Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Hafnarfirði. Aflinn er um 25 tonn. Brottför kl 22:00 ( Eftir landsleik ) Þá verður haldið áfram með Haustrall Hafró.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 160 tonnum af makríl. Skipið heldur til veiða á NA-síld kl 13:00 á morgunn, laugardag.

“Ég var aldrei lítill”

Baldvin Guðjónsson
Baldvin Guðjónsson

Á sumardaginn fyrsta 25.apríl 1935 fæddist drengur í Byggðarholti, húsi sem stendur við Skólaveg  58 á Fáskrúðsfirði.  Var hann þrettánda barn foreldra sinna.  Drengurinn fékk nafnið Baldvin og er Guðjónsson.  Þegar Baldvin var ársgamall flutti hann ásamt fjölskyldunni í hús sem heitir Gestsstaðir sem stendur einnig við Skólaveg og þar bjó Baldvin alveg þangð til að hann flutti á Dvalarheimilið Uppsali fyrir nokkrum árum.  Talandi um upphaf lífsgögnu sinnar sagði Baldvin: „þeim leist nú þannig á karlinn að best væri að stofna slysavarnarfélag“.  Enda skemmtileg tilviljun að slysavarnardeildin Hafdís er stofnuð sama dag og Baldvin leit fyrst dagsins ljós, og gaman að segja frá því að þau eru bæði á góðum járnum enn.

Þrátt fyrir að vera orðinn 82 ára gamall er hugur Baldvins skarpur sem hnífur.  Hann man eftir mönnum, málefnum og atvikum frá liðinni tíð rétt eins og gerst hefðu í gær.  Baldvin hefur ávallt átt heima á Fáskrúðsfirði, hér hefur hann lifað og starfað og skilaði sínu dagsverki vel.  Hann starfaði í yfir fimmtíu ár hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og síðar Loðnuvinnslunni.  „Alla mína starfsævi fyrir utan tvö ár sem ég var í vinnu í frystihúsinu Fram“ segir Baldvin.

Greinarhöfundur bað Baldvin að draga upp mynd af lífinu í Búðaþorpi þegar hann var að alast upp.  „Það var fátækt og mikil barnamergð á flestum heimilum“ segir hann og tilgreinir nokkur heimili þar sem voru tólf og fjórtán börn.  „Lífið gekk út á að draga björg í bú, allir sem gátu áttu kýr og kindur.  Og hænur voru auðvitað allsstaðar, þá var enginn að amast við því þó að haninn galaði“ sagði Baldvin hlæjandi.  Hann rifjar það upp að á einhverju tímabili hafi verið 85 kýr í bænum og 440 kindur á vertarfóðrum, sem þýddi margfalt fleira fé á sumrin þegar lömbin voru komin. „Gekk fé þetta hér í fjallinu og allir höfðu nóg að borða“.  „Þá var mönnum ekki bannað að bjarga sér“ bætir hann við.  Þá sagði hann frá því að margir hefðu átt trillur og fiskað.  Ýsan og þorskurinn voru seld til útflutnings en steinbítur var ekki nýttur á sama hátt.  Þá mátti fólk gjarnan hirða steinbítinn og flestir voru með einhverskonar útbúnað til þess að hengja og þurrka fiskinn þannig að harðfiskur var oftast til.  Talandi um æskuna og uppvöxtin segir Baldvin greinarhöfundi að hann hafi einhverju sinni verið spurður að því hvort að hann hefi verið óþægur þegar hann var lítill og hann sagðist hafa svarað því á þennan veg: „nei aldrei, enda var ég aldrei lítill“. Og vísar þar til þess hversu stór hann var sem barn og er sannarlega enn.

