Tania Li Mellado

Tania Li Mellado

Oft ráða tilviljanir för.  Að þessu sinni hafði greinarhöfundur ákveðið að næsti viðmælandi skyldi valin af handahófi.  Tilgangurinn með þessari ákvörðun var sú að sannreyna það að allir eru áhugaverðir og allir hafa sögu að segja.  Því gekk greinarhöfundur inní verslun staðarins og ákvað að leggja snörur sínar fyrir fyrstu manneskjuna sem á vegi yrði.  Um leið og gengið var inní verslunina hitti greinarhöfundur tvær konur sem báðar starfa hjá Loðnuvinnslunni. Eftir stuttar samræður var niðurstaðan sú að önnur þeirra gaf sér tíma í spjall.

Tania Li Mellado er ung kona sem starfar hjá Loðnuvinnslunni.  Hún vinnur í frystihúsinu á daginn og skúrar í bræðslunni á kvöldin.  Eins og nafnið hennar gefur til kynna á Tania spænskan föður en móðir hennar er íslensk.  Tania Li er fædd á Akureyri en flutti svo með foreldrum sínum til Spánar þegar hún var ársgömul.  Fjölskyldan settist að á Torremolinos,  bæjarfélag sem stendur við Costa del Sol, þá sólarparadís sem margir Íslendingar þekkja.  Þar var móðir Taniu heimavinnandi en faðir hennar rak bar.  Meðan á dvöl fjölskyldunnar ytra stóð eignaðist Tania tvö yngri systkini.  Hún hóf skólagöngu í sandölum og kjól í heita landinu og naut þess að slíta barnskónum í landi föðurfjölskyldunnar.

Tanía var níu ára gömul þegar foreldrar hennar ákváðu að flytjast aftur búferlum til Íslands og aftur var haldið heim til Akureyrar.  Þar fór Tania í Gerárskóla og lauk grunnskólanum þar.  Á þessum tíma var spænskan hennar aðal tungumál. Hún skildi íslensku vel en talaði bara spænsku.  Þegar móðir hennar talaði við hana á íslensku svaraði hún á spænsku.  Fyrstu skólaárin hér heima urðu því nokkuð strembin. Hún þurfti að hafa fyrir því að gera íslenskuna að því tungumáli sem henni yrði tamari.  Í öllum samskiptum er mikilvægt að skilja hver annan.  Og þar sem þessi níu ára gamla stúlka talaði bara spænsku var erfitt að mynda tengsl við önnur börn en þá segir Tania að íþróttirnar hafi bjargað sér.  “Ég hellti mér út í íþróttir, ég var fljót að hlaupa og fór strax að æfa fótbolta”  Í kappleikjum tjá menn sig á annan máta og það skilja allir.

Íþróttaiðkun hefur ávalt verið stór hluti af lífi Taniu og er enn.  Hún komst í úrtakshóp til landsliðs á unglingsaldri, hún keppti fyrir hönd Leiknis og Fjarðabyggðar í fótbolta og enn sparkar Tania en nú til dags mest sér til ánægju og yndisauka.  Uppeldisfélag hennar er Þór á Akureyri og þar kynntist hún eiginmanni sínum Vilberg Marinó Jónassyni.  “Árið 2000 kom Villi til Akureyrar til þess að spila fótbolta með Þór og fljótlega byrjuðum við saman” segir Tania og rifjar upp til gamans að þegar Villi hafi sagt henni að hann byggi á Fáskrúðsfirði hafi hún ekki haft hugmynd um hvar Fáskrúðsfjörður væri.  “Ég hafði aldrei komið lengra en að Mývatni” segir þessi brosmilda kona og hlær við.

En ástin lætur ekki að sér hæða og ástfangið fólk vill bara fá að vera í samvistum hvort við annað.  Því leið ekki lengri tími en fram á haust að Tania flutti austur á land og hóf búskap með Vilberg.  Hún réð sig til starfa í Grunnskólanum sem stuðningsaðili og starfaði þar um tíma.   Hún hefur einnig strafað í leikskólanum Kærabæ og við heimaþjónustu.

Árið 2002 réð Tania sig fyrst í frystihúsið.  “Ég hafði aldrei á ævi minni komið inní frystihús áður, en mig vantaði vinnu og þetta var vinna”. Hún segir að sér hafi verið vel tekið þar og ávalt kunnað ágætlega við þessa vinnu.  Börnin komu eitt af öðru, en Tania á þrjú börn, og lífið bar hana í ýmsar áttir eins og gengur hjá fólki.  Hún starfaði um tíma í móttökunni á hóteli hér í bæ og það líkaði henni vel.  “Þar gat ég notað spænskuna, ég nýt þess að geta talað spænsku og sakna þess að gera það ekki daglega”.

