Krunborg landar

Færeyski báturinn Krunborg kláraði að landa í nótt rúmum 2000 tonnum af kolmunna. Krunborgin er búin að landa rúmlega 14000 tonnum af kolmunna hjá Loðnuvinnlsunni í ár. Krúnborgin er 3ja ára gamalt skip mjög glæsilegt í eigu Eiler Jacobsen og fjöldskyldu hans í Torshavn. Eiler var mikill aflaskipstjóri hér áður fyrr og hefur átt mörg glæsileg og mikil aflaskip. Skipstjóri á Krunborg er Samual sonur Eilers og konu hans Bente.

100 þúsund tonna markinu náð.

Búið er að taka á móti 101 þúsund tonnum til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar. Er þetta í annað sinn sem tekið hefur verið á móti meira en 100 þúsund tonnum frá því að verksmiðjan var byggð 1995.



Ennþá er mikil kolmunnaveiði og er Hoffell að landa í fjórða sinn í ágúst, en reikna má með að kolmunninn fari að hreyfa sig í suður átt hvað úr hverju og haustbrælur að byrja og þá verði erfiðara að ná í hann en verið hefur undanfarið. En aðeins er búið að veiða rúmlega helming af úthlutuðum kolmunnakvóta.


Kolmunnalöndun

Ingunn AK landaði tæpum 2000 tonnum af kolmunna um helgina.

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga 70 ára

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er 70 ára í dag. Það var stofnað 6. ágúst 1933 á Fáskrúðsfirði. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur um dagana rekið umfangsmikla atvinnustarfsemi á Fáskrúðsfirði svo sem verslun, sláturhús og sölu landbúnaðarvara, fiskvinnslu, útgerð, fiskimjölsverksmiðju, vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði, trésmíðaverkstæði, umboð fyrir Olíufélagið h/f frá stofnun þess 1946 og umboð fyrir Samvinnutryggingar g/t fyrr á árum. Þá rak félagið um árabil Gistihúsið Valhöll, þar sem einnig var veitingarekstur. Frá 1. janúar 2002 hefur Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga verið rekið sem eignarhaldsfélag og er aðal eign þess 83,89% hlutafjár í Loðnuvinnslunni h/f á Fáskrúðsfirði, en til þess félags voru rekstrareiningar Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga fluttar. Um s.l. áramót voru félagsmenn í Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga 191 talsins. Afmælisins verður minnst laugardaginn 27. september n.k. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga ber aldurinn vel, en hagnaður þess fyrstu 6 mánuði ársins var kr. 40 millj. og eigið fé þess kr. 838 millj. sem er 92% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Arður og gengi hlutabréfa í LVF

Aðalfundur LVF sem haldinn var 29. mars 2003 samþykkti að greiða 5% arð til hluthafa vegna rekstrar ársins 2002. Bréf var sent út til hluthafa um að þeir gæfu upp bankareikning, þar sem mætti leggja inn arðinn. Enn eiga nokkrir hluthafar eftir að senda inn reikningsnúmer sín, svo að hægt sé að greiða þeim arðinn, og eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu LVF í síma 4705000 eða senda umbeðnar upplýsingar með tölvupósti til jonk@lvf.is

Nýlega fóru fram viðskipti með hlutabréf í LVF. Þá voru seld hlutabréf að nafnvirði kr. 9,2 millj. á genginu 3,54 eða fyrir kr. 32,6 millj.

Kolmunnalandanir

Hoffell landaði 999 tonnum af kolmunna þann 17/7 og 1160 tonnum 20/7. Hinn 19/7 lönduðu tvö erlend skip kolmunna. Færeyska skipið Júpiter landaði 847 tonnum og danska skipið Orkama 795 tonnum. Fiskimjölsverksmiðja LVF hefur nú tekið á móti 92000 tonnum af hráefni það sem af er árinu. Fyrirhugað er að verksmiðjan verði ekki í gangi um helgina á „Frönskum dögum“.

Norskir loðnubátar

Stöðug loðnulöndun hefur verið síðasta sólarhringinn. Þrír norskir bátar lágu við bryggju í góða veðrinu á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi. Þar var verið að landa úr Havglans, en Kvannöy og Talbor biðu löndunar. Þegar þeir verða búnir að landa er búið að taka á móti 7000 tonnum af sumarloðnu hjá LVF.

Loðnulandanir

Norski báturinn Rav landar 1000 tonnum af loðnu í dag, en fyrir helgina lönduðu 3 norskir bátar 700-800 tonnum hver.

50 þúsund tonn af kolmunna

Nú er búið að landa tæplega 50 þúsund tonnum af kolmunna á árinu og hefur fyrirtækið aldrei tekið á móti svo miklu magni. Ingunn AK er að landa í dag um 1800 tonnum af kolmunna.

Annir við höfnina

Miklar annir hafa verið við höfnina undanfarna daga bæði við kolmunnalandanir og útskipanir á afurðum. Í gær var skipað út 1300 tonnum af lýsi í eitt skip og svo komu tvö skip og tóku 2000 tonn af mjöli. Einnig var landað í gær úr Christían í Grótinum 1900 tonnum af kolmunna.

Tróndur í Götu

Tróndur í Götu er að landa 2600 tonnum af kolmunna sem fékkst 100 mílur austur af Fáskrúðsfirði en mikil veiði hefur verið undanfarna daga. Mikil ánægja ríkir hér eftir ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að auka kolmunnakvótann eins mikið og raun bar vitni.

Síldarlöndun

Grænlenska nótaskipið Siku landaði í nótt 1200 tonnum af síld og er þetta þriðji farmurinn af norsk-íslensku síldinni sem landað er hjá Loðnuvinnslunni. Megnið af síldinni hefur farið í bræðslu en þó var flakaður og saltaður hluti af afla Hoffells.