Á þeim árum sem Baldvin er að vaxa úr grasi var ekki mikill tími til að leika sér.  Fljótt þurftu börn að fara að hjálpa til heimavið, hugsa um skepnur og sinna öðrum tilfallandi verkum.  Og Baldvin var þar enginn undantekning.  Hann byrjaði að vinna á barnsaldri. „Björn Stefánsson, fyrsti Kaupfélagsstjórinn fékk mig til þess að koma í vinnu til þess að vigta 100 punda kolapoka ( rúm 45 kíló). Svo þurfti að henda þessum pokum uppá pall og keyra svo heim til fólks og bera pokana þar inn“.  Þegar Baldvin var tólf ára gamall kom hreppstjórinn að máli við hann og bað hann að slétta öll leiðin í Franska grafreitnum.  Þetta var ærinn starfi fyrir tólf ára gutta en Baldvin var öflugur og vann þetta verk samviskusamlega.  Síðan kom franskt herskip og dátarnir máluðu krossana og girðinguna. „Ég fékk vel borgað, það kom ávísun frá franska konsúlnum í Reykjavík og faðir minn sagði að hann hefði aldrei haldið á svona hárri ávísun“.

Síðan vann Baldvin við beitningar í tvö ár.  Þá byggði Búðahreppur frystihúsið Fram og fór Baldvin að starfa þar sem tækjamaður. „Þá var Sölvi Ólason forstjóri og Benedikt á Bergi verkstjóri“ sagði Baldvin skilmerkilega, enda með allt slíkt á hreinu.  Það var svo Gunnar Jónasson sem kom að máli við Baldvin til þess að spyrja hann hvort hann vildi ekki taka að sér að aka vörubíl Kaupfélagsins. Í þá daga þurfti ekkert sérstakt ökuleyfi fyrir vörubíla umfram aðra bíla. Gunnar kenndi honum að aka, Baldvin fór til Eskifjarðar í ökupróf og þar með var hann orðinn bílstjóri, starf sem hann sinnti í áratugi.  Árið 1975 fór Baldvin svo í meiraprófið, eins og það hét þá, enda kröfur um slík réttindi orðin almenn.

„Og hverju varstu svo að aka Baldvin?“ Ég sá til dæmis um að fylla á olíutanka hjá fólki.  Þegar olíukyndingin tók við af kolunum þá var settur stór olíutankur á pallinn á vörubílnum og ég ók um og fyllt á.  Ég sá um 160 heimili, bæði í bænum og sveitinni sem ég þurfti að koma með olíu til einu sinni í mánuði“.  Þá lá vegurinn yfir í Reyðarfjörð yfir Staðarskarð, skarð sem er liggur austan við Höfðahús, og oft var erfitt að komast þar yfir á stórum bíl með fullan olíutank á pallinum.  „Oft var þetta basl á veturna, ég reyndi nú birgja bændur á Kolmúla, Hafranesi, Þernunesi og Vattarnesi upp fyrir veturinn til þess að þurfa ekki að fara á bílnum yfir skarðið í vondri færð og veðrum.  Og þegar það hafði snjóað mikið þurfti  stundum að moka niður allt að tvo metra til þess að komast að tönkunum hjá fólki.  En ég hafði nú oftast hjálp þá“.

Svo ók Baldvin fé í sláturhúsið á hausti.  Kaupfélagið rak sláturhús um langt árabil eins og tíðkaðist um landið allt á árum áður.  „Ég átti sjálfur fé á fjalli þannig að ég smalaði á laugardögum, ók síðan fénu í sláturhúsið á sunnudögum þannig að hægt yrði að byrja að slátra á mánudagsmorgnum.  Þá slátruðu bændur sjálfir.“  Svo rifjar hann upp hvað ávallt hafi verið tekið vel á móti honum á öllum sveitabæjunum sem hann þjónustaði hvort heldur hann kom með olíu eða náði í fé til slátrunnar.  „Viltu ekki kaffi Baldi minn? var allstaðar boðið.  Þetta voru allt vinir mínir“ sagði Baldvin með hlýju.

