Fiskmjölsverksmiðjan

S.l haust sögðum við lesendum frá nýjum eimingartækjum í fiskmjölsverksmiðjunni. Eins og sagt var frá í þeirri grein þá hafa þau það hlutverk að eima upp soðið af fiskinum þannig að mjöl standi eftir. Er þessi útskýring á hlutverki þessara mikilvægu tækja sjálfsagt ekki fullnægjandi en verður látin duga hér.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar og aðspurður sagði hann að undangengin loðnuvertíð hefði gengið frábærlega og bætti því við að sennilega hefði aldrei gengið jafn snurðulaust að bræða á jafn langri vertíð.

„Og nýi eimingarbúnaðurinn er aldeilis búin að sanna ágæti sitt, það voru smá hnökrar í byrjun en eftir þá hnökra var það bara sæla“ sagði Magnús og var bara nokkuð sáttur.

Afar vel hefur gengið að framleiða mjöl og lýsi á undangenginni loðnuvertíð eða 6,867 tonn af mjöli og 3.259 tonn af lýsi. Er þetta yfir 80% af framleiddu magni síðasta árs. 

Gera má úr því skóna að starfsfólk fiskmjölsverksmiðjunnar sé þreytt eftir vel heppnaða loðnuvertíð þar sem met voru slegin. Og nú er bara að fara undirbúa næstu vertíð, yfirfara tæki og tól svo að allt verði reiðubúið og sælan fái áfram að vera allsráðandi í brjósti verksmiðjustjórans Magnúsar Ásgrímssonar.

 BÓA

Heimsókn frá Færeyjum

Vart hefur orðið góðra gesta hér á Fáskrúðsfirði síðast liðna tvo daga. Um er að ræða hóp af Færeyingum. Einn af skipuleggjendum heimsóknarinnar er Mortan Johannesen. Herramaður sem starfaði í áratugi sem sjómaður og var oft á sjó við strendur Íslands og kom að vonum oft í land líka og kynntist þá landi og þjóð.

Fyrir níu árum ákvað hann að skipuleggja ferð til Íslands sem var svo vel tekið að hann hefur gert það á hverju ári síðan og sífellt fer hópurinn sem ferðast með Mortan stækkandi. Í ár ferðuðust með honum 300 samlandar hans. „Við erum 300 núna og það voru 70 á biðlista. Næsta ár verðum við 400“ sagði Mortan á fallegri Færeysku sem auðvelt var að skilja .

Þau komu með Norrænu til Seyðisfjarðar og gista um boð í skipinu. Þau ferðast vítt og breitt um Austuland í tvo daga og halda svo heim aftur. Þegar Mortan var spurður að því hvers vegna þau hefðu valið að koma til Fáskrúðsfjarðar svaraði hann því til að það væri safnið um Franska sjómenn sem hefði upphaflega lokkað þau á staðinn. „Flestir samferðamenn mínir eru eða voru sjómenn“ svaraði Mortan, „svo að þetta safn um sögu samverkamanna okkar frá Frakklandi finnst okkur ómissandi á sjá“ bætti hann við.  Svo lagði Mortan áherslu á hversu stórkostlega hefði verið tekið á móti hópnum hér á Fáskrúðsfirði. En auk þess að skoða safnið og fá leiðsögn um það hjá  tápmikla safnverðinum Fjólu Þorsteinsdóttur, þá var Gallerí Kolfreyja heimsótt og svo síðast en ekki síst bauð Loðnuvinnslan upp á dýrindis fiskisúpu og  hákarl auk guðaveiga af ýmsu tagi.  „Þetta var topp súpa“ sagði Mortan „betri en í Færeyjum“  þegar hann var spurður út í súpuna. Þá vildi Mortan vita af hverju íslenskt Brennivín væri kallað Svarti dauði. Greinarhöfundur gat frætt gestina frá frændþjóðinni  að það væri vegna svarta miðans á flöskunni. Þegar framleiðsla á Brennivíni hófst þótti yfirvöldum nauðsynlegt að reyna að sporna við áfengisdrykkju með því að hafa miðann á flöskunni eins óaðlaðandi og unnt væri. Gestirnir höfðu vonast eftir dramatískari ástæðu en létu gott heita.

