Hoffell

Undanfarnar vikur hefur Hoffellið verið í slipp í Færeyjum.  Þar er verið að sinna almennu viðhaldi á skipinu og það málað í sínum fallega græna lit. Gert er ráð fyrir að skipið fari niður úr slippnum í lok næstu viku.

Sandfell

Sumarið hefur verið fengsælt hjá Sandfelli. Þann 23.júní landaði Sandfellið 18 tonnum, þann 24.júní kom Sandfell einnig með 18 tonn að landi og 25.júní voru voru 10 tonnum landað úr Sandfellinu.

Góður gangur hjá Ljósafelli

Vel hefur gengið hjá Ljósafellinu undanfarið. Þann 18.júní kom það að landi með 18 tonn og þann 22.júní landaði Ljósafellið 54 tonnum. Í gær, þann 28.júní,  landaði svo Ljósafellið 60 tonnum af blönduðum afla eftir aðeins 36 klukkustunda úthald.

Hoffell

Hoffell landaði í gær 1232 tonnum af kolmunna. Þessi afli var geymdur um borð í kælingu yfir helgina meðan sjómannadegi var fagnað. Skipið kom raunar inn á laugardagsmorgni og fór beint í skemmtisiglingu með fólk í tilefni sjómannadags. Nú er verið að taka veiðarfæri og búnað í land sökum þess að skipið er að fara í slipp til Færeyja.

Sjómannadagurinn

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík 6.júní 1938. Þannig að sjómannadagurinn á sér 80 ára sögu. Í Alþýðublaðinu  7.júní 1938 var grein um þennan fyrsta sjómannadag og þar stóð: „ Fyrsti sjómannadagurinn varð glæsilegur hátíðisdagur sem hertók borgina – og alla íbúa hennar“.  Síðan halda greinarskrifin áfram og lýsa vel hvernig þessi hátíðarhöld fóru fram.  Það voru ræðuhöld og skrúðganga þar sem raðað var í gönguna eftir sjómannafélögum og hver og ein fylking hafði í fararbroddi fána síns félags og  lýsingin í Alþýðublaðinu hljómaði svona: „ Var þetta geysi stór fylking og myndarleg, djarflegir menn og hraustlegir flestir og þó nokkrir hrumir sjómenn og bognir“.  Og nú 80 árum síðar höldum við enn uppá þennan dag sem tileinkaður er hetjum hafsins.

Greinarhöfundur spjallaði við sjómenn í tilefni dagsins. Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffellinu svaraði aðspurður að  í sínu hjarta væri sjómannadagurinn mikill hátíðsdagur.  „Þetta er lögbundinn frídagur sjómanna þannig að maður getur allaf gengið að því vísu að vera heima með fólkinu sínu á þessum degi“ sagði Bergur og bætti svo við að deginum fylgi líka ákveðin tímamót, það er talað um fyrir og eftir sjómannadag. Þá hafði Bergur líka orð á því að það væri gaman að fá alla þessa gesti um borð í skipið og vísar þar í boð Loðnuvinnslunnar til handa gestum og gangandi að fara í skemmtisiglingu með skipum og bátum Lvf á sjómannadegi.   Áhöfnin á Hoffellinu ætlar að fara saman út að borða í kvöld til þess að fagna deginum sem tilheyrir þeirra starfi.

Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu tekur í sama streng og segir að sjómannadagurinn sé í hans hjarta sannarlegur hátíðisdagur.  Hann heldur þó mest uppá hinn eiginlega sjómannadag sem er allra  jafnan fyrsti sunnudagur í júní.  „Nú er farið að dreifa hátíðarhöldum á alla helgina sem er fínt“ sagði Ólafur Helgi.  Hann bæti því líka við að sjómannadagurinn sé ekki aðeins hátíð sjómanna heldur líka fjölskyldna þeirra þvi það væri hluti af hátíðinni að hafa fólkið sitt með. „Allir taka þátt“ sagði hann réttilega.  Ólafur Helgi hefur verið skipstjóri á Ljósafelli um langt árabil og á dögunum átti Ljósafellið 45 ára afmæli. Það lá því beint við að spyrja skipstjórann aðeins út í afmælisbarnið.  „Það fiskaðist vel á afmælisdaginn eins og jafnan þegar skipið hefur verið til sjós á afmælisdaginn og við flögguðum auðvitað”.  Ljósafellið hefur 2svar farið í yfirhalningu en stálið í skrokknum er að mestu 45 ára gamalt og er gott ennþá. En þykktarmælingar á stálinu segja til um hversu gott það er. „Ljósafell á allmörg ár eftir enn“ sagði skipstjórinn bætti við til gamans að vindmælirinn í brúnni væri 45 ára og virki enn.  Áhöfnin á Ljósafellinu ætlar að gera sér dagamun með því að borða saman í kvöld.