Þá þurfti líka að aka ís, fiski og  öðru tilfallandi.  Og þá voru ekki til neinir lyftarar eða græjur sem gerðu mönnum starfið léttara. „Maður byrjaði á því að lyfta öllu uppá pallinn, hoppa svo uppá og raða því á pallinn svo að vel færi“. Menn urðu sterkir og stæltir af öllum þessum lyftingum og Baldvin segir að hann hafi bara stælst af þessari vinnu og man ekki til þess að hafa verið vondur í kroppnum.  Þá var það hluti af starfi Baldvins að fara með unglinga inní hjalla sem reistir voru skammt innan við þorpið til þess að hengja upp skreið. „það var skemmtilegt að vinna með unglingunum, en nú eru svo kölluð unglingavandamál.  Hér áður fyrr unnu unglingar við hlið foreldra sinna og það var hollt og gott.  Nú hanga þau bara með síma og myndavélar“.

Baldvin keyrði vörubílinn um allt til þess að sækja og senda vörur og varning.  Hann fór margar ferðir til Reyðafjarðar og Egilsstaða.  Stundum fór hann þrjár ferðar á dag á Reyðarfjörð í Fóðurblönduna.  Og einhverju sinni var hann sendur til Akureyrar eftir smjöri. „Ég þekkti alla á Reyðarfirði, alla á Egilsstöðum og flesta á Eskifirði“ segir Baldvin og segir greinarhöfundi frá  konu frá Reyðarfirði sem starfaði á Uppsölum.  Hann sagðist hafa beðið hana að spyrja pabba sinn hvort hann myndi eftir Baldvin frá Fáskrúðsfirði, kom konan til baka með það svar að pabbi hennar myndi vel eftir Baldvin, hann væri ógleymanlegur svona stór og sterkur.  Og Baldvin hlær að þessu öllu saman.

Þá var Baldvin mikil sláttumaður með orf og ljá.  Greinarhöfundur man eftir að hafa horft á Baldvin slá engi og tún af miklum móð.  Og hann var fljótur.  Hann tók gjarnan að sér að slá fyrir fólk en þá hafði hann yfirleitt ekki tíma nema á nóttunni.  Ófáar bjartar sumarnætur vakti hann og vann með orf og ljá og þegar mál var komið fyrir flesta að rísa úr bælum sínum ræsti Baldvin vélina í vörubílnum.

Á síldarárunum vann Baldvin í hjáverkum í lögreglunni.  Þá var dansað á hverju kvöldi og það kom til Fáskrúðsfjarðar lögreglumaður úr Reykjavík sem hét Lárus Salomonsson. „Hann var fyrirtaksmaður“ sagði Baldvin og bætti því við að hann hefði nú  farið á hjónaball þrátt fyrir að hafa aldrei gifst.  Það hefði hann gert þegar hann var í löggæslustörfum með Lárusi.  Hann sagði einnig að hann hefði verið spurður að því af hverju hann hefði aldrei gifst og hann sagðist hafa svarað því  að það hefði verið viljandi gert, hann hefði ekki vilja skilja ef honum hefði ekki líkað hjónalífið.  Og greina mátti glettni í rödd Baldvins þegar hann sagði þessa sögu.

Aðeins einu sinni fór Baldvin á sjó.  Hann segir málavexti hafa verið með þessum hætti: „ ég var í heimsókn hjá Högna Skaftasyni, sem þá var skipstjóri á Hoffellinu.  Ég heyri að hann er að tala um að sig vanti mann.  Þá segi ég við hann að mig langi nú til að prófa að fara til sjós. „Heldur þú að þú drepist ekki“? spurði Högni. „Ég drepst eins og aðrir“ svaraði ég.  Ég hringdi í Gísla Jónatansson og spurði hann hvort ég mætti ekki fara og Gísli sagðist bara ekki getað neitað mér um það.  Ég fór og það gekk mjög vel.   Ég var ekkert sjóveikur og við veiddum 100 tonn.  Síðan er ákveðið að selja skuli aflann í Færeyjum og Högni segir við mig að ég skuli endilega koma með, ég hafi nú tekið þátt í því að veiða aflann.  Aftur hringi ég í Gísla og hann segir aftur að hann geti nú ekki neitað mér um þetta en svo fari ég aftur á bílinn.  Við vorum í tíu daga í Færeyjum og það var svo gaman“.  Er þetta eina utanlandsferð Baldvins á lífsleiðinni.   „En svo fór ég í  tíu daga ferð með vini mínum Jóni Kristinssyni um Ísland.  Við fórum vestur á firði og skoðuðum okkur um landið“.