Eins og áður sagði vinnur Tania bæði í frystihúsinu og í bræðslunni. “Ég er nú ekki búin að vera í föstu starfi í frystihúsinu nema síðan í apríl, en ég hef oft tekið vertíðir, síldar-, makríl-, og loðnu vertíðir. Það finnst mér skemmtilegt, það er einhver stemmning”.  Og svo sagðist hún vera til þess að gera nýbyrjuð að skúra í bræðslunni.  “Ég hafði spurst fyrir um þetta starf einhvern tímann og nú þegar það losnaði hringdi Magnús (Ásgrímsson, verksmiðjustjóri) í mig og bauð mér starfið og ég kann ekki að segja nei” sagði Tania og horfði fast í augu greinarhöfundar og bætti svo við: “þetta er fínt starf”.  Hún tekur það líka skýrt fram að þau hjónin gætu ekki unnið eins mikið og raun ber vitni nema af því að þau eru svo lánsöm að tengdamóðir Taniu gætir bús og barna á meðan.  “Það er ómetanlegt” segir Tania einlæg.

Þegar Tania Li er ekki að vinna í frystihúsinu, eða bræðslunni, eða að leysa af í Vínbúðinni eins og raunin var þetta síðdegi þegar okkar spjall átti sér stað, þá finnst henni gaman að fara í ræktina, að spila blak og hitta fólk.  “Svo finnst mér líka gaman að ferðast og elska að fara til Costa del Sol þar sem föðurfólkið mitt býr enn”.  Og hún segir frá því að hún hafi tekið þá ákvörðun fyrir nokkru síðan að “gera hlutina og sjá ekki eftir neinu” og á þá við að hún vill gjarnan láta drauma sína og óskir rætast sé þess nokkur kostur og ef eitthvað gengur ekki upp má alltaf draga af því einhvern lærdóm og reynslu.  Góð speki að lifa eftir.

Við sem erum alin upp með íslenska tungu í eyrunum og á vörunum frá fæðingu lærum að nota máltæki og alls kyns orðatiltæki í daglegu tali.  Tania var alin upp við spænsku til níu ára aldurs og því er það skiljanlegt að hún hafi ekki þennan grunn.  En hún reynir. Hún segir greinarhöfundi frá því að hún ætti að skrifa bók sem gæti heitið “gullkorn Taniu”.  “Ég og orðatiltæki eigum enga samleið”. Og hún hvetur greinarhöfund til að skella einhverjum dæmum með í greinina.  Og í því samhengi rifjast upp eftirfarandi:

“Fljótt skipast veður í vindum” sagði hún eitt sinn þegar verðrið breyttist snögglega.

“Fékk hvorki vatn né þurrt” varð henni að orði þegar lítið var um mat og drykk.

“Ég er góðkunnur vinur hans”  varð henni einhvern tímann að orði líka.

Tania Li Mellado býr yfir mannkostum sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar.  Hún hefur húmor fyrir sjálfri sér.

 

BÓA

 

 

 

 

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgunn um 50 tonnum. Uppistaða aflans er þorskur til vinnslu í frystihúsi LVF. Brottför í næsta túr er kl 9:00 í fyrramálið, þriðjudaginn 7. nóvember.

Sandfell

Sandfell hefur verið að gera það gott og fiskaði samtals 256,7 tonn í október og var hæstur yfir landið í sínum stærðarflokki.
Sjá meðfylgjandi vefslóð.
http://www.aflafrettir.is/frettir/grein/batar-yfir-15-bt-i-oktlokalistinn/2709

Við lifum eitt augnablik

Anton Fernández

Í lágreistu húsi við sjávarsíðuna er rafmagnsverkstæði Loðnuvinnslunnar til húsa.  Líkt og svo mörg önnur hús á þetta tiltekna hús sér sögu sem rétt er að minnast aðeins á.  Í eitt sinn var þarna starfrækt sláturhús og greinarhöfundur man vel eftir þeim tíma þegar slátrun á búfé var þar í fullum gangi og stúlkur og drengir bæjarins gátu komið þar við og fengið gefins lappir af sauðfé, sem síðan voru fláðar og húðin þurrkuð á spýtum hér og þar og síðan notuð sem mottur í barbie-leik.  Þá bjuggu í húsinu um tíma ungar konur sem komu til Fáskrúðsfjarðar til þess að vinna í frystihúsinu. Tilheyrðu þær hópi ungra kvenna af erlendu bergi sem gengu, og ganga jafnvel enn, undir samheitinu Ástölsku stelpurnar.   En í dag er þarna rafmagnsverkstæði með tvo fasta starfsmenn.

