Síldarlandanir.
Sighvatur Bjarnason VE og Íslefiur VE eru að landa fullfermi að síld í bræðslu sem skipin fengu 700 mílur norður í hafi. Samtals eru skipin með 2500 tonn.
Vinnsla hefst eftir 2 vikna sumarstopp.
Ljósafell fór á veiðar á síðasta þriðjudag og kemur til löndunar á mánudagsmorgun og hefst þá vinna eftir 2ja vikna lokun frystihússins. Eins og vanalega hefur verið unnið að ýmiskonar lagfæringum meðan vinnslustöðvun varir.
Hoffell hefur legið við bryggju í einn mánuð því mjög tregt hefur verið á kolmunnaveiðum. Skoðað verður seinni partinn í vikunni hvenær skipið fer á veiðar.
Vélstjóra og matsvein vantar.
Við leitum að vélstjóra á Ljósafell og matsveini á Hoffell. Þeir sem hafa áhuga vinsamlegast hafi samband við Eirík á skrifstofu LVF eða í síma 893-3009.
Tróndur landar síld
Færeyska skipið Tróndur í Götu kom í nótt til Fáskrúðsfjarðar með um 500 tonn af síld úr færeysku lögsögunni. Síldin verður flökuð og fryst.
Kolmunni og síld
Það óhapp vildi til í fyrra dag að stýrisvél Hoffells bilaði um 100 sjóm. suðaustur af Fáskrúðsfirði og reyndist ekki unnt að gera við hana á staðnum. Hoffell var að ljúka veiðiferð þegar óhappið varð og var komið með um 1250 tonn af kolmunna. Ljósafell fór á staðinn og tók Hoffell í tog til heimahafnar og komu skipin að landi um miðnætti í gærkvöldi.
Og silfur hafsins heldur áfram að berast til Fáskrúðsfjarðar, því að í kjölfarið á Hoffelli og Ljósafelli kom Tróndur í Götu með um 400 tonn af síld.
Síldin streymir að landi
Það hefur verið mjög mikið að gera hjá starfsfólki Loðnuvinnslunnar að undanförnu, en unnið hefur verið á vöktum allan sólarhringinn við söltun og frystingu á síld. Síldin hefur verið stór, en mikil áta hefur verið í henni og þolir hún því takmarkaða geymslu og þarf að vinna hana hratt í gegn.
Í gærkvöldi komu tveir bátar með síld til Fáskrúðsfjarðar. Það voru færeyski báturinn Saksaberg með um 100 tonn og Gullberg VE með um 300 tonn.
Fyrsta norsk-ísl. síldin
Fyrsta norsk-íslenska síldin á þessu ári barst til Fáskrúðsfjarðar í gær. Danska skipið Beinur HG 62 landaði 351 tonni og Gullberg VE 292 var með 218 tonn. Um helmingur aflans fór til manneldisvinnslu, var flakaður og saltaður.
Í morgun kom svo færeyska skipið Tróndur í Götu með um 550 tonn af síld og um 700 tonn af kolmunna.
Sjómannadagurinn 2005
Loðnuvinnslan h/f færir sjómönnum og fjölskyldum þeirra heillaóskir í tilefni sjómannadagsins. Gleðilega hátíð.
Christian landar kolmunna
Færeyska skipið Christian í Grótinum KG 690 kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með 1950 tonn af kolmunna. Aflann fékk skipið norðarlega í færeysku lögsögunni nálægt miðlínu á milli Íslands og Færeyja.
Hagnaður LVF 90 milljónir
Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam kr. 90 millj. eftir skatta, en var kr. 55 millj. á sama tíma árið 2004.
Rekstrartekjur félagsins voru kr. 860 millj. og hækkuðu um 8% miðað við fyrsta ársfjórðung 2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármnagnsliði nam kr. 132 millj. eða 15% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 124 millj. eða 14% af tekjum. Afskriftir voru kr. 58 millj. og höfðu hækkað um 6%. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 32 millj., en voru neikvæðir um kr. 26 millj. á sama tíma fyrir ári.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.541 millj., sem er 47% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um kr. 45 millj. á milli ára. Nettó skuldir Loðnuvinnslunnar voru kr. 935 millj. og hækkuðu um kr. 19 millj. á síðustu 12 mánuðum.
Fyrstu þrjá mánuði ársins tók Loðnuvinnslan á móti 42.000 tonnum af loðnu og 10.000 tonnum af kolmunna, frysti 820 tonn af loðnu fyrir Japansmarkað og 350 tonn af loðnuhrognum, auk hefðbundinnar bolfiskframleiðslu og eftirflökunar á saltsíld.
65 þúsund tonn
Starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar hf héldu upp á það í gær að vera búnir að taka á móti 65 þúsund tonnum af hráefni frá áramótum. Verksmiðjan hefur tekið á móti 42 þúsund tonnum af loðnu og 23 þúsund tonnum af kolmunna. Á myndinni eru Magnús verksmiðjustjóri, Árni vaktformaður og hans ekta kvinna Linda, sem vinnur á skrifstofu LVF en hlýtur að hafa frétt af tertuátinu og skroppið í kaffi út í verksmiðju.
Taits landar kolmunna
Skoska skipið Taits FR 227 er að landa um 1000 tonnum af kolmunna á Fáskrúðsfirði. Aflann fékk skipið í lögsögu Færeyja.