Manneskjur koma og fara.  Í lífsins ólgusjó hefur Baldvin misst fjöslyldumeðlimi og vini. Hann lifir einn af sínum stóra systkinahópi og angurvær segir hann greinarhöfundi frá sviplegum dauða systkina, ættingja og vina og þegar hann segir frá lýsir hann áföllunum með því að segja:  „eitt höggið enn“.

Það eru mörg handtökin sem ein manneskja leggur af mörkum á einni starfsævi.  Og sé starfsævin á sjötta áratug eru þau ótrúlega mörg.  Sem dæmi um hversu langt  starfstímabil Baldvins var má nefna að hann starfaði hjá öllum Kaupfélagsstjórunum sem hafa starfað hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga fyrir utan einn. (Núverandi Kaupfélagsstjóri var ekki tekinn við þegar Baldvin lét af störfum.)

Baldvin Guðjónsson þjónaði Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga í rúma hálfa öld í formi starfskrafta sinna.  Nú er mál að þakka allt hans góða starf og hans framlags til Kaupfélgasins sem við þekkjum nú.

Segja má með sanni að spjall okkar hefði getað orðið miklu lengra því margar góðar minningar búa enn í huga Baldvins, en húmið fyrir utan gluggann hvíslaði:  „mál er að linni“.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum af blönduðum afla. Brottför skipsins er á morgunn 3. október kl 10:00. Verkefnið núna er “Haustrall” á vegum Hafrannsóknarstofnunar. Í því felst að skipið tekur 179 togstöðvar á grunnslóð allt í kringum landið. Áætlað er að þetta verkefni taki allt að 4 vikur.

Fanney Linda

Fanney Linda

Þegar regnið lemur á gluggum og vindurinn hvín við hvert horn er gott að vera inni og spjalla við skemmtilega konu. Konan er nefnd Fanney Linda Kristinsdóttir og hún starfar á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.  Linda, eins og hún er jafnan kölluð, er fædd og uppalinn í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð. „Ég er fædd 1957 í Stafholti en flutti síðan tveggja ára gömul í Borgarhlíð“ segir Linda. Húsin sem hún nefnir með nafni standa samsíða við Skólaveg 60 og 62 á Fáskrúðsfirði.  Faðir Lindu, Kristinn Gíslason, byggði Borgarhlíð undir stækkandi fjölskylduna en Linda á tvær eldri systur en yngri bróðir hennar er látinn.

Foreldrar Lindu voru líka Fáskrúðsfirðingar, móðir hennar Lára Þórlindsdóttir var úr Hvammi en faðir hennar ólst upp í húsi sem heitir Steinholt. „Ég er hreinræktaður austfirðingur í báðar ættir“ segir Linda og segir greinarhöfundi skemmtilega sögu því tengdu. „ Það kom hér mannfræðingur fyrir allmörgum árum síðan og vildi fá að hitta það sem hann kallaði hreinræktaða austfirðinga og við mamma vorum beðnar að mæta, þetta átti ekki að vera neitt merkilegt og ekki taka mikinn tíma. En þegar við komum inní skóla þar sem hann hafði aðstöðu vorum við mældar í bak og fyrir. Málbandi var brugðið um nefið, á milli augnanna og hér og þar annarsstaðar og svo þurftum við að svara 200 krossaspurningum“.