Antonio Fernández Martinez er verkstjóri á rafmagnsverkstæðinu.  Hann er spænskur að uppruna en hefur dvalið á Íslandi meiripart ævinnar.  Hann hefur aðlagað sig að íslensku lífi og er í dag Íslendingur, hefur sinn ríkisborgararétt og talar óaðfinnanlega íslensku.  Hann hefur aðlagað nafnið sitt og kallar sig Anton Fernández og er oftast kallaður Toni.

Hjá Loðnuvinnslunni hefur verið mikið um uppbyggingu og breytingar ýmiskonar sem kalla á rafmagn þannig að nóg hefur verið um verkefnin hjá starfsmönnum rafmagnsverkstæðisins.  Svo mikið að oftast er einn eða fleiri rafmagnsverktakar í vinnu sem Toni verkstjóri þarf að hafa umsjón með en hann vinnu líka verkin sjálfur.

Toni er fæddur í litlu þorpi en flutti ungur með foreldrum sínum og systkinum til Valencia og þar er hann uppalinn.  Hann gekk þar í skóla og sleit barnskónum í þessu heita suðræna landi og því liggur það beinast við að inna Tona eftir því hvernig honum hafi dottið í hug að koma til Íslands?

“Þegar ég var sextán ára gamall bauðst mér að fara í þriggja vikna ferð til Noregs með íslenskum vini mínum og foreldrum hans, en þegar við höfðum dvalið í tvær vikur í Noregi ákváðu þau að fara til Íslands og ég ákvað bara að skella mér með. Slá tvær flugur í einu höggi, sjá bæði Noreg og Ísland í sömu ferð”.   Foreldrar Tona heima á Spáni gáfu leyfi til fararinnar því að hann var jú að ferðast með fullorðnu fólki.  En þegar hingað á landið bláa kom, þá kom upp sú staða að Toni þurfti að vinna sér inn peninga til þess að kaupa sér far aftur heim.  Hann fór að vinna í Ísbirninum. Frystihúsi í Reykjavík sem Bubbi Morthens gerði ódauðlegt með lagi sínu Ísbjarnablús.  Svo vann Toni um tíma í Álafoss en réð sig síðan, með hinum íslenska vini sínum, á bát frá Þingeyri sem hét Litla Framnes, 150 tonna línubátur sem gerður var út af Kaupfélagi Dýrfirðinga.  Og í þessu samhengi er svo sannarlega hægt að segja að enginn veit hvert  vegurinn liggur, því þarna var hinn sextán ára gamli spænski drengur kominn á sjó við strendur Íslands um hávetur.  “Ég var bæði sjóhræddur og sjóveikur” sagði Toni.  “Þeir sóttu sjóinn mjög stíft þarna fyrir vestan, þeir veigruðu sér ekki við að fara til sjós þó svo að manni þætti brjálað veður og ölduhæðin næði mörgum metrum.” Toni réri á Litla Framnesinu tvær vertíðir og segir frá því að það hafi oft verið mikið fjör.  Þegar dvalið var í landi var líf og fjö.  Á vestfjörðum voru líka ungar konur frá útlöndum í fiskvinnslu og strax þá fékk Toni að kynnast mikilli vinnu sem löngum hefur tíðkast hjá hinni íslensku þjóð. “Þetta var hörku vinna” sagði Toni “og maður mótaðist af þessu”.

En hvernig leist foreldrum þínum á það að þú værir farinn að vinna til sjós á Íslandi löngu fyrir tvítugs aldur?  “Þeim leist ekkert á það” svaraði Toni, “ég er yngstur af mínum systkinum og þau vildu bara fá litla drenginn sinn heim” bætti hann við og brosti angurvær við minninguna.

