S.l haust sögðum við lesendum frá nýjum eimingartækjum í fiskmjölsverksmiðjunni. Eins og sagt var frá í þeirri grein þá hafa þau það hlutverk að eima upp soðið af fiskinum þannig að mjöl standi eftir. Er þessi útskýring á hlutverki þessara mikilvægu tækja sjálfsagt ekki fullnægjandi en verður látin duga hér.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar og aðspurður sagði hann að undangengin loðnuvertíð hefði gengið frábærlega og bætti því við að sennilega hefði aldrei gengið jafn snurðulaust að bræða á jafn langri vertíð.

„Og nýi eimingarbúnaðurinn er aldeilis búin að sanna ágæti sitt, það voru smá hnökrar í byrjun en eftir þá hnökra var það bara sæla“ sagði Magnús og var bara nokkuð sáttur.

Afar vel hefur gengið að framleiða mjöl og lýsi á undangenginni loðnuvertíð eða 6,867 tonn af mjöli og 3.259 tonn af lýsi. Er þetta yfir 80% af framleiddu magni síðasta árs. 

Gera má úr því skóna að starfsfólk fiskmjölsverksmiðjunnar sé þreytt eftir vel heppnaða loðnuvertíð þar sem met voru slegin. Og nú er bara að fara undirbúa næstu vertíð, yfirfara tæki og tól svo að allt verði reiðubúið og sælan fái áfram að vera allsráðandi í brjósti verksmiðjustjórans Magnúsar Ásgrímssonar.

 BÓA