Linda hefur líka haldið tryggð við sinn fjórðung, hún hefur ávalt búið á Fáskrúðsfirði fyrir utan tvö ár sem hún bjó á Eskifirði en þangað fór hún til að finna sér mannsefni.  Sautján ára gömul batt hún trúss sitt við Árna Sæbjörn Ólason og halda þau bönd enn. Þau hjónin byggðu sér hús og heimili og eignuðust tvo syni.

„Ég er rík manneskja“ segir Linda, „og það er ekkert sjálfgefið. Ég á góða syni, tengdadætur og barnabörnin eru auðvitað alveg dásamlega“ segir hún með stolti ömmunnar.

Ung fór Linda út á vinnumarkaðinn og vann framan af í frystihúsinu, tók síldarvertíðir þegar tækifæri gafst en hóf síðan störf á skrifstofu Kaupfélagsins síðan Loðnuvinnslunnar árið 1990.  Í 27 ár hefur hún starfað þar við bókhald og önnur tilfallandi skrifstofustörf. „Mitt starf felst helst í því að vinna í bókhaldi en svo sinni ég líka uppgjöri „ segir Linda.  Aðspurð að því hvort að starfið hafi breyst mikið í gegn um þessa tæplega þrjá áratugi sem hún hefur sinnt því segir Linda að það hafi gjörbreyst með tilkomu tækninnar.  „Nú fer allt í gegn um internetið og blýantarnir hafa alveg verið lagðir niður“ segir hún brosandi.  Og hún bætir því við að hún hafi alltaf unnið með svo góðu fólki.

Og hvað gerir þú svo í frístundum Linda? „Maður reynir nú aðeins að hreyfa sig og á sumrin förum við hjónin með hjólhýsið og ferðumst.  „Svo finnst mér gaman að sauma út“ segir hún og talið berst að því hvað faðir hennar saumaði fallegar myndir með sínar stóru og verklegu hendur. „Pabbi var sjómaður framan af ævinni, hann var bæði á gamla Hoffellinu og Bárunni en svo starfaði hann í mörg ár í frystihúsinu“.  Hann vann sem sagt með höndunum alla sína ævi en þessar sömu hendur kölluðu fram listaverk með saumnál að vopni.

Linda er mikil fjölskyldumanneskja, hún veit fátt betra en að fá stórfjölskyldunna í kaffi eða mat um helgar og njóta samvista við sitt fólk.  „Öll fjölskyldan er að fara saman til Spánar“ segir hún og tilhlökkunin leynir sér ekki í andlitinu.

Þegar okkar spjalli er lokið rignir enn. En greinarhöfundur er léttur í spori á heimleiðinni því það er mannbætandi að eyða tíma með góðu fólki, fólki eins og Fanney Lindu Kristinsdóttur.

BÓA

Hoffell

Hoffell er komið til löndunar með um 885 tonn af makríl til vinnslu. Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell kom að landi í gærkvöldi með um 72 tonn. Uppistaða aflans er þorskur. Brottför í næstu veiðiferð er á morgunn, þriðjudaginn 26. september kl 08:00

Nýr skrifstofustjóri Loðnuvinnslunnar hf

Steinþór Pétursson hefur verið ráðinn skrifstofustjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hann tekur við af Halldóri Snjólaugssyni sem hefur starfað hjá okkur í 20 ár.
Steinþór er 55 ára og hefur starfað sem framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna sl. 10 ár, þar áður sem sveitarstjóri í Búðahreppi og Austurbyggð í 12 ár.
Við bjóðum Steinþór velkominn til starfa og þökkum jafnframt Halldóri fyrir góð störf í þágu Loðnuvinnslunnar.

Syngjandi sæl

Þórunn
Baldvin, Guðný og Óskar

Það eru mörg verkefnin sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan styrkir.  Sömuleiðis er mörgum stofnunum og félagasamtökum færðar góðar gjafir.  Ein slík gjöf var afhennt heimilisfólkinu á Dvalarheimilinu Uppsölum á dögunum. Er það söngbók sem er sérstaklega útbúin fyrir þá sem þar búa og starfa.  Söngbók þessi telur 93 síður og inniheldur rúmlega 100 sönglög, íslensk og erlend, en öll með íslenskum texta.  Verður söngbókin notuð á vikulegum söngfundum heimilismanna.