Árið 1979 réð Toni sig til starfa á Pólarsíld.  Þar réri hann á bát sem hét Guðmundur Kristinn.  Á Pólarsíld kynntist hann ungri konu, Önnu Karen Hjaltadóttur,  og framtíðin var ráðin.  Þau bjuggu sér heimili og eignuðust þrjú börn sem í dag eru orðin fullorðin og barnabörnin eru tvö.  Fljótlega eftir komuna til Fáskrúðsfjarðar fór Toni að leysa af á togurunum Ljósafelli og Hoffelli, og komst síðan í fast pláss á Ljósafelli og var þar háseti í mörg ár.  En eftir því sem börnum þeirra hjóna fjölgaði langaði hann að vera meira heima við. Taka meiri þátt í uppeldi og lífi barna sinna og tók þá ákvörðun að skella sér í iðnnám.  Hann fór í Verkmenntaskólann í Neskaupsstað og lauk þaðan sveinsprófi í rafvikjun og bætti svo við sig meistaranámi.  Hinn spænskættaði  Antonio valdi sér leið í lífinu sem er algeng á Íslandi, fara að vinna á unga aldri, mennta sig svo þegar lífssólin er komin ofurlítið hærra á loft.  Ef hann hefði dvalið áfram í sínu heimalandi hefði lífið vafalaust orðið öðruvísi.  “En ekki betra” segir Toni, “ég er mjög ánægður með líf mitt hér, rætur barna minna eru hér, ég á mjög góða fjölskyldu, ég hefði ekki getað verið heppnari.  Ég væri sáttur ef ég yrði kallaður á morgun” segir hann og leggur áherslu á orð sín.

Toni hefur, eins og áður sagði, íslenskt ríkisfang, hann segist hugsa á íslensku en hann haldi spænskunni vel við.  Sér í lagi eftir að internetið kom.  “Ég er fréttasjúkur” segir hann, “fyrst horfi ég á fréttirnar á Stöð2, síðan á RUV, og eftir það þarf ég að kíkja á spænsku fréttirnar.  Ég er að fylgst með því hvað þeir ætla að gera í Kataloniu” segir hann og bætir því við að þessi fréttasýki geti gert konuna hans pirraða en það er greinilega ekki alvarlegt því hann hlær dillandi hlátri  þegar hann segir frá því.  “Ég er meiri Íslendingur en Spánverji” segir Toni enda búinn að búa hér á landi í 42 ár.  “Við hjónin vinnum mikið, eins og algengt er hér á landi, við erum enn í gamla tímanum”.  Hann segir að lífið hjá þeim hjónum sé þannig að þau vinna langan vinnudag og fari svo heim í náttfötin og hafi það huggulegt.  “Hún Anna mín getur ekki staðið kyrr í sömu sporunum í 10 mínútur svo að hún segir já ef hún er beðin að vinna”.  En svo taka þau sér góð frí og ferðast um landið og til útlanda.  Þau hitta börnin sín og barnabörn.  Þau heimsækja fólkið hans Tona á Spáni reglulega og eru í góðu sambandi við fjölskylduna sína þar.

Toni hefur lífssýn sem heillaði greinarhöfund afar mikið.  Hann vill gjarnan ferðast um og skoða sem mest af tilverunni og upplifa sem mest.  Hann segir frá því þegar eldgosið var á Fimmvörðuhálsi fyrir nokkrum árum síðan, hafi hann splæst á sig að fara í þyrluflug yfir gosið.  Þyrlan lenti síðan í grendinni svo að Toni gat bæði heyrt og séð gosið í návígi.  “Ég bauð syni mínum með mér og þetta var ótrúleg upplifun.  Það er alls óvíst að ég hafi tækifæri til að komast svona nálægt eldgosi aftur í lífinu.  Þetta kostaði svolitla peninga en vel þess virði”  sagði hann og bætti síðan við þessum þýðingarmiklu orðum “við lifum eitt augnablik”.

Toni og Anna Karen tóku uppá því fyrir nokkrum árum síðan að skella sér í skíðaferð til Ítalíu. Flestir gera ráð fyrir að ef fólk fer í slíka ferð séu það vant skíðafólk en sú var aldeilis ekki raunin í þeirra tilfelli.  Þau langaði bara að læra á skíði og gera það á skemmtilegan hátt.  “Anna mín fór á námskeið og skíðar núna mjög vel en ég vildi læra sjálfur” segir Toni, “ég hef gaman af því að hreyfa mig og skellti mér bara í djúpu laugina” bætir hann við og segir greinarhöfundi frá þessum dásamlega stað í Ítölsku ölpunum  þar sem hægt er að eiga góð frí hvort heldur menn skíða eður ei.

