Dagana 21. til 30.maí sl. stóð Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fyrir ferð til Budva í Svartfjallalandi. Svartfjallaland er land í suðaustanverðri Evrópu, á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri.

Budva er bær með tæplega 20 þúsund íbúum og státar af afar fallegri strandlengju og dásamlega fallegu umhverfi.

Ferðin hófst á Egilsstaðaflugvelli og við tók rúmlega fjögurra klukkustunda flug og síðan rútuferð til Budva þar sem hópurinn gisti á Hotel Avala.  Hótelið var með ágætum, hafa þurfti í huga að allt var að komast í gang eftir Covid og tíðindalaus undangengin misseri en starfsfólkið var viðmótsþýtt og gerði allt sem í þess valdi stóð til þess að gera dvölina sem besta fyrir hópinn.  Einkaströnd fylgdi hótelinu þar sem gestir fengu afhent handklæði og þar gátu menn einnig fengið sér hressingu. Adríahafið gjálfraði við ströndina og hressandi var að fá sér sundsprett og kæla sig þegar hitinn fór að halla í 30 gráðurnar, en alla dvölina var veðrið frábært, sól og hiti upp á hvern einasta dag.

Ýmsa afþreyingu var hægt að stunda í Budva, eins og  hefðbundið sjósport sólarlanda, að þeysast um á sjóþotum, láta hefja sig til flugs í sitjandi fallhlíf þar sem lína liggur í bát sem dregur mann út og suður, fara í siglingu með TAXA bát, róa á kajak og fleira í þeim dúr. Svo var ýmislegt annað sem fólk gat gert sér til gamans og of langt mál væri að telja upp hér en all nokkrir leigðu sér bíl og óku um og skoðuðu fallega staði.

Þá var boðið upp á skipulagðar skoðunarferðir á vegum ferðaskrifstofunnar sem starfsmannafélagið skipti við. Ein ferð var til Dubrovnik í Króatíu sem er gamall og fallegur bær umlukin háum borgarmúrum. Önnur ferð var farin á vínbúgarð í Svartfjallalandi þar sem gestum var gefin kostur á að smakka framleiðsluna og njóta máltíðar með. Þá var boðið upp á heimsókn í þjóðgarð og svona mætti lengi telja.  Voru ferðirnar vel sóttar og voru þátttakendur almennt mjög sælir í dagslok.

Steinar Grétarsson og Eydís Ósk Heimisdóttir voru með í för og aðspurð svaraði Eydís því til að sér hefði fundist ferðin frábær og vel heppnuð. „Það sem mér líkaði best var ótrúleg náttúrufegurð og svo fallegi gamli bærinn Stari Grad, “ sagði Eydís. En bæinn þann skoðuðu þau hjúin á ferð sinni til Króatíu.

Kvöldið fyrir heimferð bauð Loðnuvinnslan öllum í dýrindis málsverð á huggulegu útveitingahúsi, þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð, og líkt og svo oft áður, var ekkert til sparað til þess að gera kvöldið ánægju-og eftirminnilegt fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar og maka sem tóku þátt í ferðinni.

Að njóta stunda og daga í fallegu umhverfi, í góðu loftslagi og í góðum félagsskap er endurnærandi fyrir líkama og sál og var það gjarnan viðkvæðið þegar fólk hittist á förnum vegi. Allir þeir sem greinarhöfundur spjallaði við höfðu sömu sögu að segja, að ferðin hefði verið frábær og menn gætu varla beðið eftir næstu ferð. Og fyrir hönd alls þess góða fólks sem starfar hjá Loðnuvinnslunni vona ég að hennar verið ekki langt að bíða.

BÓA

Fallegt í Budva
Hluti hópsins í kvöldverðarboði Loðnuvinnslunnar
Hluti hópsins við kvöldverðarboð Loðnuvinnslunnar.
Við heimkomuna á Egilstaðaflugvelli.