Kunnu heimilsfólk Uppsala, sem og starfsfólk, vel að meta gjöfina og hefur bókin þegar verið tekin í notkun. „Hún er dásamleg“ sagði dama ein sem hefur heimilisfestar á Uppsölum, „lögin skemmtileg og letrið svo stórt og gott. Skilaðu innilegu þakklæti“ bætti hún við og annað heimilisfólk tók undir.

„Sælla er að gefa en að þyggja“ stendur skrifað og var það sannarlega upplifun greinarhöfundar sem varð þess heiðurs aðnjótandi að færa heimilisfólki Upplala þessa söngbók að gjöf og syngja með þeim fyrstu lögin úr bókinni. Þegar söngurinn var þagnaður, kaffisopinn búinn og tími til að halda sína leið voru þakkirnar ítrekaðar og er þeim hér með komið á framfæri.

BÓA

Hoffell

Hoffell er nú á landleið með um 865 tonn af makríl sem fékkst í Síldarsmugunni. Verður inni í nótt.

Ljósafell

Ljósafellið landaði um 75 tonnum, aðallega þorski sem er ágætis veiði eftir tvo daga á miðunum.

Okkur líður eins og drottningum

Frá vinstri: Lynette Hodder, Denise Nola, Christine Selby, Susan Chisholm, Mystie Ford

Þann 19. janúar 1977 var austurlandið þakið snjó.  Snjóskaflar hölluðu sér makindalega upp að húsveggjum og kyrrstæðum bílum, höfðu haft tækifæri til að safnast saman í óveðri sem geysað hafði nokkra daga á undan.  Skammdegið var ríkjandi og þrátt fyrir hina hvítu mjöll var myrkrið ansi svart síðdegis, því tunglsljós var ekkert.

Inn í þetta umhverfi gengu tíu ungar konur sem höfðu ráðið sig til fiskvinnslustarfa hjá Hraðfrystihúsinu á Fáskrúðsfiði.  Flugvél flutti þær frá Reykjavík til Egilsstaða þar sem rúta beið þeirra og ók þeim sem leið lá um Fagradal, út sunnanverðan Reyðarfjörð, fyrir Vattarnesskriður og inní Búðaþorp sem stendur við Fáskrúðsfjörð.  Þar stöðvaði rútan fyrir framan Valhöll, hús sem hefur um langt árabil haft það hlutverk að hýsa fólk, ýmist sem hótel, gistihús eða verbúð.  Í Valhöll skyldi heimili þessara ungu kvenna vera næstu mánuðina.

Flestar voru konurnar frá Ástralíu, en aðrar voru frá Nýja Sjálandi og einhverjar frá evrópulöndum en einhverra hluta vegna gengu þær undir samheitinu „áströlsku stelpurnar“ og þó að þær hafi ekki vitað það þá, ríkti álíka mikil spenna meðal bæjarbúa vegna komu þeirra eins og meðal þeirra sjálfra.

Nú fjörtíu árum síðar eru fimm af þessum konum staddar hér á Fáskrúðsfirði.  Það eru þær Susan Chisholm, fædd á Nýja Sjálandi en hefur búið í Ástralíu í þrjátíu ár.  Mystie Ford, fædd á Nýja Sjálandi, ólst upp að mestu í Skotlandi en býr nú í Ástralíu.  Christine Selby, fædd á Nýja Sjálandi og býr þar enn.  Lynette Hodder fædd í Ástralíu og býr þar enn og Denise Nolan, fædd í Ástralíu en hefur búið á Englandi s.l fjörutíu ár.

Greinarhöfundur hitti þær stöllur að máli í Kaupvangi, húsi sem stendur fast við hliðina á Valhöll, þeirra fyrsta heimili hér á Fáskrúðsfirði, og sögðu þær strax í upphafi samtalsins hvað þeim þætti vænt um að dvelja í þessu húsi því að Valborg Björgvinsdóttir, sem bjó í Kaupvangi á þeim tíma sem þær dvöldu hér, var ein af þeim konum sem tóku á móti þeim í frystihúsinu og kenndi þeim handtökin þar.