Í kaffihorninu hjá strákunum á rafmagnsverkstæðinu var hlýtt og notalegt. En önnum kafinn maður eins og Toni gat ekki setið að spjalli lengi, verkefnin þurftu á hans athygli að halda.  Því gengum við samferða út og kvöddumst þar.  Og á leið heim fann greinarhöfundur að þessi setning sat í kollinum: “við lifum í eitt augnablik” og í stóra samhenginu er það sjálfsagt alveg rétt og því réttast að njóta hvers dags og fagna hverjum nýjum degi.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa. Aflinn er um 28 tonn. Skipið fer aftur út að löndun lokinni kl 23:00 i kvöld.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 620 tonnum af kolmunna sem fékkst í Íslenskri lögsögu. Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Sandfell

Sandfell er á landleið með um 16 tonn í þessum róðri. Það er góður endir á góðum mánuði í veiði bátsins. Samtals ætti aflinn í október þá að vera um 256 tonn.

Ljósafell

Ljósafell kom inn seinnipartinn í gær og var landað og skipt um kör og ís í gærkvöldi. Með því hefur Ljósafell lokið við Haustrall Hafró og fer til hefðbundinna verkefna uppúr miðnætti í kvöld að loknum veiðafæraskiptum.

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgun smá slatta, 57 körum af afla. Það hentaði ágætlega vegna þess að síðasta togstöð áður en brældi var við Mjóeyrina hér í Fáskrúðsfirði. Þá er búið að ljúka við 158 togstöðvar af alls 179. Brottför í síðasta hluta rallsinns er kl 17:00 í dag, föstudaginn 27. október.

“Framtíðin er í Rúst”

María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson

Samkvæmt dagatalinu er vetur genginn í garð.  Eitt af því sem fylgir vetri konungi er myrkrið sem umlykur allt og felur þar sem ljós eru af skornum skammti.  Eitt af þeim húsum sem standa næst sjónum í þorpinu sem stendur við Fáskrúðsfjörð er hús sem kallað er Rúst.  Rúst tilheyrir Búðavegi en stendur samt miklu nær ónemdum vegi við flæðarmálið og þegar greinarhöfundur steig út úr bíl sínum, sem lagt var steinsnar frá sjónum , til þess að heimsækja húsráðendur í Rúst var myrkrið þétt en ljósin úr gluggum heimilisins í Rúst lýstu leið.

Í Rúst búa hjónin María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson ásamt sonum sínum Heiðberti Óla og Herði Marino og einum hvolpi sem heitir Krummi.  Í þessu gamla húsi hafa þau búið sér fallegt heimili og útsýnið úr suðurgluggunum þeirra er engu líkt, fjöllin og sjórinn í nærmynd.

Sigmar er Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér alla sína ævi, hér búa foreldar hans og hér bjuggu amma hans og afi.  Hann er elstur þriggja bræðra.  María Björk er uppalin í Vogum á Vatnsleysuströnd en á ættir sínar hingað.  Hún er ein fjögurra systra.  Faðir hennar er Fáskrúðsfirðingur og  amma hennar og afi bjuggu hér.  Í barnæsku kom María til ömmu og afa á Fáskrúðsfirði á hverju sumri og þegar ég spyr þau hvenær þau hafi kynnst segja þau að það hafi verið einhverntíman á æskuárum, þegar María Björk var stúlkan í heimsókn og Sigmar drengur á heimaslóðum og þau léku sér saman.  Hvort að örlögin voru ráðin strax þá er ómögulegt að segja en staðreyndin er sú að þau eiga margt sameiginlegt.  Þau eru t.a.m. fædd sama dag,  10.október 1985!

Það var svo árið 2006 að María Björk kemur til Fáskrúðsfjarðar ásamt vinkonum til þess að fara á konukvöld, skemmtun sem haldin var í íþróttahúsinu og þegar dansleikurinn hófst að skemmtun lokinni mættu karlmennirnir á svæðið og dansinn dunaði fram á nótt.  Á einhverjum tímapunkti hófu þau Sigmar og María dans sem þau dansa enn og af því að lífið er skemmtilegt og skondið á köflum þá giftu þau sig í Fáskrúðsfjarðrkirkju þann 10.10.10.  Á afmælisdegi þeirra beggja árið 2010.

