Hagnaður LVF 51 milljón króna



Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2004 nam kr. 51 millj. eftir skatta, en var kr. 129 millj. árið 2003.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2,2 milljarðar og lækkuðu um 17% miðað við árið 2003 vegna minni afla. Á síðasta ári bárust 93.600 tonn af sjávarafla til Loðnuvinnslunnar, en 128.000 tonn árið 2003, sem er mesti afli sem borist hefur til Fáskrúðsfjarðar á einu ári.

Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnað nam kr. 217 millj. sem er 10% af tekjum. Veltufé frá rekstri nam kr. 180 millj. sem er 8% af tekjum, en var 14% af tekjum árið 2003. Afskriftir voru kr. 220 millj. og lækkuðu um 47 millj. frá fyrra ári.

Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.486 millj., sem er 50% af niðurstöðu efnahagsreiknings, en var 48% árið 2003.

Nettó skuldir LVF voru í árslok kr. 1.043 millj. og hækkuðu um 97 millj. frá árinu á undan. Fjárfestingar félagsins námu kr. 346 millj.

Á launaskrá Loðnuvinnslunnar komu 350 manns á síðasta ári, en að jafnaði störfuðu þar 190 manns.

Hluthafar í árslok voru 223. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 84% hlutafjárins.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar verður haldinn á Hótel Bjargi föstudaginn 8. apríl n.k. og hefst kl. 18.30.


Líflegt við höfnina

Færeyska skipið Finnur Fríði FD 86 kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkvöldi með um 2300 tonn af loðnu og voru kreist hrogn úr farminum til frystingar. Strax á eftir Finni Fríða kom til löndunar skoska skipið Challenge FR 226 með um 1400 tonn af kolmunna og Hoffellið bíður löndunar með um 1300 tonn af loðnu. Loðnuveiðin hefur síðustu daga verið út af Breiðafirði og er um 400 mílna sigling til Fáskrúðsfjarðar af miðunum, en hins vegar er 650 mílna sigling til Fáskrúðsfjarðar af kolmunnamiðunum.

Fyrsti kolmunninn

Fyrsti kolmunnafarmurinn sem berst til Íslands á þessu ári kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun. Það var írska skipið Western Endeavour D 653 sem kom með 2100 tonn, sem skipið fékk vestur af Írlandi. Skipið var tvo og hálfan sólarhring að sigla af miðunum til Fáskrúðsfjarðar. Á myndinni sést Western Endeavour leggjast að bryggju í blíðunni á Fáskrúðsfirði í morgun.

Skrifstofumaður

Loðnuvinnslan h/f óskar eftir að ráða starfsmann til skrifstofustarfa. Starfið felst m.a. í að hafa umsjón með tölvuvinnslu og launaútreikningum. Góð tölvukunnátta er nauðsynleg og viðkomandi þarf að geta hafið störf í byrjun maí n.k.

Skriflegar umsóknir er greini aldur, menntun og fyrri störf sendist til Gísla Jónatanssonar, framkvæmdastjóra, sem gefur nánari upplýsingar.

Nýr verkstjóri

Björgvin Már Hansson hefur verið ráðinn verkstjóri hjá LVF í stað Ólafs Reynissonar. Björgvin Már er frá Stöðvarfirði, fæddur 12. ágúst 1974. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1995 og prófi frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði árið 2000. Hann hefur starfað sem verkstjóri hjá Skútuklöpp ehf á Stöðvarfirði frá 2001. Hann er í sambúð með Eyrúnu Maríu Elísdóttur og eiga þau dæturnar Mist og Heiðbrá.

Björgvin Már er boðinn velkominn til starfa hjá LVF og jafnframt er Ólafi Reynissyni færðar þakkir fyrir vel unnin störf sín.

Traffík í vetrarblíðunni.

Fjöllin standa á haus í firðinum fagra í vetrarblíðunni. Ljósafell SU fjærst á myndinni er að fara á veiðar. Bergur VE er að fara á veiðar eftir að hafa losað 1200 tonn af loðnu bæði í bræðslu og frystingu. Finnur Fríði FD hinn færeyski, nýjasta uppsjávarveiðiskip frænda okkar, er að leggja að bryggju til löndunar með 2400 tonn af loðnu.

Loðna af austursvæðinu.

Í morgun (22/2) er verið að landa úr Bergi VE 44 um 1200 tonnum af loðnu og Finnur Fríði FD 86 er á leiðinni með 2400 tonn til löndunar. Loðnan veiddist út af Ingólfshöfða. Bergur fyllti sig þar í fáum köstum. Svo virðist sem einhver loðna sé ennþá að ganga upp að landinu og ekki veitir af miðað við það sem á eftir að veiða af útgefnum kvóta. Verður reynt að frysta upp úr báðum bátunum ef loðnan reynist hæf til þess.

Loðnan streymir á land

Ingunn AK 150 er að landa 2000 tonnum af loðnu hjá LVF og færeyska skipið Finnur fríði FD 86 bíður löndunar með um 2500 tonn af loðnu.

Loðnulandanir

Þorsteinn ÞH 360 landaði í gær 400 tonnum af loðnu hjá LVF og Bergur VE 44 kom til Fáskrúðsfjarðar í nótt með 1200 tonn. Ingunn AK er á leiðinni og kemur í kvöld með 2000 tonn af loðnu. Á myndinni sem tekin er í dag í blíðunni á Fáskrúðsfirði er Bergur VE að landa loðnu til frystingar.

Landanir og afskipun

Bergur VE 44 kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með 1200 tonn af loðnu og síðar í dag kemur Hoffell SU 80 með 1250 tonn. Hluti af afla bátanna fer í frystingu fyrir Japansmarkað og er unnið á vöktum við framleiðsluna.

Flutningaskipið Sunna lestaði í gær 1057 tonn af loðnumjöli sem selt hefur verið til Finnlands.


Loðnufrysting á Japan

Í nótt komu Bergur VE og Hoffell SU með fullfermi af loðnu sem fékkst við Ingólfshöfða. Frysting var fram haldið í morgunn fyrir Japansmarkað, 18% hrognafylling er kominn í loðnuna en hún frekar smá.

Bræla á loðnumiðunum

Bræla er á loðnumiðunum og nokkrir bátar hafa þess vegna komið til hafnar á Fáskrúðsfirði. Antares VE landaði 400 tonnum, Sigurður VE og Ísleifur VE lönduðu slöttum.