En hvernig datt konum í kring um tvítugt, frá fjarlægri heimsálfu, að ráða sig í fiskvinnu á Íslandi?  Hugmyndin kom til þeirra á mismunandi hátt en þó með þeim sama hætti að þær fréttu af þessari vinnu frá öðrum.  Susan og Christine voru að vinna á hóteli í Skotlandi, fengu sér göngu eftir vinnu á göngustíg einum og á krossgötum hittu þær tvær stúlkur sem sögðu þeim að þær hefðu verið að vinna í fiski á Íslandi.  Mystie hafði verið að vinna í Ísarel sem hjúkrunarfræðingur og var nýlega komin heim til foreldra sinna í Skotlandi þegar hún frétti af því að hægt væri að fá vinnu við fisk á Íslandi.  Systurnar Lynette og Denise störfuðu á hóteli í London þegar vinkona sagði þeim frá því að hún hefði verið að vinna á Íslandi í fiski og það væri mjög vel borgað. „Hún sagði að hún hefði aflað nægra peninga á fimm mánuðum til þess að ferðast um heiminn það sem eftir lifði ársins, og þá urðum við virkilega spenntar fyrir vinnunni“ sögðu þær Lynette og Denise.

Það sem þær þurftu að gera var að fara á ákveðna skrifstofu í London sem hét Icelandic Freezing company og sækja um.  Var þetta skrifstofa sem réð fólk til starfa við fiskvinnslu allt í kring um Ísland. Sögðu dömurnar að þetta hefði nú varla verið starfsviðtal heldur hefðu þær verið spurðar að því hvort að þær væru hraustar og treystu sér til að vinna erfiðisvinnu og svo var þeim sagt að það þýddi ekkert að vera með heimþrá.  Ekki höfðu þær áhyggjur af því þar sem þær höfðu allar ferðast töluvert um heiminn og voru nokkuð sigldar í þeim skilningi.  Á þessari skrifstofu hittust þær tíu ungu konur í allra fyrsta sinn sem ferðuðust síðan saman alla leið til Fáskrúðsfjarðar og bjuggu síðan saman í sex mánuði en það var tíminn sem hver og ein var ráðin í upphafi.

Hvernig var upplifunin þegar þið komuð hér fyrst? „Það var skrýtið, það var svo dimmt og ég man að ferðalagið frá flugvellinum var svo langt og við sáum ekki neitt, það voru hvergi ljós.  En svo þegar við stoppuðum fyrir utan Valhöll var ljós í hverjum glugga og ég vissi að þetta yrði góður tími“.  Svona lýsir Lynette upplifun sinni.  Og hinar taka í sama streng.

Vinnan í frystihúsinu var stundum erfið því það var mikill afli sem barst að landi sem þurfti að vinna. „En það var gaman, við vorum tvær og tvær saman á borði við að skera fiskinn og við gátum spjallað saman og það var oft mikið hlegið“ rifja þær upp. „Og svo gengum við heim í Valhöll í kaffitímum og í hádeginu og okkur fannst við alltaf vera svo heppnar að vinna í svona umhverfi.  Þá mátti fara heim í sloppunum svo við þurftum ekki einu sinni að hafa fataskipti“ bættu þær hlæjandi við.

Þær unnu sér inn mikla peninga á þessu tímabili „við horfðum á upphæðina á bankabókinni vaxa“ sagði Christine „enda var ekki hægt að eyða miklum peningum hér í þorpinu nema í bíó og á böll þegar þau voru“.

