirði. En auk þess að skoða safnið og fá leiðsögn um það hjá tápmikla safnverðinum Fjólu Þorsteinsdóttur, þá var Gallerí Kolfreyja heimsótt og svo síðast en ekki síst bauð Loðnuvinnslan upp á dýrindis fiskisúpu og hákarl auk guðaveiga af ýmsu tagi. „Þetta var topp súpa“ sagði Mortan „betri en í Færeyjum“ þegar hann var spurður út í súpuna. Þá vildi Mortan vita af hverju íslenskt Brennivín væri kallað Svarti dauði. Greinarhöfundur gat frætt gestina frá frændþjóðinni að það væri vegna svarta miðans á flöskunni. Þegar framleiðsla á Brennivíni hófst þótti yfirvöldum nauðsynlegt að reyna að sporna við áfengisdrykkju með því að hafa miðann á flöskunni eins óaðlaðandi og unnt væri. Gestirnir höfðu vonast eftir dramatískari ástæðu en létu gott heita.
Þegar hópurinn fór frá Fáskrúðsfirði var ferðinni heitið til Seyðisfjarðar þar sem að leggja átti blómsveig í kirkjugarðinn til minningar um Færeyska sjómenn sem liggja í votri gröf.
Mortan sagði að sér líkaði afar vel við Ísland og Íslendinga og sagði þá vera gestrisna mjög og bað fyrir bestu kveðjur og þakklæti til allra sem tóku svo vel á móti þeim.
Þegar fólk, fyrirtæki og félagasamtök taka höndum saman þá er hægt að koma svo miklu í verk og gera svo margt gott. Og að taka vel á móti frændum okkar frá Færeyjum fellur undir það og við hlökkum til að taka á móti hópnum hans Mortans á næsta ári. Öllum 400.
BÓA
Loðnuvertíð lokið hjá Hoffelli
Nú er loðnuvertíðinni lokið hjá Hoffelli. Ekki náðist að veiða upp í alla heimildina hjá Hoffelli frekar en öðrum loðnuskipum, aðallega vegna tíðarfarsins. Veður hafa verið vond undan farnar vikur, hver lægðin eftir annarri hafa gert landsmönnum lífið leitt og ekki síst hafa vondu veðrin látið á sér kræla á fiskimiðunum.
Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli var mátulega sáttur við undangengna vertíð og þá sér í lagi þá staðreynd að ná ekki öllum heimildunum. „Það hefði alveg mátt ganga betur“ sagði skipstjórinn en bætti því svo við að öllu öðru leiti hefði gengið vel og að hrognatakan hefði verið afbragð. Hoffell veiddi engu að síður tæp 20 þúsund tonn af loðnu sem gerir þennan fyrsta ársfjórðung þann besta frá upphafi í verðmætum talið, rúmlega 1 milljarður króna.
En Siggi skipstjóri er ekki að dvelja of lengi við það sem liðið er og er nú á fullu að undirbúa næstu vertíð og mun það vera kolmunni á vordögum. Það þarf að þrífa og þvo, gera og græja og það mun áhöfnin á Hoffelli gera næstu vikur.
„Hér eru allir við hestaheilsu og tilbúnir í næsta slag“ sagði Siggi þegar hann var inntur eftir því hvort að hann vildi segja eitthvað að lokum. Þá er bara að óska þess að áhöfnin á Hoffelli geti sungið „það hækkar í lest og hleðst mitt skip“ er skipið heldur til kolmunna veiða.
BÓA
Siðustu loðnulandanir á vertíðinni
Þróndur í Götu, Hoffell og Götunes komu í lok síðustu með samtals með 1.740 tonn til hrognatöku. Þróndur var með 630 tonn, Hoffell með 476 tonn og Götunes með 634 tonn.
Loðnuhrognavertíðin gekk vel á Fáskrúðsfirði og fryst voru samtals 2.750 tonn af hrognum hráefnið kom frá Hoffelli, Tróndi í Götu, Finni Frida og Götunesi. Við þökkum sjómönnum og starfsfólki landi fyrir frábær störf undanfarnar vikur. Einnig þökkum við gott samtarf við sjómenn á Götuskipunum frá Færeyjum.
Mynd/ Þorgeir Baldursson
Mynd/ Þorgeir Baldursson.
Mynd/ Loðnuvinnslan.
Ljósafell kemur inn kvöld til Þorlákshafnar með fullfermi.
Ljósafell kemur inn í kvöld til Þorlákshafnar með fullfermi eða rúm 100 tonn. Aflinn er 40 tonn Þorskur, 30 tonn Ufsi, 15 tonn Ýsa og 15 tonn Karfi. Þetta er önnur löndun Ljósafells í vikunni en skipið landaði rúmum 90 tonnum af blönduðum afla í Þorlákshöfn sl. miðvikudag.
Tróndur í Götu kom í gær með 1.300 tonn til hrognatöku.
Þróndur í Götu er að landa í dag til hrognatöku. Tróndur hefur þá landað til hrognatöku samtals rúmum 3.300 tonnum.