Rafn Arnarson er skipstjóri á Sandfellinu.  Á Sandfellinu eru tvær áhafnir, aðra leiðir Rafn sem skipstjóri en hina áhöfnina leiðir faðir hans Örn Rafnsson. Greinarhöfundur náði í Rafn á heimaslóðum í Grindavík. Þegar Rafn var spurður að því hvort að honum þætti sjómannadagurinn hátíðisdagur og hvort að hann ætlaði að halda uppá hann svaraði hann að bragði: „Já, já, það verður feikilega mikið party hjá mér í kvöld“ en bætti því svo við að hann og konan hans væru að halda uppá 40 ára afmæli þeirra hjóna.  „Upplagt að slá þessu saman við sjómannadaginn „ sagði Rafn „auk þess er þetta eini dagurinn sem við pabbi eru báðir heima í einu fyrir utan jólin“.  Þar sem þeir feðgar róa til skiptis á sama bátnum vill þetta verða svona.  Aðspurður sagði Rafn að honum líkaði afar vel að vera á Sandfellinu, „það er svo gaman, engir tveir dagar eru eins, við förum á mismunandi mið, veðrið er allskonar, við löndum aflanum ekki alltaf á sama stað, þannig að tilbreytingin er mikil“ sagði fertugur maðurinn með bros í röddinni.

Skip Loðnuvinnslunnar buðu gestum og gangandi í grillaðar pylsur, gos og sælgæti áður en haldið var af stað í siglingu út fjörðinn og til baka. Þátttakendur í siglingum skipanna þessa sjómannadagshelgina voru um 350 manns.  Þar af voru einhverjir erlendir ferðamenn sem stöldruðu við á bryggjunni til þess að fræðast um það sem þar var í gangi og voru að vonum boðnir að taka þátt.  Það voru því margir saddir, sælir og ánægðir  „sjómenn“ sem stigu í land eftir vel heppnaða siglingu.

Greinarhöfundur óskar sjómönnum til hamingju með daginn og þakkar vel unnin störf.

BÓA

 

Sigling

Sigling í tilefni sjómannadags.
Á laugardag 2. júní kl 11:00 munu skip Loðnuvinnslunnar hf, Hoffell SU 80 og Ljósafell SU 70 ásamt Sandfelli SU 75 sigla með gesti um fjörðinn. Boðið verður uppá pylsur og gos. Siglt verður frá Bæjarbryggjunni.

Ljósafell

Ljósafell kom inn til löndunar í morgunn með fullfermi. Aflinn er blandaður, þorskur, ýsa, ufsi og karfi.
Túrinn er merkilegur fyrir þær sakir að í gær, 31. maí voru liðin 45 ár frá því að Ljósafellið kom fyrst til Fáskrúðsfjarðar. Ekki verður annað sagt en að skipið beri aldurinn vel og ekkert vantar uppá að skipið fiskar vel. Aflinn í maí var um 650 tonn, og við það bætist svo löndun í dag.

Sandfell

Sandfell landaði á Stöðvarfirði í gærkvöldi og var aflinn um 16 tonn. Mánuðurinn hefur verið ágætur og er heildar aflinn í maí um 256 tonn uppúr sjó. Báturinn landar aftur á morgunn, síðasta túr fyrir sjómannadag.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1600 tonnum af kolmunna sem fékkst í Færeysku lögsögunni. Skipið heldur aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 95 tonnum og er uppistaða aflans þorskur og ufsi. Brottför í næstu veiðiferð er um miðnættið í kvöld, þriðjudag 22. maí.
Gangurinn hefur verið góður að undanförnu og hefur skipið landa þétt.
Föstudaginn 18. maí, 60 tonn
Mánudaginn 14. maí, 105 tonn
Fimmtudaginn 10. maí, 85 tonn
Mánudaginn 7. maí, 108 tonn.

Loðnuvinnslan styrkir samfélagið

Lars Gunnarsson, Friðrik Mar Guðmundsson, Alberta Eide Guðjónsdóttir, Valur Sveinsson, María Ósk Óskarsdóttir og Grétar Helgi Geirsson

Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar sem haldinn var í Wathnessjóhúsinu þann 15.maí  voru afhentir styrkir til félagasamtaka  að upphæð tæplega 16 milljónir króna.  Björgunarsveitin Geisli hlaut 1 milljón króna í styrk til reksturs á björgunarskipinu Hafdísi.  Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla tók við styrknum og þakkaði Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og sagði að gott væri að eiga bakhjarl sem „vissi að það er dýrt að vera í útgerð“.  Hafdís hefur sem betur fer ekki þurft að sinna mörgum aðkallandi björgunarverkum, þótt önnur verkefni séu ærin, en Hafdísin sannaði þó mátt sinn og megin og var langfyrst á vettvang þegar stórt flutningaskip strandaði við Vattarnes á síðasta ári.  Fyrir Fáskrúðsfjörð sem og aðra Austfirðinga sem eiga synir og dætur á sjó er björgunarbáturinn Hafdís  mikið öryggistæki.  Grétar sagði að styrkur Loðnuvinnslunnar færi í almennan rekstur bátsins og nefndi sem dæmi tryggingar, botnhreinsun og almennt viðhald en allt kostar þetta mikla peninga.