Þegar hópurinn fór frá Fáskrúðsfirði var ferðinni heitið til Seyðisfjarðar þar sem að leggja átti blómsveig í kirkjugarðinn til minningar um Færeyska sjómenn sem liggja í votri gröf.

Mortan sagði að sér líkaði afar vel við Ísland og Íslendinga og sagði þá vera gestrisna mjög og bað fyrir bestu kveðjur og þakklæti til allra sem tóku svo vel á móti þeim.

Þegar fólk, fyrirtæki og félagasamtök taka höndum saman þá er hægt að koma svo miklu í verk og gera svo margt gott. Og að taka vel á móti frændum okkar frá Færeyjum fellur undir það og við hlökkum til að taka á móti hópnum hans Mortans á næsta ári. Öllum 400.

BÓA

  
  
Hópurinn að skoða sig um
Gestirnir að gæða sér á fiskisúpu
Hluti af hópnum að taka lagið undir stjórn Fjólu Þorsteinsdóttur safnvarðar.

Loðnuvertíð lokið hjá Hoffelli

          Nú er loðnuvertíðinni lokið hjá Hoffelli. Ekki náðist að veiða upp í alla heimildina hjá Hoffelli frekar en öðrum loðnuskipum, aðallega vegna tíðarfarsins.  Veður hafa verið vond undan farnar vikur, hver lægðin eftir annarri hafa gert landsmönnum lífið leitt og ekki síst hafa vondu veðrin látið á sér kræla á fiskimiðunum.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli var mátulega sáttur við undangengna vertíð og þá sér í lagi þá staðreynd að ná ekki öllum heimildunum. „Það hefði alveg mátt ganga betur“ sagði skipstjórinn en bætti því svo við að öllu öðru leiti  hefði gengið vel og að hrognatakan hefði verið afbragð.  Hoffell veiddi engu að síður tæp 20 þúsund tonn af loðnu sem gerir þennan fyrsta ársfjórðung þann besta frá upphafi í verðmætum talið, rúmlega 1 milljarður króna.

 En Siggi skipstjóri er ekki að dvelja of lengi við það sem liðið er og er nú á fullu að undirbúa næstu vertíð og mun það vera kolmunni á vordögum. Það þarf að þrífa og þvo, gera og græja og það mun áhöfnin á Hoffelli gera næstu vikur.

„Hér eru allir við hestaheilsu og tilbúnir í næsta slag“ sagði Siggi þegar hann var inntur eftir því hvort að hann vildi segja eitthvað að lokum.  Þá er bara að óska þess að áhöfnin  á Hoffelli geti sungið „það hækkar í lest og hleðst mitt skip“ er skipið heldur til   kolmunna veiða.

BÓA

Siðustu loðnulandanir á vertíðinni

Þróndur í Götu, Hoffell og Götunes komu í lok síðustu með samtals með 1.740 tonn til hrognatöku.  Þróndur var með 630 tonn, Hoffell með 476 tonn og Götunes með 634 tonn.

Loðnuhrognavertíðin gekk vel á Fáskrúðsfirði og fryst voru samtals 2.750 tonn af hrognum hráefnið kom frá Hoffelli, Tróndi í Götu, Finni Frida og Götunesi.  Við þökkum sjómönnum og starfsfólki landi fyrir frábær störf undanfarnar vikur. Einnig þökkum við gott samtarf við sjómenn á Götuskipunum frá Færeyjum.

Mynd/ Þorgeir Baldursson

Mynd/ Þorgeir Baldursson.

Mynd/ Loðnuvinnslan.

Ljósafell kemur inn kvöld til Þorlákshafnar með fullfermi.

Ljósafell kemur inn í kvöld til Þorlákshafnar með fullfermi eða rúm 100 tonn.  Aflinn er 40 tonn Þorskur, 30 tonn Ufsi, 15 tonn Ýsa og 15 tonn Karfi.  Þetta er önnur löndun Ljósafells í vikunni en skipið landaði rúmum 90 tonnum af blönduðum afla í Þorlákshöfn sl. miðvikudag.