Hvernig var ykkur tekið af heimamönnum? „Okkur var svo vel tekið, í frystihúsinu var fullt af fólki á öllum aldri sem tók okkur opnum örmum.  Við vorum boðnar í mat og kaffi í heimahús, og meira að segja í fermingarveislu“ sögðu þær.  Þá voru ungir menn sérstaklega duglegir að heimsækja þær í Valhöll og þar var oft glatt á hjalla. „Við vorum stundum þreyttar þegar við mættum í vinnu“ sögðu þær með dreymandi bros á vörum.

Af þeim tíu ungu konum sem komu í janúar ´77 eru þær sex sem hafa haldið sambandi í geng um árin.  Fimm eru, eins og áður sagði, með í ferðinni en ein átti ekki heimagengt að sinni.

Þegar dömurnar voru inntar eftir því hvort að þessi tími sem þær eyddu hér á Fáskrúðsfirði sem ungar konur hefði haft áhrif á líf þeirra og hvort að þeim hefði stundum verið hugsað til þessa tíma verða svörin all tilfinningþrungin.  Þær voru allar sammála um að þessi tími hefði haft mikil áhrif á líf þeirra og varla liðið sá dagur að þeim væri ekki hugsað til hans.  Susan segir frá draumi sem hana hefur dreymt ítrekað s.l. fjörtíu ár þar sem henni finnst hún vera stödd á Fáskrúðsfirði og ávallt um vetrartíma því allt er þakið snjó.  Í draumnum gengur hún um göturnar og sér fólk sem hún þekkti. Og þegar hún vaknar af draumnum er henni þungt fyrir brjósti.

Vökudrauminn um að koma aftur til Íslands og á Fáskrúðsfjörð hafa þær gengið með lengi. Tilvalið var að halda uppá fjörtíu ára tímamótin með því að koma en ferðalag frá Ástralíu og Nýja Sjálandi er bæði langt og dýrt.

„Við héldum að ein vika væri allt of langt stopp, það eru jú fjörtíu ár síðan við vorum hér, engin man eftir okkur og fólk sem fjörtíu ára og yngra var ekki einu sinni fætt!“ „þetta sögðum við hvor við aðra áður en við komum, en okkur langaði bara svo að koma aftur, kannski fá að kíkja inní frystihúsið en aðallega að ganga um bæinn og rifja upp góðar minningar“ sögðu þær.  Og þær fara stórum orðum um móttökurnar „Jónína Óskarsdóttir hjálpaði okkur mikið að skipuleggja og hefur verið okkur innan handar, líka Esther Brune“ taka þær skýrt fram. „Okkur líður eins og drottningum, slíkar hafa móttökurnar verið.  Við fengum frábæran túr í gegn um frystihúsið, Loðnuvinnslan bauð okkur í dásamlegan mat og gaf okkur gjafir“ og greinarhöfundur skynjar greinilega hversu dýrmæt þessi heimsókn hefur verið þessum konum.  Þær lýsa því fjálglega hvernig fólk hefur stoppað þær út á götu og sagt „ég man eftir ykkur“ og það yljaði þeim um hjartarætur.  Þá hittu þær fólk sem þær þekktu og það bauð þeim heim til sín. „Allt þetta góða viðmót og að upplifa að fólk man eftir okkur rétt eins og við eftir þeim er dásamleg lífsreynsla, og við gætum auðveldlega  eytt annarri viku hér“ sögðu þær allar sem ein.

Allt of langt mál er að útskýra hvernig það atvikaðist að greinarhöfundur kvaddi þær Susan, Mystie, Christine, Lynette og Denise með því að syngja fyrir þær lagið Blíðasti blær eftir Óðinn G. Þórarinnsson, lagið sem við Fáskrúðsfirðingar köllum stundum „þjóðsöngin“ okkar.  Og þegar komið var að kveðjustund var ekki þurr hvarmur í húsinu.  Sú staðreynd að dvöl þessara „áströlsku stelpna“ áður og nú,  hafi hreyft eins mikið við hjörtum þeirra og raun bar vitni var nóg til þess að greinarhöfundur deildi með þeim tárvotri stund í forstofunni í Kaupvangi.

BÓA