Þá fengu félagasamtök um Franska daga 800 þúsund kónur eins og sagt var frá með styrkjum Kaupfélagsins.  Loðnuvinnslan hefur styrkt Franska daga frá upphafi og er stoltur stuðningsaðili.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir króna í styrk til sinnar starfssemi.  Alberta Eide Guðjónsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Starfsmannafélagsins og sagði styrkinn afar mikilvægan fyrir félagið. „Við værum ekki að fara neitt, eða gera neitt, ef þessa styrks nyti ekki við“ sagði Alberta og vísaði í fyrirhugaða ferð Starfsmannafélagsins til Póllands í haust.  Starfsmannafélagið hefur verið iðið að skipuleggja lengri og skemmri ferðir fyrir sína félagsmenn og styrkur Loðnuvinnslunnar gerir það að verkum að hver félagsmaður þarf að greiða umtalsvert minna úr eigin vasa.

Þá fékk Knattspyrnudeild Leiknis 8 milljónir króna í styrk.  Loðnuvinnslan hefur verið helsti styrktaraðili Knattspyrnudeildar Leiknis um áraraðir.  Styrkurinn felst í búningakaupum, láni á rútu LVF (sem á stundum gengur undir nafninu Leiknisrútan, með slíkum ágætum er samstarfið), auk fjárstyrks.  Valur Sveinsson tók við styrknum fyrir hönd Knattspyrnudeildarinnar og stjórn þeirrar sömu deildar þakkar Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og tryggðina i gegn um árin og segir að styrkur LVF geri gæfumuninn á rekstri deildarinnar.

Kaupfélagið styrkir samfélagið

María Óskarsdóttir, Linda Kristinsdóttir, Jóna Björg Jónsdóttir og Jónína Óskarsdóttir

Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem haldinn var í Wathnessjóhúsinu þann 15.maí voru félagasamtökum og stofnunum færðar góðar gjafir.  Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði voru færðar 2 milljónir króna til kaupa á tækjum og sérfræðiþjónustu.  Jónína Óskarsdóttir fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði, tók á móti styrknum fyrir hönd Heilsugæslustöðvarinnar. Sagði Jónína að stuðningur Kaupfélagsins væri gríðarlega mikilvægur og gagnast afar vel. „Tækjakosturinn á Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði er einn sá besti sem völ er á“ sagði Jónína um leið og hún þakkaði fyrir velvildina.

Þá var félagsskapnum Franskir dagar færðar 800 þúsund krónur til þess að halda árlega bæjarhátið okkar Fáskrúðsfirðinga.  María Óskarsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Franskra daga og sagði að stuðningur Kaupfélagsins og Loðnuvinnslunnar, sem lagði einnig 800 þúsund krónur til hátíðarinnar,  skipta sköpum.  „Styrkurinn frá þessum tveimur aðilum gerir okkur kleift að halda hátíðina“ sagði María og bætti því við að  Kaupfélagið og Loðnuvinnslan væri lang stærsti stuðningsaðili Franskra daga.

Félagsskapur heimamanna um byggingu Fjölskyldu- og útivistagarðs á Fáskrúðsfirði hlaut 1.5 milljónir króna í styrk til sinnar starfssemi.  Hefur uppbygging Fjölskyldugarðsins verið styrkt af einstaklingum og fyrirtækjum í samvinnu við Fjarðabyggð.  Linda Kristinsdóttir tók við styrknum fyrir hönd félagsskaparins.  Hrefna Eyþórsdóttir er forsvarskona fyrir Fjölskyldu- og útivistagarðinn og aðspurð um þýðingu þess að fá styrk sem þennan sagði hún: “Við erum mjög þakklát. Að fá þennan styrk gerir það að verkum að við náum að klára fjármögnun og uppsetningu ærslabelgsins, sem er fyrsta verkefnið okkar. Fjölskyldu- og útivistagarðurinn á eftir að skapa fullt af gleði og gæðastundum fyrir alla aldurshópa og gera fallega Fáskrúðsfjörð að enn betri stað til að búa á og heim að sækja”.

Hollvinasamtök félagsheimilisins Skrúðs fengu styrk uppá 1 milljón króna.  Jóna Björg Jónsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Hollvinasamtakanna.  Sagði Jóna að styrkurinn skipti sköpum fyrir Skrúð og kæmi ríkulega á móti framlagi Fjarðabyggðar til uppbyggingar okkar góða félagsheimilis. „Þetta er afar myndarlegur styrkur“ sagði Jóna „ og við erum mjög þakklát honum“.  Þá tíundaði Jóna stuttlega það sem gert hefur verið í Skrúð hin síðari ár til endurnýjunar og nefndi meðal annars nýja glugga sem eru að verða að meirihluta nýir.  Þá nefndi hún einnig að huga þyrfti að því að lagfæra aðgengi fyrir fatlaða í Skrúð þar sem ekki var hugað að slíku þegar húsið var byggt árið 1966.