Var aldrei vafamál hvar þið vilduð setjast að? spyr greinarhöfundur, „Nei, segir María Björk, ég sagði alltaf þegar ég var krakki að ég ætlaði að eiga heima á Fáskrúðsfirði þegar ég yrði stór.“ Svo ég er bara að lifa þann draum“ segir hún hlæjandi.  Og svo segir hún frá því þegar þau hjónin keyptu íbúðahúsið Rúst að hún hafi hringt í móður sína og sagt í símann: „Framtíðin er í Rúst“, mömmu hennar brá nú svolítið í fyrstu áður en hún áttaði sig á því hvað fólst í raun og veru í setningunni.  Já, orðaleikir eru skemmtilegir.

Sigmar Örn og María Björk starfa bæði hjá Loðnuvinnslunni og greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvort að þau teldu það vera gott eða slæmt fyrir þeirra samband að starfa á sama stað en þau kváðu það ekki vera vandamál.  Þau hittust í matar- og kaffitímum, en annars væru samskiptin lítil því þau gengdu sitthvoru starfinu og rækjust ekki oft saman í hita leiksins.  „Við hittumst í matar- og kaffitímum því Sigmar vill gjarnan sitja hjá stelpunum“ segir María hlæjandi og Sigmar mótmælir ekki en brosir bara hlýtt til konu sinnar.  Þau eru sammála um að það sé gott að vinna hjá LVF, vinnustaðurinn sé fullur af skemmtilegu og góðu fólki og þar sem að hluti af samstarfsfólki þeirra sé fólk af erlendu bergi brotið sé lífið á vinnustaðnum fjölþjóðlegt og fjölbreytilegt.  María er líka í stjórn Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem hefur staðið fyrir skemmtilegum ferðum starfsmanna til útlanda sem og innanlands ásamt annarri starfsemi.  Þau eru á einu máli um að það sé kostur að vinna innan bæjarmarkanna vegna barnanna.  Ef eitthvað kemur uppá eru foreldrarnir bara tvær mínútur að aka í skóla sona sinna. „Við erum alltaf nálæg og alltaf til taks“ segja þau sátt við tilveruna.

En þegar vinnu er lokið, hvað gera þau þá?  „Ég starfa í Björgunarsveitinni og líka í Slökkviliðinu“ segir Sigmar og María segir að hún hafi unun af því að teikna.  Þeim þykir líka gaman að ferðast en fyrst og fremst hjá þeim báðum er samvera með fjölskyldunni. „Ég er afar heimakær manneskja“ segir María, „ég veit fátt betra en að vera heima hjá mér með mínu fólki“. Og það er auðfundið sem gestur á heimili þeirra að þau eru á heimavelli.  Sigmar sér um að bjóða kaffið og fer vönum höndum um skápa og skúffur en María játar þó á sig að hún sé öllu fyrirferðameiri í eldhús- og heimilisstörfum þó svo að Sigmar sé vel liðtækur. „Mér finnst best að fá hann til að fara út með strákanna á meðan ég þríf heimilið“ segir þessi bjarteyga unga kona og hlær.

Hjá flestum á lífið líka sína skuggahlið.  Þannig er það líka hjá ungu hjónunum í Rúst.  Þau hafa gengið saman í gegnum sorgir og þrautir.  Fyrir nokkrum árum veiktist María alvarlega í tengslum við meðgöngu sem endaði illa, þá munaði litlu milli lífs og dauða.  Slík lífsreynsla setur mark sitt á fólk og í þeirra tilfelli birtist það í þakklæti fyrir lífið sem þau eiga og lífin sem þau hafa skapað.  Það er bæði fallegt og gott.  Og þau dreymir um að skapa fleiri líf en fyrir því eru ákveðin vandkvæði sem vonandi verða bráðum úr sögunni því að í hjörtum þeirra Sigmars og Maríu er pláss fyrir fleiri.

Seta greinarhöfundar við eldhúsborðið í Rúst hafði, sem betur fer,  lítil áhrif á heimilishaldið. Unglingurinn hélt sig í herberginu sínu rétt eins og unglinga er háttur og yngri drengurinn lék sér við hvolpinn Krumma.  Andrúmsloftið var afslappað og viðmótið hlýtt.  Og þegar greinarhöfundur gekk í myrkrinu aftur að bíl sínum þá var það sjórinn sem breiddi öldur sínar yfir steinana í fjörunni og bauð góða nótt.

BÓA

Afskipun á mjöli

Wilson Grip er að lesta 2.550 tonn af mjöli sem fer á Noreg.

Síldin að fara

Alls voru fimm flutningabílar hér á Fáskrúðsfirði í morgunn að sækja um 900 tunnur saltsíld sem fer í útflutning með Norrænu til Danmerkur og Svíþjóðar.