Vart hefur orðið góðra gesta hér á Fáskrúðsfirði síðast liðna tvo daga. Um er að ræða hóp af Færeyingum. Einn af skipuleggjendum heimsóknarinnar er Mortan Johannesen. Herramaður sem starfaði í áratugi sem sjómaður og var oft á sjó við strendur Íslands og kom að vonum oft í land líka og kynntist þá landi og þjóð.

Fyrir níu árum ákvað hann að skipuleggja ferð til Íslands sem var svo vel tekið að hann hefur gert það á hverju ári síðan og sífellt fer hópurinn sem ferðast með Mortan stækkandi. Í ár ferðuðust með honum 300 samlandar hans. „Við erum 300 núna og það voru 70 á biðlista. Næsta ár verðum við 400“ sagði Mortan á fallegri Færeysku sem auðvelt var að skilja .

Þau komu með Norrænu til Seyðisfjarðar og gista um boð í skipinu. Þau ferðast vítt og breitt um Austuland í tvo daga og halda svo heim aftur. Þegar Mortan var spurður að því hvers vegna þau hefðu valið að koma til Fáskrúðsfjarðar svaraði hann því til að það væri safnið um Franska sjómenn sem hefði upphaflega lokkað þau á staðinn. „Flestir samferðamenn mínir eru eða voru sjómenn“ svaraði Mortan, „svo að þetta safn um sögu samverkamanna okkar frá Frakklandi finnst okkur ómissandi á sjá“ bætti hann við.  Svo lagði Mortan áherslu á hversu stórkostlega hefði verið tekið á móti hópnum hér á Fáskrúðsfirði. En auk þess að skoða safnið og fá leiðsögn um það hjá  tápmikla safnverðinum Fjólu Þorsteinsdóttur, þá var Gallerí Kolfreyja heimsótt og svo síðast en ekki síst bauð Loðnuvinnslan upp á dýrindis fiskisúpu og  hákarl auk guðaveiga af ýmsu tagi.  „Þetta var topp súpa“ sagði Mortan „betri en í Færeyjum“  þegar hann var spurður út í súpuna. Þá vildi Mortan vita af hverju íslenskt Brennivín væri kallað Svarti dauði. Greinarhöfundur gat frætt gestina frá frændþjóðinni  að það væri vegna svarta miðans á flöskunni. Þegar framleiðsla á Brennivíni hófst þótti yfirvöldum nauðsynlegt að reyna að sporna við áfengisdrykkju með því að hafa miðann á flöskunni eins óaðlaðandi og unnt væri. Gestirnir höfðu vonast eftir dramatískari ástæðu en létu gott heita.

Þegar hópurinn fór frá Fáskrúðsfirði var ferðinni heitið til Seyðisfjarðar þar sem að leggja átti blómsveig í kirkjugarðinn til minningar um Færeyska sjómenn sem liggja í votri gröf.

Mortan sagði að sér líkaði afar vel við Ísland og Íslendinga og sagði þá vera gestrisna mjög og bað fyrir bestu kveðjur og þakklæti til allra sem tóku svo vel á móti þeim.

Þegar fólk, fyrirtæki og félagasamtök taka höndum saman þá er hægt að koma svo miklu í verk og gera svo margt gott. Og að taka vel á móti frændum okkar frá Færeyjum fellur undir það og við hlökkum til að taka á móti hópnum hans Mortans á næsta ári. Öllum 400.

BÓA

  
  
Hópurinn að skoða sig um
Gestirnir að gæða sér á fiskisúpu
Hluti af hópnum að taka lagið undir stjórn Fjólu Þorsteinsdóttur safnvarðar.